131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Breyting á XIII. viðauka við EES-samninginn.

606. mál
[14:42]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli framsögumanns stend ég að nefndaráliti utanríkismálanefndar með fyrirvara og ég vil gera lítillega grein fyrir því í hverju sá fyrirvari er fólginn. Ísland á í sjálfu sér ekki margra annarra kosta völ en að gerast aðili að þessari evrópsku flugöryggisstofnun eins og málum er háttað því að hún er að taka við verkefnum Flugöryggissamstaka Evrópu sem Ísland hefur verið aðili að og sem að sjálfsögðu hefur verið veigamikið atriði og mikilvægur aðili í framkvæmd þessara mála.

Það eru hins vegar ýmsir álitaþættir sem koma upp þessu máli samfara sem ég sé ástæðu til að ræða hér og ég geri fyrirvara við. Það fyrsta er einfaldlega það að hér er samevrópsk stofnun, Flugöryggissamtök Evrópu, að renna inn í eða verða að Evrópusambandsstofnun. Evrópusambandið er sem sagt að taka inn undir stofnanauppbyggingu sína þetta samevrópska hlutverk sem áður var í Flugöryggissamtökum Evrópu. Þá koma auðvitað upp álitamál eða núningsfletir af því tagi sem deilum ullu í samningaviðræðunum um hina nýju flugöryggisstofnun. Það var fyrst og fremst tvennt sem þar var upp á teningnum af Íslands hálfu og deilt var um, annars vegar ágreiningur um kostnað, að hve miklu leyti EFTA-ríkin bæru kostnaðinn af starfsemi stofnunarinnar úr því að um væri að ræða stofnun sem væri í stofnanakerfi Evrópusambandsins, og svo hins vegar sú krafa EFTA-ríkjanna að þau hefðu atkvæðisrétt í þessari nýju stofnun eins og þau höfðu haft í Flugöryggissamtökunum og verið fullgildir aðilar á allan hátt í.

Það er skemmst frá því að segja að uppskeran varð ekki mikil af viðleitni Íslendinga í samningaviðræðunum. Ég skal ekki fara nákvæmlega með það hvernig þessu er varið með kostnaðinn en ég veit ekki til annars en að Íslendingar borgi fullkomlega sinn hluta miðað við eðlilegar skiptareglur en hvað varðaði atkvæðisrétt í stofnuninni var svarið einfaldlega þvert nei. Hér er svo sagt að það sé í samræmi við reglur EES-samningsins.

Þetta er auðvitað ekki eina dæmið, hvorki fyrsta og örugglega ekki það síðasta, þar sem svipuð þróun er að verða, þar sem Evrópusambandið er að knýja fram svipaða þróun, um að samevrópsk verkefni sem áður hafa verið á grunni sérstakra samninga, hvort sem þau eru er á sviði flugmála, mannréttindamála eða slíkra hluta. Evrópusambandið tekur þá hluti einfaldlega til sín, leggur undir sig samevrópskar stofnanir eða samevrópsk samtök og knýr önnur Evrópuríki til að tengjast þeim á þann hátt sem er þá í boði, EFTA-ríkjunum eftir atvikum í gegnum EES-samninginn eða með hliðstæðum hætti og eftir því sem EES-samningurinn býður upp á, a.m.k. Íslandi, Noregi og Liechtenstein, gegn því að menn borgi sinn hluta að fullu í rekstrarkostnaði stofnana án þess þó að fá í þeim fullgild réttindi.

Þetta er að sjálfsögðu, herra forseti, ekki sérstaklega spennandi fyrirkomulag. Þetta er ekki sérstaklega hagfelld niðurstaða fyrir okkur og hlýtur t.d. að vakna sú spurning hvort ekki sé ástæða til þess í svona tilvikum að reyna frekar að berjast fyrir því að samevrópskar stofnanir, samevrópsk samvinna af þessu tagi sem nær út fyrir landamæri Evrópusambandsins, hve vítt sem þau liggja, fái að halda stöðu sinni.

Hvað mundu t.d. Íslendingar segja ef Evrópusambandið kæmi einn góðan veðurdag og segði: Það er óþarfi að starfrækja Evrópuráðið og Mannréttindadómstól Evrópu? Við getum bara tekið við þessu og farið með þetta inn í stofnanakerfi Evrópusambandsins. Þær þjóðir sem ekki eiga aðild að Evrópusambandinu verða þá að semja með einhverjum hætti um stöðu eða aðild undir því fyrirkomulagi. Ég er hræddur um að þar með þætti mönnum farið að þrengjast nokkuð um en í raun má taka sem dæmi margar hliðstæður af því tagi, þar sem samstarf Evrópuríkja hefur áður verið á samevrópskum grunni og allra Evrópuríkja, sem landfræðilega teljast til Evrópu, þar með talið Rússland, ríki við Svartahaf og Tyrkland og fleiri slík, sem geta talist til Evrópu og jafnvel rúmlega það, hafa verið aðilar að.

Þetta er að öðru leyti sá fyrirvari sem ég hef á um þetta mál. Mér finnst niðurstaðan ekki vera sérstaklega spennandi eða sérstaklega hagstæð okkur þó að rétt kunni að vera að það sé um fátt annað að ræða en að láta sig hafa það að fara inn í þessa nýju Flugöryggisstofnun á þeim grunni sem í boði er.

Hitt er svo annað mál að þarna afsölum við okkur ákveðnu sjálfstæði sem við höfum haft í okkar höndum varðandi samstarf við önnur ríki, tegundaviðurkenningar á flugvélum og flugvélahlutum og fleira í þeim dúr, sem menn ganga núna formlega frá. EFTA-ríkin eiga að skuldbinda sig til að láta ákvarðanir Flugöryggisstofnunarinnar gilda og gefa ekki lengur út slíkar viðurkenningar sjálf.

Nú er það ábyggilega rétt, sem fram kemur í fylgiskjölum með frumvarpinu, að í aðalatriðum geti þetta fyrirkomulag orðið okkur og öllum Evrópuríkjum hagstætt, að þetta sé samræmt og gert á einum stað. En ég held að þó verði að hugleiða og velta því fyrir sér hvort þessu geti líka fylgt ókostir hvað varðar samskipti, t.d. við önnur flugsvæði. Ég hef ekki farið yfir það sjálfur eða haft aðstöðu til að kynna mér eða fara yfir það í þaula, sem sérfræðingar hafa sjálfsagt gert, að í þessu séu engar þær hættur eða gryfjur sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Það væri gott og vel. En svo mikið þekki ég til sögunnar frá fyrri tíð að oft gat það komið sér vel fyrir Ísland að hafa ákveðið svigrúm í þessum efnum og geta hagað málum eftir eigin þörfum. Eru náttúrlega frægust að því leyti samskipti okkar við Bandaríki Norður-Ameríku í flugmálum og umtalsverð réttindi sem við náðum út á sérstöðu okkar og í bland út á að geta hagað uppbyggingu mála á okkar eigin forsendum og þátttöku okkar í alþjóðasamstarfi. Íslensk flugfélög á sinni tíð voru sum aðilar að Alþjóðasambandi flugfélaga en önnur ekki, sem er náttúrlega kapítuli út af fyrir sig sem ástæðulaust er að rekja hér. En þeir sem þekkja til ævintýrisins mikla í fluginu yfir Norður-Atlantshafið hjá Loftleiðum vita til hvers ég vísa.

Það getur verið ástæða til að skoða ýmis slík mál og hugleiða. Ég hef hvorki aðstöðu til né gögn undir höndum til að gera endanlega upp við mig hvort þetta sé einhlítt og rakið mál. Þess vegna hef ég kosið að hafa þennan fyrirvara á um stuðning minn við málið, sem ég hef nú gert grein fyrir.