131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

.Samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu.

704. mál
[13:57]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Tillagan til þingsályktunar var kynnt nánast í forkynningu í utanríkismálanefnd á dögunum. Farið var yfir efnisatriði hennar til að freista þess að greiða málinu leið innan þings og í nefnd. Í fljótu bragði hygg ég að ég geti lýst því yfir að við í Samfylkingunni erum öll af vilja gerð til þess að málið verði unnið hratt og vel innan nefndar þannig að þinginu verði unnt að ljúka afgreiðslu þess á yfirstandandi þingi, enda nauðsynlegt. Það hefur gerst á liðnum árum, ef ég man rétt, að samsvarandi staðfesting á samningum hafi komið seint og um síðir til kasta þingsins og löngu eftir að samningar hafa tekið gildi og veitt hefur verið eftir þeim.

Nú er því hins vegar ekki þannig háttað. Meginatriði málsins liggur í dagsetningunni 20. júní og ytri umgjörð málsins er sambærileg frá því sem verið hefur. Ég vil þó halda því til haga að í greinargerðinni er sá fyrirvari hafður á að ef forsendur breytast hvað varðar leyfðan heildarafla eða önnur atriði sem hugsanlega geta valdið verulegum breytingum á hlutdeild Færeyinga í heildarafla á Íslandsmiðum verði þess freistað með öllum ráðum að réttar nefndir þingsins verði hafðar með í ráðum áður en nýjar ákvarðanir verði teknar í þá veru. Þá á ég ekki síst við sjávarútvegsnefnd þingsins og eftir efnum og aðstæðum utanríkismálanefnd þingsins.

Að öðru leyti ítreka ég að það mun ekki standa á okkur í Samfylkingunni að klára málið fljótt og vel.