131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Græðarar.

246. mál
[15:21]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég skrifa undir þetta nefndarálit um frumvarp til laga um græðara með fyrirvara. Ég er í sjálfu sér sammála frumvarpinu að því leyti að það færir upp á yfirborðið starfsemi sem er meðal allra þjóðfélaga og allra samfélaga manna, hefur sennilega alltaf verið til, og kemur á ákveðnu kerfi til að skrá það og halda utan um það.

Hins vegar verð ég að benda á að það er ákveðinn munur á milli hefðbundinna og óhefðbundinna lækninga og sá munur felst í því að hefðbundnar lækningar styðjast við raunvísindi sem viðurkennd eru meðal flestra þjóða heims, eiga uppruna sinn hjá vestrænum þjóðum og byggja á því að settar eru fram ákveðnar vísindakenningar sem sannaðar eru með tilraunum. Tilraunirnar skulu vera endurtakanlegar þannig að hver og einn geti staðfest kenninguna með því að endurtaka tilraunina.

Þetta á ekki við um óhefðbundnar lækningar. Þær hafa ekki verið staðfestar, þær eru ekki sannaðar og þar af leiðandi geta menn ekki treyst þeim. Það er ekki þar með sagt að þær séu hugsanlega ekki réttar. Við erum ekki búin að fá fulla mynd af heiminum með raunvísindum okkar og það er sífellt verið að gera nýjar og nýjar uppgötvanir. Við eigum enn þá mjög langt í land með hafa endanlega kannað allan heiminn og fundið svör við öllum spurningum. Þess vegna er ekki útilokað að einhverjar þeirra aðferða sem beitt er í óhefðbundnum lækningum séu réttar þó að þær hafi ekki verið vísindalega sannaðar. Þar á ég t.d. við nálastungur.

Ég vildi benda á að vera kann að einhver haldi að óhefðbundnar lækningar séu þá í einhverjum skilningi sannaðar en þær eru ekki sannaðar með aðferðum raunvísindanna.

Svo er það önnur saga að eflaust mættu hin hefðbundnu læknavísindi reyna að sanna meira af óhefðbundnum aðferðum og beita til þess vísindalegum aðferðum, sanna hvort þær aðferðir sem hafa sýnst duga fólki vel í lengri tíma hafi vísindalegan bakgrunn. Það mætti skora á læknavísindin og hefðbundna lækna að taka fyrir ýmis mál eins og nálastungur og annað slíkt og reyna að byggja upp kenningar í kringum slíkar óhefðbundnar lækningar og staðfesta þær með rannsóknum.