131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Sáttmáli um verndun mannréttinda og mannfrelsis.

705. mál
[14:32]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir undirtektir hans við þennan málatilbúnað. Ég tel að færð hafi verið fyrir því fullgild rök að með því að skipa rútínumálum, endurtekningarmálum og minni háttar málum í ákveðinn farveg eigi einmitt að gefast ríkari tími til að taka til efnismeðferðar þau vandamál er mannréttindi snerta með raunverulegum hætti þannig að vönduð efnismeðferð slíkra hluta verði fær. Vegna ofurálags á dómendum við núverandi skipan og mikinn fjölda mála má færa fyrir því rök að ekki gefist nægilegt tóm og skilyrði til að gera það með myndarlegum hætti.

Hitt er annað mál sem ég hef aðeins verið að velta fyrir mér upp á síðkastið, hvort ekki sé orðið dálítið ankannalegt hversu mjög Mannréttindadómstóllinn hefur eiginlega breyst í eins konar þriðja stigs áfrýjunardómstól gagnvart innlendum dómstólum hér á landi og annars staðar, jafnvel þannig að hann velti fyrir sér upphæðum vegna skaðabóta og þess háttar og kemst að öðrum niðurstöðum varðandi upphæðir í þeim tilvikum en innlendur réttur. Maður veltir fyrir sér hvort það sé sú tegund úrskurðar í mannréttindamálum sem dómstóllinn eigi að vera í, hvort hann eigi ekki að líta til hinna stærri prinsippa varðandi mannréttindamál frekar en breytast í einhvers konar venjulegan áfrýjunarrétt gagnvart innlendum rétti. Það held ég að hafi aldrei verið meiningin og í raun mundi það naumast standast framvísun valds innan þess ramma sem fullveldinu er markaður af stjórnarskrá ef það gerðist með þeim hættinum. Við viljum gjarnan vera undir þá sök seld að fá leiðbeiningar um takmarkað tilfelli er að mannréttindum lúta þó að við teljum auðvitað mannréttindi hér vera í a.m.k. mjög góðu lagi miðað við það sem annars staðar gerist og þekkt er fremur en, eins og ég segi, að um sé að ræða annað áfrýjunarstig gagnvart álitamálum sem innlendir dómstólar eiga að fjalla um.

Þetta vil ég láta koma fram, þessar vangaveltur sem hafa búið um sig, með mér a.m.k., á undanförnum missirum.