131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Athugasemd.

[13:34]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér hafa borist um það upplýsingar að eftir eftirrekstur hafi utanríkisráðuneytið loksins svarað umsókn Mannréttindaskrifstofu Íslands um rekstrarstyrk á þessu ári. Er beiðninni synjað. Sagt er að þess í stað eigi að styrkja eða efla mannréttindi á alþjóðavettvangi með því að kosta hálfa stöðu hjá ÖSE. Áður hafði dómsmálaráðuneytið ráðstafað 2,2 millj. kr. af þeim 4 sem þar eru á fjárlögum til að efla mannréttindastarfsemi. Niðurstaðan er sem sagt sú að ráðuneytin tvö til samans ráðstafa annars vegar 2,2 millj. kr. og hins vegar 0 millj. kr. til reksturs Mannréttindaskrifstofunnar sem hefur undanfarin mörg ár haft 8 millj. kr. eyrnamerktar á fjárlögum af hverjum gengu samkvæmt samningi 1,2 millj. til Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands.

Þessi afgreiðsla er með þvílíkum endemum, herra forseti, í ljósi þeirrar umræðu sem fram fór á þingi fyrir áramótin þegar meiri hlutinn tók fjárveitingar út af fjárlögum sérmerktar til Mannréttindaskrifstofunnar en vísaði þess í stað á að sækja ætti um styrki á óskipta fjárlagaliði þessara tveggja ráðuneyta. Hér er verið að skera algerlega niður við trog, kippa grundvellinum undan þessari stofnun, þessari miðstöð mannréttindabaráttunnar á Íslandi sem er fulltrúi Íslands í norrænu og alþjóðlegu samstarfi sem stjórnvöld hafa sjálf talið sér til tekna á alþjóðavettvangi að styrkja með fjárveitingum, þar á meðal nú síðast þegar eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna með borgaralegum og stjórnmálalegum mannréttindum yfirheyrði fulltrúa stjórnvalda um nákvæmlega þetta atriði. Þá er því lofað að af þessum óskiptu fjárveitingaliðum muni ganga fjármunir til reksturs Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Afgreiðsla meiri hlutans á Alþingi var auðvitað hneyksli, að setja Mannréttindaskrifstofuna í þá stöðu að þurfa að knékrjúpa um fjárveitingar ráðuneytum sem hún á einmitt m.a. að veita aðhald. Afgreiðsla ríkisstjórnarinnar er reginhneyksli og ég krefst þess, herra forseti, að frumvarp okkar þingmanna stjórnarandstöðunnar (Forseti hringir.) um fjáraukalög þar sem rekstur Mannréttindaskrifstofunnar verði tryggður (Forseti hringir.) komist á dagskrá og verði afgreitt fyrir þinglausnir.