131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Menningarsamningur fyrir Vesturland.

713. mál
[18:26]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þingmaður kom inn á hefur staðið til í nokkur ár að undirrita menningarsamning við sveitarfélögin á Vesturlandi á grundvelli skýrslu um menningarmál á því svæði og viðræðna milli fulltrúa ráðuneytisins og sveitarfélaganna.

Ég svaraði fyrir nokkru fyrirspurn sem beint var til mín um menningarsamning við Eyþing og kom þá inn á að það liggur fyrir í ráðuneytinu að ganga til viðræðna á ný við Vestlendinga, en með breyttum forsendum af hálfu ríkisins. Þær forsendur eru fyrst og fremst þær að allir samningsaðilar beri ábyrgð, bæði fjárhagslega og faglega, en slíkur samningur með þeim áherslum var undirritaður nýlega við Austlendinga og var þar nokkuð mikil breyting á frá fyrri samningi við Austlendinga. Samkomulag hefur tekist á milli menntamálaráðuneytis og samgönguráðuneytis að bæði ráðuneytin verði aðilar menningarsamninganna sem ríkið mun gera og þannig nái samningarnir einnig til menningartengdrar ferðaþjónustu.

Ég vil í þessu sambandi nota tækifærið og greina þingheimi jafnframt frá því að Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur sent ráðuneytinu fyrir hönd allra sveitarfélaga á Vestfjörðum ósk um samstarf við ráðuneytið um menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Þegar ráðuneytið hóf undirbúning að viðræðum við Vestlendinga árið 2001 um menningarsamning var það vilji menntamálaráðuneytis að Vestfirðingar yrðu einnig aðilar slíks samnings. Því var svarað til af hálfu Vestlendinga að þeir mætu stöðuna svo eftir óformlegar viðræður við Vestfirðinga að hentugra væri að hvor landshluti fyrir sig ynni að undirbúningi menningarsamnings, en þær forsendur gætu hins vegar breyst með nýrri kjördæmaskipan.

Ráðuneytið mun nú í viðræðum sínum við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Fjórðungssamband Vestfirðinga óska eftir því að þeir skoði formlega hvort ekki getið verið flötur á samstarfi þeirra í þessum málaflokki með einn samning í huga. Fyrir liggur að gerðir hafa verið tveir menningarsamningar sem í gildi eru, þ.e. við Akureyri um þátttöku ríkisins í menningarlegri atvinnustarfsemi og við Austfirðinga um menningarmál. Þá hafa eftirtalin sveitarfélög óskað eftir menningarsamningi við ríkið, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Eyþing – Samtök sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Samband sunnlenskra sveitarfélaga og Fjórðungssamband Vestfirðinga. Öll þau sveitarfélög hafa lagt fram menningarstefnu sína til grundvallar viðræðum.

Því má segja að sveitarfélög á öllu landinu, að undanskildum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi ásamt Norðvesturlandi, hafa óskað eftir slíku samstarfi.

Skoðun mín er að ekki eigi að gera marga menningarsamninga og ekki eigi einungis að miða slíka samninga við samtök sveitarfélaga á landinu, heldur eigi þeir að ná til eins stórra landsvæða og hægt er og gefa þannig sveitarfélögum tækifæri á að vinna saman að þessum málaflokki með nýjum hætti og nýrri hugsun. Austfirðingar hafa t.d. skipt landsvæði sínu allt frá Höfn í Hornafirði að Vopnafirði í fjögur samstarfssvæði.

Ég hef sannfærst um að menningarsamningar sem þessir eru byggðarlögum í landinu mjög mikilvægir í atvinnusköpun. Það kemur best í ljós við lestur metnaðarfullrar stefnumótunar þeirra. Samningarnir eru líka mikilvægir fyrir ráðuneytið og stjórnvöld þar sem þeir gefa fólki tækifæri til sköpunar og landsmönnum öllum tækifæri á að njóta fjölbreytilegrar menningar um land allt. Ráðuneytið er einnig sannfært um að menningarmál munu í auknum mæli skipta máli í atvinnusköpun á landinu og til þess þurfi stuðning stjórnvalda.

Alþingi hefur lagt metnað sinn í að tryggja varðveislu menningararfsins og ég tel menningarsamningana stuðla að aukinni menningarsköpun, nýsköpun á sviði lista og menningar sem einnig þurfi að hlúa að.

Á fjárlögum 2005 er ekki gert ráð fyrir fleiri menningarsamningum en þegar hafa verið gerðir. Sé miðað við að sambærilegar fjárveitingar yrðu veittar til hvers og eins landsfjórðungs og Austurlands, má ætla að þær séu ekki undir 100 millj. kr. árlega. Undirbúningur fyrir fjárlagagerð innan ráðuneytis er hafin, en það er borin von að menntamálaráðuneytið geti gengið til samstarfs við fleiri sem óskað hafa eftir samstarfinu, nema fjárveitingar komi til á fjárlögum. Því get ég í raun ekki svarað fyrirspyrjanda því til á þessari stundu hvenær undirritun menningarsamnings við Vesturland fari fram. Það byggist á viðræðum við aðila, sem og hvort fjárveitingar muni fást.

Hv. þingmaður nefndi að það væru alltaf dregnar fram einhverjar tylliástæður til að skáskjóta sér undan samningagerð. Það er alveg ljóst að það er eindreginn vilji minn að gera þessa samninga og ljóst að Vesturland hefur og mun hafa þar forgang og það svæði, vonandi í samstarfi við Vestfirðinga, en það er ekki hægt að kalla það tylliástæðu þegar fjárlög ráða ferðinni eins og hv. þingmaður veit mætavel. Fjárlög eru lög eins og öll önnur frumvörp sem eru samþykkt á hinu háa Alþingi.