131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Menningarsamningur fyrir Vesturland.

713. mál
[18:30]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Þetta hljómar allt einhvern veginn mjög kunnuglega, því miður, breyttar forsendur, fjárlög hljóta að ráða, ekki er gert ráð fyrir þessu á fjárlögum 2005 o.s.frv. Að sjálfsögðu veit ég þetta allt. Ég veit líka að það kemst ekkert á fjárlög nema barist sé fyrir því að hlutirnir komist á fjárlög. Ég geri ekki ráð fyrir að Vestlendingar ætlist til þess að fá undirritaðan samning á morgun sem taki gildi næsta dag. Ég reikna með að þeir yrðu bara sælir og glaðir ef samningur yrði undirritaður á þessu ári og hann gengi í gildi með nýjum fjárlögum á næsta ári. Það tel ég eðlileg vinnubrögð.

Ég tel það hins vegar ekki eðlileg vinnubrögð að ganga ekki í verkin og ljúka þeim. Ég tel heldur ekki eðlilegt að lofa einhverju í byggðaáætlunum og fyrir kosningar og klára ekki verkið. Mér finnst það með fádæmum að gengið hafi verið að þessu verki með hangandi hendi allt frá 2001 og alltaf verið að finna eitthvað nýtt og nýtt til. Nú eru það breyttar forsendur, verið er að fá ráðuneyti samgöngumála inn í það og síðan á að taka Vestfirðinga með í dæmið og gott ef ekki Norðlendinga vestri líka. Þetta samstarf þessara svæða, það er búið að ræða það í hópi þessara sveitarfélaga. Þau telja ekki tímabært að haga málum þannig, enda held ég að hver einasti maður hljóti í rauninni að sjá að það er allt of þungt í vöfum að vera með heilt kjördæmi undir í þessum málum.

Ég ætla að nota síðustu mínúturnar til þess að brýna hæstv. ráðherra til að ganga að þessu verki og ég trúi ekki öðru en hæstv. samgönguráðherra sé fús til að bretta upp ermar þannig að það fáist gengið frá því á þessu ári.