131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Verðbréfaviðskipti.

503. mál
[16:09]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við fulltrúar Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd styðjum þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti í megindráttum, en í því eru lagðar til ýmsar breytingar á lagaákvæðum um markaðs- og innherjasvik, yfirtöku og útboð sem styrkja lög um verðbréfafyrirtæki. Einnig er ákvæði sem styrkir Fjármálaeftirlitið sem kveður á um gagnsæi í eftirliti þess með verðbréfaviðskiptum, að það verði aukið, sem er til mikilla bóta. Einnig er ástæða til að fagna að eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins eru auknar í samræmi við tilskipun um markaðssvik og að Fjármálaeftirlitið geti, undir ákveðnum kringumstæðum, stöðvað atvinnustarfsemi tímabundið eða að skipulegur verðbréfamarkaður geti stöðvað tímabundið viðskipti með fjármálagerninga.

Þó að hér sé verið að styrkja eftirlit með fjármálamarkaðnum er ýmislegt sem betur mætti fara, virðulegi forseti, og ástæða til að styrkja enn frekar ákvæði þessara mikilvægu laga um fjármálamarkaðinn en ekki er að öllu leyti farið að þeim tillögum sem eftirlitsstofnunin, Fjármálaeftirlitið, sem fylgjast á með verðbréfamarkaðnum, leggur til.

Fjármálaeftirlitið er ein þýðingarmesta eftirlitsstofnunin í stjórnsýslu okkar, ásamt Samkeppnisstofnun og Ríkisendurskoðun. Umfang eftirlitsins er stöðugt að aukast með auknum umsvifum á fjármálamarkaði, bæði innlendum og erlendum og útrásum fyrirtækja á erlendum markaði. Brýnt er að Fjármálaeftirlitið hafi þau úrræði sem til þarf til að skapa eðlilegar leikreglur og heilbrigt umhverfi í fjármálakerfi okkar. Sífellt bætast líka ný verkefni á Fjármálaeftirlitið, m.a. með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu. En ástæða er til að halda því til haga að ekki er gert ráð fyrir fjármagni vegna þess kostnaðarauka sem verið er að setja á Fjármálaeftirlitið með frumvarpi þessu, ef að lögum verður, og hefur Fjármálaeftirlitið bent á það.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu sem fylgir með frumvarpinu er gert ráð fyrir 15 millj. kr. kostnaðarauka en lögin eiga að taka gildi á miðju ári. Ekki var gert ráð fyrir þessum viðbótarkostnaði þegar við fjölluðum um fjárhagsgrundvöll Fjármálaeftirlitsins fyrir jólin, þótt á það væri bent að frumvarp væri á leiðinni sem kallaði á aukin útgjöld hjá Fjármálaeftirlitinu frá miðju þessu ári. Leggja verður áherslu á að gert verði ráð fyrir þessum kostnaði við næstu fjárlagagerð eða næst þegar fjallað verður um fjárhagsgrundvöll Fjármálaeftirlitsins, en eins og þingmenn þekkja eru það eftirlitsskyldir aðilar sem standa straum af kostnaði Fjármálaeftirlitsins.

Ég vil nú lýsa þeim breytingartillögum sem ég flyt við frumvarpið ásamt hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni en þær eru eins og ég gat um áður í samræmi við umsögn og álit Fjármálaeftirlitsins.

Breytingartillagan í 1. tölul. snertir yfirtökuskylduna í 5. gr. frumvarpsins, þ.e. 5. gr. b (37. gr.) þar sem kveðið er á um hvenær tilboðsskylda stofnast í skráðu hlutafélagi. Þar vil ég vitna til þess sem um þetta ákvæði segir hjá Fjármálaeftirlitinu, með leyfi forseta:

„Í b-lið 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um hvenær tilboðsskylda stofnast í skráðu hlutafélagi. Í 3. mgr. greinarinnar er sett fram löglíkindaregla fyrir því að samstarf verði talið vera fyrir hendi. Fjármálaeftirlitið kom því sjónarmiði á framfæri við undirbúning frumvarpsins að til þess að yfirtökureglur næðu því markmiði sínu að kveða á um yfirtökuskyldu þegar skráð félag væri undir yfirráðum tengdra aðila væri æskilegt að það hlutfall sem kveðið er á um í 3. tölul. 3. mgr. nýrrar 37. gr., þ.e. 5. gr. frumvarpsins, væri 20% atkvæðisréttar í stað eins þriðja hlutar. Að mati Fjármálaeftirlitsins er eðlilegt að miða við 20% þegar metið er hvort samstarf sé fyrir hendi og benda má á í því sambandi að ársreikningalög skilgreina 20% eignarhlutdeild í félagi sem hlutdeildarfélag og líta því á slíka hlutdeild sem verulega eignarhlutdeild, sem er til þess fallin að hafa áhrif á rekstur viðkomandi félags. Að mati Fjármálaeftirlitsins eru verulegar líkur á að sameiginlegir hagsmunir stofnist mun fyrr en við yfirráð (40% eignarhlut) eða einn þriðja hluta atkvæðisréttar.“

Við tökum undir þessi sjónarmið, ekki síst vegna þess að fram kom á fundi efnahags- og viðskiptanefndar hjá fulltrúum Fjármálaeftirlitsins og forstöðumönnum þess að þeir legðu áherslu á að miða við 20% í staðinn fyrir þriðjung og að slíkt ákvæði væri sett í lög vegna nokkurra mála sem komið hafa upp í gegnum tíðina og orkað hafa tvímælis. Fjármálaeftirlitið hefur legið undir ágjöf fyrir að taka ekki á þeim málum sem það gat ekki af því að það hafði ekki lagastoð til þess. En í nokkrum slíkra mála sem hafa snert yfirtöku og tengsl aðila í því sambandi var einmitt kallað eftir viðbrögðum Fjármálaeftirlitsins og hefði verið hægt að taka á þeim málum í fortíðinni ef það hefði verið í lögum það sem Fjármálaeftirlitið er að gefnu tilefni að kalla eftir, þ.e. að miða við 20%.

Hér á landi er sannarlega þörf fyrir slík ákvæði, ekki síst vegna smæðar markaðarins og mikilla eignatengsla milli félaga. Núgildandi lög eru þannig að yfirtökuskylda myndast ekki fyrr en eftir að samanlagður eignarhluti eins aðila myndar a.m.k. 40% atkvæðisréttar í félagi, en í frumvarpinu er verið að skilgreina nánar tengslin og í hvaða tilvikum megi beita því. Þó er ekki gengið eins langt og Fjármálaeftirlitið er að kalla eftir, þ.e. að miðað verði við 20%.

Það hefur áður verið hægt að fara í kringum ákvæðið, t.d. gátu tengd félög samanlagt átt yfir 40% eða jafnvel 50% eða 60% hlut án þess að yfirtökuskilyrði myndaðist og mjög tengd félög gátu samanlagt átt meira en 40% í félagi. Á þessu er vissulega verið að taka nú með því að skilgreina hvað teljast tengdir aðilar og með því er verið að auka vernd minni hluthafa.

Ég tel engu að síður að of skammt sé gengið og vísa þar til reynslunnar, eins og ég sagði, að Fjármálaeftirlitið sætti ákúrum fyrir að taka ekki á málum sem þeir hefðu getað gert ef tengsl hefðu verið skilgreind við 20% atkvæðisrétt en ekki þriðjung eins og gert er ráð fyrir í nýju ákvæði í frumvarpinu. Það er ástæða til að ítreka það að af einhverjum ástæðum hefur þótt ástæða til að miða við 20% þegar skilgreint er hvað telst hlutdeildarfyrirtæki, en það er nú í lögum miðað við 20% og ljóst að veruleg ítök skapast við slíkan eignarhlut. Einnig má benda á að í Bretlandi er miðað við 20%, eins og lagt er til í þeirri breytingartillögu sem ég mæli fyrir, en reynslan sýnir að svo stór hluti er ráðandi hlutur í tengslum milli aðila eins og Fjármálaeftirlitið hefur bent á. Það er einmitt mat Fjármálaeftirlitsins, eins og ég var að lýsa og fram kemur í umsögninni að verulegar líkur séu á að sameiginlegir hagsmunir stofnist mun fyrr en við yfirráð miðað við 40% eignarhlut eða 1/3 atkvæðisréttar.

Það kemur einmitt fram, eins og ég lýsti áðan í umsögninni, að verulegar líkur séu á því að sameiginlegu hagsmunirnir stofnist fyrr. Ég hefði talið að það hefði líka átt að skoða yfirtökuskylduna sem miðar við samanlagðan eignarhlut við a.m.k. 30% atkvæðisréttar þó vissulega þurfi líka að horfa til þess að þrenging á yfirtökuskylduákvæði geti leitt til að skráðum félögum í Kauphöll fækki.

Ég vil líka vekja athygli á því sem fram kemur í umsögn Fjármálaeftirlitsins þar sem þeir kalla eftir því að geta beitt stjórnvaldssektum við markaðssvik.

Í umsögn Fjármálaeftirlitsins segir, með leyfi forseta:

„Ákvæði 14. gr. tilskipunar 2003/6/EB um markaðssvik, um heimildir eftirlitsaðila til að beita stjórnvaldsaðgerðum og stjórnvaldssektum er ekki innleitt með þessu frumvarpi. Mat ráðuneytisins og niðurstaða nefndarinnar sem um tilskipunina fjallaði var sú að um stærra málefni væri að ræða en svo að unnt væri að ljúka því án verulegra tafa fyrir frumvarpið í heild.“

Virðulegi forseti. Ég botna ekki í síðustu athugasemdinni, að þetta sé svo stórt mál að ekki hefði verið unnt að ljúka því án verulegrar tafar fyrir frumvarpið vegna þess að aðeins er um eina tilvísun í grein í lögunum að ræða sem fjallar um stjórnvaldssektir, eins og fram kemur í 3. tölulið breytingartillögunnar sem við flytjum, og því fyrst og fremst spurning um vilja til að bæta þessu við.

Fjármálaeftirlitið hefur heimild til stjórnsýslusekta ef formreglur um innherjaviðskipti eru brotnar. Þá heimild fékk eftirlitið árið 2003 og hefur því verið beitt einum 15 sinnum en heimild til sekta er á bilinu 10 þús. til 2 millj., en sektir Fjármálaeftirlitsins í þeim tilvikum sem ákvæðinu hefur verið beitt eru á bilinu 50–750 þús. Heimildin er aftur á móti ekki til staðar ef um er að ræða markaðssvik eins og markaðsmisnotkun sem felst í því að hafa áhrif á gengi skráðra verðbréfa eða ef einhver hefur átt viðskipti á grundvelli innherjaupplýsinga. Þau mál þarf nú að fara með fyrir dómstóla sem er svifaseint og þungt í vöfum og því er full ástæða til þess að veita Fjármálaeftirlitinu tæki til þess að hafa eftirlit með því að markaðssvik viðgangist ekki með því að veita því heimild til þess að beita stjórnvaldssektum við markaðssvik. Út á það gengur 3. töluliður breytingartillagnanna sem ég mæli fyrir, virðulegi forseti.

Ég er sannfærð um að það mundi hafa veruleg varnaðaráhrif gegn markaðsmisnotkun ef Fjármálaeftirlitið hefði þessa heimild og held að það sé hreinlega ekkert annað en fyrirstaða hjá ráðuneytinu sem dregur greinilega lappirnar í þessu efni þegar sagt er að um sé að ræða stærra málefni en svo að unnt sé að ljúka því án verulegrar tafar fyrir frumvarpið í heild. Flytjum við því þessa breytingartillögu þar sem kveðið er á um heimild Fjármálaeftirlitsins til þess að beita stjórnvaldssektum þegar um er að ræða markaðssvik, t.d. ef viðskipti hafa farið fram með verðbréf á grundvelli innherjaupplýsinga, en brýnt er að Fjármálaeftirlitið hafi slíkt úrræði sem veita mundi markaðnum mikið aðhald og treysta að heilbrigðar leikreglur gildi á verðbréfamarkaðnum.

Loks vil ég fjalla um þá breytingartillögu sem fram kemur í 2. tölulið er snýr að 20. gr. frumvarpsins, sem merkt er e (72. gr.), um gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlits. Fram kemur í greininni, með leyfi forseta, að:

„Fjármálaeftirlitinu er heimilt að birta opinberlega niðurstöður í málum og athugunum er varða ákvæði laga þessara, nema ef slík birting verður talin stefna hagsmunum fjármálamarkaðarins í hættu, varðar ekki hagsmuni hans sem slíks eða veldur hlutaðeigandi aðilum tjóni sem ekki er í eðlilegu samræmi við það brot sem um ræðir.“

Sú breytingartillaga sem við leggjum til er að í staðinn fyrir að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að birta opinberlega niðurstöður í málum verði því skylt að gera það og teljum að þó að það komi inn þarna orðið „skylt“ í stað „heimilt“ er ákveðinn varnagli til staðar sem kveður á um að þeim sé ekki skylt að birta opinberlega niðurstöður í málum ef slík birting verður talin stefna hagsmunum fjármálamarkaðarins í hættu og varðar ekki hagsmuni hans sem slíks eða veldur hlutaðeigandi aðilum tjóni sem ekki er í eðlilegu samræmi við það brot sem um ræðir. Við teljum að þetta sé skýrara en að hafa slík heimildarákvæði. Það er þá hægt að ganga að því sem vísu að slíkar upplýsingar séu alltaf birtar opinberlega nema í þessum undantekningartilvikum.

Fjármálaeftirlitið hefur ekki hingað til fjallað opinberlega um einstök mál eða málefni einstakra eftirlitsskyldra aðila nema mælt sé fyrir um upplýsingaveitingu í lögum og eftirlitsskyldir aðilar eða almenningur hefur því ekki haft aðgang að niðurstöðum í einstökum málum nema þær hafi verið birtar af öðrum aðilum en Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið, eins og fram kemur í greinargerðinni með frumvarpinu, hefur oft sætt gagnrýni vegna þessa og nefnt í því sambandi að varnaðaráhrif af aðgerðum Fjármálaeftirlitsins og niðurstöðum þess séu lítil og aðgerðir þess í einstökum málum stuðli ekki nægilega að bættri framkvæmd á fjármálamarkaði í heild vegna þess að þó að Fjármálaeftirlitið sé að taka á málum sem ganga gegn lögum, t.d. um verðbréfaviðskipti, verður almenningur lítið var við þetta eða aðrir eftirlitsskyldir aðilar þar sem Fjármálaeftirlitið hefur ekki haft heimild til þess að birta niðurstöðu sína í einstökum málum. En aðilar á markaði, eins og fram kemur, hafa einmitt á undanförnum vikum talað fyrir auknum heimildum til handa Fjármálaeftirlitinu til slíks gegnsæis eins og verið er að boða.

Það væri ástæða til þess að hafa um þetta mörg orð. Ég hef áður fjallað um mikilvægi þess að Fjármálaeftirlitinu væri gert skylt að birta slíkar niðurstöður í málum sem það er að skoða og hér er vissulega komið til móts við það. En við leggjum til, virðulegi forseti, að þetta verði skylda en ekki heimilt, eins og ég nefndi áðan.

Ég tel ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fjalla frekar um frumvarpið. Við styðjum efni þess með þeim breytingartillögum sem við höfum lagt til, sem eru afar mikilvægar og ég tel að muni styrkja verulega markaðinn og gera hann trúverðugri og heilbrigðari á allan hátt ef gengið er til móts við þær breytingar sem við leggjum til sem munu styrkja Fjármálaeftirlitið verulega.