131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Menningarsamningur fyrir Vesturland.

713. mál
[18:23]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Í byggðaáætlun frá mars 1999 er lögð áhersla á að efla menningu á landsbyggðinni og í kjölfarið var Byggðastofnun falið að leiða undirbúningsvinnu við gerð menningarsamninga. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi tóku þátt frá upphafi og hugmyndir starfshóps að skipulagi voru kynntar fyrir sveitarstjórnarmönnum á Vesturlandi í júní 2001. Þar var skipulag og innihald menningarsamnings á Austurlandi höfð til fyrirmyndar. Þáverandi menntamálaráðherra svaraði bréfi frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi þann 29. júní 2001 á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

„Menntamálaráðuneytið er reiðubúið til viðræðna við yður um samstarf á grundvelli sérstaks samnings sem byggist á sömu grundvallarsjónarmiðum og samningur ráðuneytisins við sveitarfélög á Austurlandi.“

Drög að menningarsamningi voru samin í samvinnu ráðuneytis og SSV með gildistíma til ársloka 2005 og er dagsetning á lokum gildistíma gott vitni um tímann sem þetta er búið að taka án þess að samningur hafi verið undirritaður. Ítrekað hefur verið vakið máls á málinu á Alþingi, m.a. af þeirri sem hér talar, en án árangurs og fyrirspurn frá SSV var send til ráðherra þann 16. mars sl. Ár eftir ár er vitnað til þess að fjármagn sé ekki fyrir hendi á fjárlögum, en ekki hefur verið unnið í að fá því breytt. Segir það allt sem segja þarf um áhugann og viljann. Nú síðast hafa samningar við Austfirðinga verið endurnýjaðir.

Nú eru til samningar milli ráðuneytisins við Ísafjarðarbæ og Vestmannaeyjar um menningarhús við Hafnarfjörð og Hafnarfjarðarleikhúsið um starfsemi leikhússins, menningarsamningur við Akureyrarbæ og menningarsamningur við sveitarfélög á Austurlandi, en enn hefur ekkert markvert gerst í samningamálum við SSV.

Spurningin er hvað veldur því að samningur við þetta landsvæði er dreginn svo á langinn sem raun ber vitni og hversu lengi á þetta að ganga svo til að fundnar séu nýjar og nýjar tylliástæður til að ljúka ekki verkinu?

Ég spyr því hæstv. ráðherra:

1. Hvað líður gerð menningarsamnings fyrir Vesturland?

2. Hvenær er áætlað að hægt verði að undirrita menningarsamning milli menntamálaráðuneytisins og Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi?