131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu.

704. mál
[14:20]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan lögsögu okkar og Færeyinga á þessu ári. Þetta er að mér sýnist hefðbundinn samningur. Í þetta skipti hefur samningurinn hreinlega verið afgreiddur með bréfaskiptum á milli Íslands og Færeyja sem er kannski vitnisburður um það hversu gott andrúmsloftið er nú á milli okkar og Færeyinga í þessum málum. Það hafa ekki farið sendinefndir á milli landa til að semja, ef svo má segja, á formlegum samningafundum, heldur fæ ég ekki betur séð en að menn hafi einfaldlega leyst þetta í bróðerni. Það er að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni að okkur skuli lynda vel við nágranna okkar í fiskveiðimálunum. Það er annað og miklu betra upp á teningnum þegar Færeyingar eru annars vegar en þegar til að mynda viðskipti við Norðmenn eru uppi á borðinu. Þar eigum við nú í illvígum deilum, bæði um norsk-íslensku síldina, þar sem veiðar hefjast brátt, en einnig varðandi kolmunnann, eins og fram hefur komið í fyrri ræðum í dag.

Ég ætla ekki að fara mikið út í þá sálma hér og nú, vil bara minna á að Færeyingar hafa reynst okkur afskaplega vel í uppsjávarveiðunum. Þeir hafa sýnt okkur mikinn skilning, þeir hafa leyft okkur að veiða kolmunna í lögsögu sinni þar sem við höfum þurft að komast að þeim stofni. Ég hygg að skipin okkar sem eru nú á kolmunnaveiðum séu einmitt að veiðum í færeysku lögsögunni. Þetta hefur gagnast okkur ákaflega vel, við höfum getað stundað þarna veiðar og oft á tíðum mjög góðar veiðar. Við höfum einnig getað fengið aðgang að löndunum hjá Færeyingum. Við höfum líka fengið að veiða norsk-íslenska síld í færeyskri lögsögu þegar hún var að ganga í fyrsta skipti yfir hafið eftir margra áratuga fjarveru. Það skipti okkur mjög miklu máli og var mjög dýrmætt fyrir okkur einmitt til að afla okkur samningsstöðu í viðræðum, m.a. við vini okkar Norðmenn.

Það er margt annað í þessum geira sem vekur vonir um að við getum átt enn þá meiri og betri samskipti við Færeyinga á þessum sviðum en verið hefur. Íslensk fyrirtæki eru að hasla sér völl í Færeyjum. Í gær að mig minnir sáum við til að mynda mjög jákvæða frétt um að Samskip hefðu verið að kaupa þar upp frystigeymslu fyrir fisk sem hægt verður að landa í framtíðinni, ekki síst úr íslenskum skipum.

Við erum að sigla inn í mjög spennandi tíma hvað varðar norsk-íslensku síldina. Sá stofn er í mjög örum vexti og margt sem bendir til þess að hann muni nú í auknum mæli taka upp fyrri göngur sínar yfir norðaustanvert Atlantshaf, frá ströndum Noregs yfir til Íslands og Færeyja yfir sumartímann. Þá verður mjög dýrmætt fyrir okkur og vígstöðu okkar, ef svo má segja, að eiga góð samskipti við vini okkar og frændur í Færeyjum.

Ég vil lýsa því yfir að ég er mjög ánægður með að samningurinn skuli liggja fyrir til samþykktar á hinu háa Alþingi. Ég á ekki von á öðru en að þingsályktunartillagan fái góða og skjóta afgreiðslu fyrir þinglok í ár og að hin ágætu samskipti okkar við Færeyinga verði áfram vísir að því sem koma skal, því við þurfum á Færeyingum að halda ekki síður en þeir á okkur þegar fiskveiðimál og fiskveiðistjórn eru annars vegar.