131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Athugasemd.

[13:48]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þá hefur hið háa Alþingi fengið tilsögn í prúðmennsku frá hæstv. utanríkisráðherra og eflaust ekki vanþörf á. Þó er ástæða til að ætlast til þess af hæstv. utanríkisráðherra að hann sýni Alþingi Íslendinga þá prúðmennsku að gera grein fyrir því hvers vegna fjárveiting til Mannréttindaskrifstofunnar er skorin niður af ríkisstjórn þeirri sem hann veitir forustu í raun réttri úr 8 millj. kr. í 2,2 millj. kr. eftir að sama skrifstofa hefur á liðnum þingvetri leyft sér að gagnrýna efnislega og harðlega nokkur áform sem hæstv. dómsmálaráðherra hafði uppi í lagafrumvörpum á Alþingi.

Þetta lítur því miður þannig út að verið sé að refsa Mannréttindaskrifstofu og þeim lögfræðingum sem þar starfa með niðurskurði á fjárveitingum fyrir að hafa uppi og halda frammi málefnalegum sjónarmiðum í lýðræðislegri umræðu. Það er mikilvægt að hæstv. utanríkisráðherra sýni okkur þá prúðmennsku, okkur sem yngri erum og hann þarf að veita sérstakt tiltal um hvernig eigi að hegða sér þætti vænt um ef hann vildi sýna okkur þann heiður að gera grein fyrir því hvernig á þessu stendur og reyndi að sýna okkur fram á að ekki sé verið að refsa Mannréttindaskrifstofu fyrir að hafa haldið uppi málefnalegri gagnrýni á störf ríkisstjórnarinnar.

Um annað er ekki beðið og ég trúi, hæstv. forseti, að það séu ekki dylgjur af neinu tagi heldur einföld og prúð ósk til hæstv. utanríkisráðherra um að hann svari málefnalegum fyrirspurnum á málefnalegan hátt.