131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[16:31]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og fram kemur í athugasemdum við lagafrumvarpið er það lagt fram í kjölfar þess að árið 2003 voru sett ný raforkulög og er tilgangur frumvarpsins að afnema þær undanþágur sem orkufyrirtæki hafa haft frá tekjuskatti og eignarskatti. Fyrrnefnd raforkulög voru sett með það að markmiði að koma á samkeppnismarkaði í orkumálum landsmanna í samræmi við orkumálatilskipun Evrópusambandsins. Einn liður í því var að hluta orkufyrirtækin niður þannig að vinnsla, flutningur og dreifing raforku færi fram í þremur aðskildum fyrirtækjum til að auka svonefnt gagnsæi í rekstri orkufyrirtækjanna. Þrátt fyrir ítrekuð og vel tímanleg varnaðarorð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um það vandræðaástand sem til yrði í orkumálum á Íslandi hirti ríkisstjórnin ekki um að fá undanþágu frá tilskipuninni vegna aðstæðna hér á landi. Hér er því komið enn eitt frumvarpið sem miðar að því að fækka agnúum hins nýja fyrirkomulags. Athygli vekur að starfshópur fjármálaráðherra hefur glímt við þetta verkefni frá því í desember árið 2000.

Fyrsti minni hluti leggst eindregið gegn frumvarpinu, fyrst og fremst vegna þess að það byggist á hugmyndum um markaðsvæðingu í almannaþjónustu og skattapólitík sem er andstæð hagsmunum almennings. Mun ég nú gera nánari grein fyrir þeirri afstöðu og öðru sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði teljum athugavert við frumvarpið.

Orkufyrirtæki á Íslandi eru ekki aðeins ólík að stærð heldur einnig að því leyti að sum þeirra fást ekki aðeins við smásölu á raforku heldur einnig dreifingu og sölu á heitu vatni, jafnvel einnig venjulegu neysluvatni. Það á t.d. við um Orkuveitu Reykjavíkurborgar. Þau eiga það hins vegar flest sameiginlegt að starfsemi þeirra snýst um að koma tilteknum lífsnauðsynjum til almennings eftir veitukerfum sem komið var á fót með samfélagslegu framtaki á vegum ríkis og sveitarfélaga. Þetta eru fyrirtæki sem fást við almannaþjónustu sem hefur lengi verið talin sjálfsagður hluti af mannsæmandi lífi á Íslandi og aðstaða þeirra veitir þeim svokallaða náttúrulega einokun á sínu sviði. (Gripið fram í: Hvar var Verslunarráðið?) Ja, það er nú það. Nú er það orðið bann í landinu að efna til samfélagslegs átaks og allt sem byggt hefur verið upp á slíkum grundvelli skal bútað niður, eyðilagt og fært út á markaðstorgið.

Á þessum hugmyndafræðilegu forsendum hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð ávallt lagt ríka áherslu á að slík veitustarfsemi sé í sameign fólksins sem nýtir þjónustuna og að hún sé rekin þannig að almenningur geti bæði búið við mikið öryggi og lágmarksgjaldtöku.

Breytingar ríkisstjórnarinnar á skipan raforkumála á síðustu árum hafa gengið gegn þessu markmiði. Er í því sambandi skemmst að minnast stórfelldra gjaldskrárhækkana um land allt um síðustu áramót eftir að orkufyrirtækjum var gert að reikna sér arð af starfseminni og láta hvern einstakan þátt starfseminnar standa undir sjálfum sér upp á krónur og aura. Það gefur augaleið að verði þetta skattheimtufrumvarp að lögum munu orkufyrirtækin velta þeim álögum beint út í verðlagningu sinnar þjónustu og hækka gjaldskrár sínar enn frekar.

Í álitsgerðum sem efnahags- og viðskiptanefnd hafa borist frá samtökum launafólks, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og orkufyrirtækjunum kveður alls staðar við þennan sama tón, þau eindregnu varnaðarorð að nái frumvarp ríkisstjórnarinnar fram að ganga og verði það lögfest sé það ávísun á gjaldhækkanir á þessu sviði.

Í reynd er hér á ferðinni frumvarp um aukna skattlagningu almennings sem nú hefur í rétt tíu ár verið látinn bera sívaxandi hlutfall af heildarskattbyrði allra framteljenda í landinu. Gerðar hafa verið ýmsar breytingar á skattkerfinu á Íslandi. Þær hafa flestar verið fyrst og fremst í þágu fyrirtækja og stórefnafólks en ekki hugað að hagsmunum þeirra sem minnstar tekjurnar hafa. Á sama tíma njóta stóriðjufyrirtæki áfram sérstaks útsöluverðs á raforku til sinnar starfsemi og endalausra skattfríðinda en hvort tveggja er í boði almennings samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Í þessu ranglæti kristallast skattstefna ríkisstjórnarinnar sem eigi að síður lætur í veðri vaka að hún reyni stöðugt að bæta lífskjör almennings með breyttri skattheimtu. Það sem gerir þetta skattheimtufrumvarp sérstakt er að það miðar að því að færa ríkinu auknar tekjur með nýrri skattlagningu á lífsnauðsynjar sem fram til þessa hafa verið undanþegnar skatti. Enginn getur verið án rafmagns, húshitunar eða annarrar þjónustu sem almenningur sækir til þeirra fyrirtækja sem hér eiga í hlut.

Fyrsti minni hluti telur einnig rétt að vekja máls á því að engin tilraun er gerð til að viðurkenna þann mikla mun sem er á tilteknum tegundum virkjana í umhverfislegu tilliti heldur er lagður sami flati skatturinn á alla aðila. Eðlilegra hefði verið að hvetja með einhverjum hætti til umhverfisvænnar orkuvinnslu úr því að efnt er til þessarar skattlagningar á annað borð. Þannig er það mjög athugavert að skattleggja eigi t.d. smáar rennslisveitur til jafns við risavaxnar vatnsaflsvirkjanir með stórum uppistöðulónum.

Fyrsti minni hluti telur frumvarpið sýna enn og aftur hversu misráðið það var af ríkisstjórninni að leggja í þá vegferð að markaðsvæða jafnmikilvæga almannaþjónustu og veitustarfsemi landsmanna. Nær væri að hefja vinnu við að vinda ofan af þeim vandamálum sem sú markaðsvæðing hefur nú þegar haft í för með sér heldur en að auka enn frekar á þá mismunun og ringulreið sem af henni hefur hlotist.

Okkur hefur borist fjöldinn allur af álitsgerðum frá hagsmunaaðilum, frá samtökum í atvinnulífi, eins og ég gat um áðan, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og frá orkuveitum og ætla ég að víkja að ýmsu sem ég tel nauðsynlegt að vekja máls á við þessa umræðu.

Alþýðusamband Íslands, stærstu samtök launafólks á Íslandi, hafa uppi mjög ákveðin varnaðarorð. Í álitsgerð Alþýðusambandsins er m.a. vikið að greinargerð frumvarpsins þar sem því er haldið fram að markmiðið með lögunum sé að tryggja jafnræði í skattalöggjöf á þessu sviði í takt við almenn samkeppnissjónarmið. Síðan segir í álitsgerð Alþýðusambands Íslands, með leyfi forseta:

„Þegar nánar er gáð þá felast í þessu frumvarpi verulegar breytingar á skattalegu umhverfi veitufyrirtækja, fyrirtækja sem hafa verið í eigu sveitarfélaga og hafa veitt þjónustu sem hingað til hefur verið litið á sem samfélagslega þjónustu.“

Alþýðusamband Íslands heldur áfram, með leyfi forseta:

„Með gildistöku nýrra raforkulaga, nr. 65/2003, urðu miklar breytingar á umhverfi raforkufyrirtækja. Umrædd lög fela í sér aðskilnað milli framleiðslu, flutnings, dreifingar og sölu á raforku ásamt því að markaðsleg arðsemiskrafa er sett á rekstur þeirra. Í kjölfar síðustu breytinga á raforkumarkaði, sem tóku gildi um síðustu áramót þegar flutningur og dreifing á raforku var aðskilin, urðu miklar hækkanir á raforku. Orkufyrirtækin rökstuddu hækkanirnar með auknum kostnaði sem þau höfðu orðið fyrir við kerfisbreytinguna á raforkumarkaði. Breytingarnar á raforkumarkaði eru ekki að fullu komnar til framkvæmda. Um næstu áramót verður sala á raforku að fullu gefin frjáls. Reynsla annarra þjóða sýnir að það muni taka raforkumarkaðinn allnokkurn tíma að ná nýju jafnvægi. Því er það óráðlegt að ráðast í aðrar umfangsmiklar breytingar á umhverfi orkufyrirtækja án þess að áhrif nýrra raforkulaga verði komin í ljós.“

Alþýðusambandið er að vara við því að ráðist sé í þessa skattkerfisbreytingar núna vegna þess að uppi sé mikil óvissa í þessum geira og það sé ekki enn komið fram hvað muni henda, hverjar verði afleiðingar þeirra umfangsmiklu breytinga sem gerðar hafa verið á raforkugeiranum. Við þær aðstæður, segir Alþýðusamband Íslands, er ráðlegt að staldra við.

Enn fremur segir í álitsgerð Alþýðusambandsins, með leyfi forseta:

„Það er vert að benda á í þessu sambandi að þrátt fyrir að markmið nýrra raforkulaga sé að auka samkeppni á orkumarkaði er ljóst að hún mun verða takmörkuð. Skýrist það af smæð markaðarins og landfræðilegri legu landsins. Það er því líklegt að hér á landi muni í besta falli ríkja fákeppni á raforkumarkaði. Það eru sterkar líkur á því að fyrirtækin muni nýta sér þessar aðstæður á markaði og velta útgjöldum vegna tekju- og eignarskatts út í verðlag á orku og það mun koma mest niður á almennum neytendum. Þessar krefisbreytingar mun koma verst niður og harðast niður á almennum neytendum. (Gripið fram í: … formaður efnahags- og viðskiptanefndar …)

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram“ — segir enn fremur, með leyfi forseta, í þessari álitsgerð — „að erfitt er að leggja mat á áhrif þessara breytinga á raforkuverð og arðsemi orkufyrirtækja. Alþýðusambandið telur það óásættanlegt að ráðist verði í frekari umbreytingar á orkumarkaði án þess að lagt verði mat á áhrif þeirra fyrir neytendur.

Alþýðusambandið leggur því til að frumvarpið verði ekki samþykkt.“

Alþýðusambandið er að mælast til þess við Alþingi að við samþykkjum ekki þetta frumvarp.

Það er tvennt sem ég vil staldra ögn við. Alþýðusambandið bendir á að vegna smæðar markaðarins, vegna legu landsins — það er aðskilið frá hinum stóru mörkuðum í Evrópu — þá sé líklegt að hér verði annað uppi á teningnum en gerist á meginlandi Evrópu, svo dæmi sé tekið.

Ég held reyndar að hið sama sé að gerast í Evrópu varðandi fákeppnina og er líklegt að eigi sér stað hér á landi. Að öllum líkindum verða þetta þegar fram í sækir, ef fram fer sem horfir, örfá fyrirtæki í landinu sem sinna þessu verkefni. Hið sama er að gerast í Evrópu. Þar er samkeppnin minni en menn gerðu ráð fyrir. Nýbúið er að gera skýrslu á vegum Evrópusambandsins um þróun raforkumarkaðarins eftir að haldið var út á þessa braut markaðsvæðingar og niðurstaða þeirrar könnunar er sú að um sé að ræða minni samkeppni á þessu sviði en menn höfðu ætlað, miklu minni samkeppni á þessu sviði en menn höfðu ætlað.

Hitt sem ég vil staldra við í þessu sambandi er sá lærdómur sem við eigum að draga af þessu máli varðandi samskipti okkar við Evrópusambandið. Íslensk stjórnvöld gleypa nánast allt hrátt sem frá Brussel kemur. Það átti við í þessu tilviki. Það fór ekki einu sinni fram á því skoðun, athugun, hvort það væri möguleiki fyrir Íslendinga að sækja um undanþágu frá þessum tilskipunum. Það var ekki skoðað. Það fór engin rækileg skoðun fram á því og ekki heldur — og auðvitað átti það að vera forsenda þessa — var kannað hverjir væru raunverulegir hagsmunir Íslands í þessu efni. Er eftirsóknarvert fyrir okkur að taka upp þessar tilskipanir Evrópusambandsins á þessu sviði? Ég hef miklar efasemdir um það. Vandinn við Evrópusambandið er nefnilega sá að þar eru menn mjög alhæfingarsamir og miðstýringaráráttan er í hámarki eins og menn þekkja. Þar skal eitt gilda um alla, ein regla um alla, gagnstætt því sem t.d. tíðkast í Bandaríkjunum þar sem hvert ríki, hver borg jafnvel, getur ákveðið fyrir sig hvernig hún skipar sínum málum, hvernig hún skipuleggur raforkuframleiðslu og sölu á raforku. En öllum ríkjum í Evrópusambandinu er gert að hlíta sömu reglum. Menn ákváðu þar að halda út á braut markaðsvæðingar raforkugeirans með því að byrja á því að búa til markaðseiningar í framleiðslunni, í dreifingunni og í sölunni. Þetta var fyrsta skrefið. En að sjálfsögðu var alltaf yfirlýst stefna að halda með þessa starfsemi út á markaðstorgið.

Ég hef einhvern tímann sagt frá því að þegar ég á sínum tíma heimsótti Orkubú Vestfjarða þá spurðum við aðkomumenn stjórnendur og starfsmenn í þeirri stofnun hvort þeir teldu það til góðs fyrir Orkubú Vestfjarða að aðgreina bókhaldið með þeim hætti sem þeim var gert, á milli framleiðslu, dreifingar og sölu. Það fannst öllum þetta út í hött, ekkert annað en fyrirhöfn og kostnaður. En við verðum að gera þetta, sögðu menn, einfaldlega vegna þess að þetta er skipun frá Brussel. Við verðum að hlíta henni. Miðstýringaráráttan í Brussel er varasöm. Ég tel að sá lærdómur sem við eigum að draga af þessu máli sé að vera gagnrýnni þegar skóflað er í okkur tilskipunum frá Brussel. Við eigum að skoða það á gagnrýninn hátt hvað henti okkur, þá hvað það er sem við komumst ekki undan að framfylgja vegna skuldbindinga okkar í gegnum EES-samninginn og svo hitt hverju við getum hugsanlega komist hjá að framfylgja með því að sækja um undanþágu. Það hefðum við að mínum dómi og okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði átt að gera í þessu máli. Þetta var um umsögn Alþýðusambands Íslands.

BSRB sendi efnahags- og viðskiptanefnd álitsgerð um frumvarpið og leggst algerlega gegn samþykki þess, algerlega gegn því að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi röksemd og ætla ég, með leyfi forseta, að vitna í umsögn BSRB:

„Með nýjum orkulögum er stefnt að markaðsvæðingu orkugeirans. Ekki er líklegt að á Íslandi verði í fyrirsjáanlegri framtíð mikil samkeppni á þessu sviði. Þvert á móti er líklegt að fákeppni verði uppi á teningnum og lítil hvatning þar af leiðandi fyrir orkufyrirtæki að halda niðri kostnaði í samkeppni um notendur.“

Hér kveður mjög við sama tón og heyrist frá Alþýðusambandi Íslands. Enn segir, með leyfi forseta:

„Þegar hafa breytingar vegna laga um endurskipulagningu raforkugeirans haft í för með sér hækkun á raforkuverði og er fyrirsjáanlegt af framangreindum ástæðum að auknum kostnaði verði áfram velt yfir á notendur. Þá má nefna að stórnotendum í stóriðju er veittur afsláttur af orkuverði, iðulega í föstum samningum auk þess sem þeir búa við skattfríðindi. Skattálögur á orkuiðnaðinn munu enn auka á þá mismunun sem almennir notendur búa við annars vegar og stóriðjan hins vegar.“

Væri nú ekki rétt, hæstv. forseti, að staldra ögn við þetta, við þá staðreynd að ríkisstjórninni og þeim meiri hluta sem hún styðst við á þingi finnst alveg sjálfsagt að leggja stóriðjufyrirtækin, Alcan, í bómull, veita þeim afslátt og veita þeim fríðindi, þessum aðilum, en skirrast ekki við að skattleggja almenning og láta almenning borga brúsann af niðurgreiddu rafmagni til stóriðjurisanna?

Ég tek undir það sem hér kemur fram að skattálögur á orkuiðnaðinn muni enn auka á þá mismunun sem almennir notendur búa við annars vegar og stóriðjan hins vegar. Enn fremur segir í álitsgerð BSRB, með leyfi forseta:

„Þá er rétt að nefna að orkuveitur eru margar í eigu sveitarfélaga sem hafa af þeim arð. Skattlagning orkugeirans eins og frumvarpið gerir ráð fyrir mun veita fjármunum í ríkissjóð. Afleiðingarnar munu verða þær að möguleikar sveitarfélaganna til að beina fjármagni úr orkustofnunum sínum inn í aðra samneyslu á vegum sveitarfélagsins verða minni fyrir vikið.

Afstaða BSRB er eindregið sú að grunnþjónusta á borð við raforku og hitaveitu svo og almennar vatnsveitur eigi að vera í eigu ríkis og sveitarfélaga og reksturinn undir handarjaðri hins opinbera. Slík þjónusta á að vera undanskilin skattlagningu. Í samræmi við þetta leggst BSRB gegn samþykkt þessa frumvarps.“

Undir þetta ritar fyrir hönd BSRB Svanhildur Halldórsdóttir. Það var Ingunn S. Þorsteinsdóttir hagfræðingur sem ritaði undir álitsgerð Alþýðusambands Íslands.

Í niðurlagsorðum í álitsgerð BSRB er komið að atriði sem hefur stundum verið svolítið umdeilt, þ.e. að hvaða marki eigi að heimila orkufyrirtækjum að taka arð, að mynd arð af starfsemi sinni og þá hvað skuli gera við þann arð. Ég vil ítreka það sjónarmið sem ég hef oft sett fram að hér legg ég ekki að jöfnu fyrirtæki eða starfsemi sem er í eigu opinberra aðila og er rekin af opinberum aðilum annars vegar og hins vegar starfsemi sem er rekin af einkaaðilum og fengju þar af leiðandi arðinn ofan í eigin vasa. Mér finnst ekkert rangt við að orkufyrirtæki sem hefur aðgang að ódýrri orku, við skulum segja heitu vatni eins og við gerum í Reykjavík, veiti arðinum af þessari starfsemi eða því sem kann að vera umfram og peningum og sjóðum sem safnast upp í fyrirtækinu eða stofnuninni inn í samfélagið, í aðra samfélagslega þjónustu — það finnst mér hið eðlilegasta mál — til að fjármagna barnaheimili og skóla og stofnanir fyrir aldraða og þar fram eftir götum. Síðan tökumst við á um það á pólitískum vettvangi hvernig með þá peninga skuli farið. Það er mikið rétt. Það er á þessu mikill grundvallarmunur í mínum huga, þ.e. hvort það er opinber aðili í eigu almennings og rekinn á vegum samfélagsins sem er að fá þennan arð og veita honum inn í samfélagslega uppbyggilegt starf eða hvort um er að ræða einkaaðila sem hafa fjárfest í starfseminni og ætla að draga út úr henni peninga. Síðan getum við náttúrlega farið inn í enn flóknari mynd og sagt: Það er ekki um sama að ræða þegar samkeppnin er mjög mikil og er sannanlega að koma notandanum til góða eða ef um er að ræða einokunarfyrirtæki, nánast einokunarfyrirtæki þar sem eigandinn, fjárfestirinn, hefur nánast sjálftökurétt ofan í vasa notandans. Þessi mynd getur því verið nokkuð flókin að þessu leyti. Ég vil leggja áherslu á þetta sjónarmið að mér finnst eðlilegt að sveitarfélag eða ríki hafi arð af starfsemi sem er rekin á vegum samfélagsins.

Samband íslenskra sveitarfélaga sendi frá sér allítarlega greinargerð og þar er að finna mjög ákveðin varnaðarorð til löggjafans. Ég held að sé ástæða til að fara nokkuð rækilega í þessa umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Með bréfi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, dags. 10. febrúar sl., barst Sambandi íslenskra sveitarfélaga til umsagnar frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja ...“

Þar segir að í grundvallaratriðum séu efnisatriðin skýr í frumvarpinu, að í 2. gr. séu orkufyrirtæki skilgreind sem fyrirtæki sem stundi vinnslu, dreifingu, flutning, sölu og afhendingu á raforku og heitu vatni og að undir gildissvið laganna falli því ekki aðeins raforkufyrirtæki heldur einnig hitaveitur. Hér er kominn þáttur sem við þurfum að staldra við. Undir þessi lög og undir þessa skattskyldu falla einnig hitaveiturnar. Þar er verið að stíga enn eitt skref sem ég tel vera mjög varasamt. Nú á líka að skattleggja hitaveiturnar. Það er rétt að ég taki það fram áður en ég svona sleppi þessari hugsun sem ég var að setja fram hér áðan um millifærslur innan þessa kerfis frá orkugeiranum, að taka arðinn þaðan og færa hann út í samfélagið, að ég tel að það eigi að hafa allt landið undir þegar raforkan er annars vegar. Mér kemur þetta í hug þegar vikið er að heitu vatni sem sum svæði búa við í ríkum mæli og önnur ekki. Mér finnst að við eigum að líta á Íslendinga sem eina þjóð, raforkukerfið sem heildstætt og að jafna eigi kjör landsmanna sem kostur er hvað varðar rafmagn og hita, vatn og slík grundvallargæði.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir, með leyfi forseta:

„Í skattskyldunni felst að nefnd fyrirtæki munu greiða tekjuskatt, sem á lögaðila nemur nú 18%, og eignarskatt, sem að gildandi lögum er 0,6%, en áform eru uppi um að fella niður. Frumvarpið hefur eðli máls samkvæmt ekki áhrif á greiðslu tryggingagjalds.“

Það má segja að eignarskatturinn falli ekki inn í þessar röksemdir heldur af þessum ástæðum. Það er ráðgert að hann falli niður. Áfram segir, með leyfi forseta:

„Setning raforkulaga á árinu 2003 fól í sér innleiðingu á ákveðinni samkeppni á raforkumarkaði. Segja má að skattlagning raforkufyrirtækja til samræmis við önnur fyrirtæki á samkeppnismarkaði sé afleiðing þess. Sambandið hefur ekki beitt sér sérstaklega gegn skattlagningu raforkufyrirtækja. Þó skal bent á að raforkufyrirtæki eru að stórum hluta í eigu sveitarfélaga. Aukin skattlagning á rekstur raforkufyrirtækja mun eðli máls samkvæmt hafa áhrif á það verð sem raforkunotendur greiða.“

Hér kemur með öðrum orðum fram að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ekki beitt sér sérstaklega gegn því að raforkufyrirtæki séu skattlögð en bendir jafnframt á að skattlagningin muni sjálfkrafa leiða til þess að verð til raforkunotenda muni hækka.

Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Þær auknu álögur renna beint til ríkissjóðs en ekki til sveitarfélaganna eða fyrirtækja þeirra. Frá sjónarhóli neytenda mun ákvörðun um hækkun raforkuverðs vera á ábyrgð og að frumkvæði raforkufyrirtækjanna sjálfra, þrátt fyrir að raunveruleg ástæða sé sú skattlagningarbreyting sem hér um ræðir. Þá má einnig benda á að vandséð er að umrædd ráðstöfun, þ.e. skattlagning orkufyrirtækja, muni koma neytendum til góða. Samkeppni milli raforkufyrirtækja er enn sem komið er mjög takmörkuð og ekki verður séð að breyting sem þessi muni hafa áhrif á samkeppnishæfni annarra fyrirtækja gagnvart raforkufyrirtækjunum.“

Ég verð að skjóta því inn að mér hefði fundist, eftir þennan lestur, að út frá þessum röksemdum hefði Samband íslenskra sveitarfélaga átt að leggjast gegn því almenna viðhorfi að raforkufyrirtæki væru skattlögð vegna þess að þetta eru almenn gæði. Þetta lýtur að almenningi, hækkar byrðarnar sem hvíla á almenningi. Svo er vikið að öðrum þætti sem síðan er komið nánar inn á, að þetta breytir fjárhagslegu samspili ríkis og sveitarfélaga. Skatturinn fer inn í ríkissjóð en arðurinn sem rennur til sveitarfélaganna verður hugsanlega minni fyrir vikið. Eins og hér er bent á eru flestar orkuveiturnar í eigu sveitarfélaganna. (PHB: Nema þau selji þær.) Nema þau selji þær, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hann er ákafur talsmaður þess að grunnþjónustan í landi verði öll færð á markaðstorgið. Sjálfstæðisflokkurinn, a.m.k. sá armur Sjálfstæðisflokksins sem hv. þm. Pétur H. Blöndal er í forsvari fyrir, vill fyrst og fremst þjóna fjárfestum, þjóna íslenskum bröskurum sem eiga sér þann draum heitastan að komast yfir grunnþjónustuna í landinu. Þeir vilja fá raforkuna, þeir vilja fá vatnið, heitt og kalt, og síðan ætla þeir að færa sig inn eftir spítalaganginum og taka skólana. Þeir munu ekki láta staðar numið fyrr en öll grunnþjónustan í landinu er komin í þeirra hendur. Þess vegna var þetta frammíkall. Að mati hv. þingmanns býður framtíðin ekki upp á annað en að þessi þjónusta öll verði færð í hendur fjárfestum, fyrirtækjum sem hafi það fyrst og fremst að markmiði að skila arði í stað þess að veita notendum góða þjónustu og hyggja að notagildinu.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir enn fremur:

„Sambandið leggst hins vegar alfarið gegn þeirri fyrirætlan sem fram kemur í frumvarpinu að hitaveitur verði skattskyldar með sama hætti og raforkufyrirtæki.“

Með öðrum orðum, Samband íslenskra sveitarfélaga er ekki andvígt þeirri almennu stefnu að skattleggja raforkufyrirtæki, það kemur fram þrátt fyrir nokkuð mótsagnakenndan rökstuðning því að hann hnígur allur í þá átt að það sé óhyggilegt og komi sér illa fyrir notendur. En sambandið er afdráttarlaust í því að það leggst algerlega gegn því að hitaveitur verði skattskyldar. Þeir færa fram röksemd fyrir því, með leyfi forseta:

„Verður ekki séð að nokkur rök séu fyrir því að setja hitaveitur undir sama hatt og raforkufyrirtæki að þessu leyti enda starfa hitaveitur ekki í samkeppnisumhverfi. Engar breytingar hafa orðið á löggjöf um starfsemi hitaveitna eða rekstrarumhverfi þeirra að öðru leyti sem kalla á slíka skattlagningu. Sveitarfélög eða samtök þeirra sem reka hitaveitur hafa einkaleyfi til slíks rekstrar samkvæmt 30. gr. orkulaga, nr. 58 frá 1967. Í því felst m.a. einkaleyfi til að annast dreifingu eða sölu heits vatns eða gufu til almenningsnota á tilteknu veitusvæði frá jarðhitastöðvum eða hitunarstöðvum með öðrum orkugjafa. Ekki er því um að ræða neins konar samkeppnislega þætti í starfsemi hitaveitna. Löggjöf um hitaveitur byggir á þeim grundvelli að um sé að ræða rekstur samfélagslegrar þjónustu og eðli rekstrarins og náttúruauðlindarinnar er einnig með þeim hætti að samkeppni, hvort sem er við aðrar hitaveitur, rafmagn eða aðra orkugjafa, er í raun ekki fyrir hendi.

Fræðilega má hugsa sér að ein orkutegundin keppi við aðra um hylli neytenda. Sú er þó ekki raunin hvað varðar raforku og heitt vatn. Heitt vatn til húshitunar er almennt það mikið hagkvæmari lausn en aðrir orkugjafar að í reynd verður ekki rætt um samkeppni á þessu sviði. Vegna tiltekinna eðlisþátta, svo sem einkaleyfa og einnig vegna takmarkana sem möguleikar á dreifingu á heitu vatni fela í sér, er mjög fjarlægt að hugsa sér samkeppni milli hitaveitna innbyrðis. Skattlagning á starfsemi hitaveitna þjónar því engum tilgangi, hvorki samkeppnislegum né öðrum. Þá er slík skattskylda í hróplegu ósamræmi við þá meginreglu sem fram kemur í 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með vísan til framangreinds er lagt til að frumvarpinu verði breytt á þá leið að í stað orðsins „orkufyrirtæki“ í lögunum komi orðið raforkufyrirtæki. Þá er lögð til sú breyting á 2. gr. laganna að orðin „og heitu vatni“ í lok greinarinnar falli brott.

Að lokum vill sambandið vekja athygli Alþingis á því að breyting á skattalegri stöðu hitaveitna, sem ekki verður séð að styðjist við nein efnisleg rök, felur í raun í sér meiri háttar breytingu á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Slíkar breytingar þarfnast ítarlegri umræðu við sveitarfélögin en fram fer til þessa.“

Undir þetta álit frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga ritar Þórður Skúlason framkvæmdastjóri sambandsins.

Hér er vikið að ýmsum mjög athyglisverðum þáttum og greinargóð rök færð fyrir því að óhyggilegt sé að skattleggja heita vatnið. Það er m.a. bent á að heita vatnið sé ekki í samkeppnisrekstri við raforku að því leyti að heita vatnið er miklu hagkvæmari kostur og svo miklu ódýrari að þar verður aldrei um jafnræði að ræða. Þar er ekki um samkeppni á sambærilegum grundvelli að ræða.

Svo er eitt, sem bent er á í álitsgerð Sambands íslenskra sveitarfélaga, að eðli máls samkvæmt flytja menn ekki heitt vatn um langan veg. Af þeim sökum verður ekki um samkeppni að ræða milli staða í mikilli fjarlægð.

Ég staldraði við það fyrr í álitsgerðinni, sem hnykkt er á undir lok álitsgerðar Sambands íslenskra sveitarfélaga, að hér eru að verða breytingar á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Þessar breytingar eru ríkinu í hag en sveitarfélögunum í óhag vegna þess að sveitarfélögin hafa minna og minna svigrúm til að taka verðmæti úr þessum fyrirtækjum og veita í aðra samfélagslega þjónustu vegna þess að ríkið mun taka skatt af hagnaðinum og færa þá peninga inn í ríkissjóð með þessum afleiðingum. Þá segir Samband íslenskra sveitarfélaga: Þarf ekki að ræða þessi mál? Þurfa menn ekki að setjast niður og ræða þessi mál? Ég ítreka það sem hér kemur fram undir lok álitsgerðar Sambands íslenskra sveitarfélaga: „Slíkar breytingar þarfnast ítarlegri umræðu við sveitarfélögin en farið hefur fram til þessa.“

Á ekkert að hlusta á þetta? Skiptir þetta engu máli? Hér er talað fyrir hönd allra sveitarfélaga á Íslandi. Skiptir það ríkisstjórnina og stjórnvöld engu máli? Menn reyna að knýja þetta hér í gegn á skömmum tíma, enda þótt frumvarpið hafi komið tiltölulega snemma fram miðað við margt sem frá ríkisstjórninni kemur. Álitsgjafar fengu bréf í byrjun febrúar.

Hér segir að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi fengið bréf 10. febrúar. Þetta er mjög gott. (LB: Þá var ekkert farið að hlýna að ráði.) Þá var ekkert farið að kynna hlýna. Þetta þykir tiltölulega langur frestur en ég tel að breytingar af þessu tagi eigi að fá miklu, miklu betri undirbúning. Við þekkjum það, í mörgum þeim ríkjum sem við berum okkur gjarnan saman við, t.d. Norðurlöndin, að þegar ráðist er í grundvallarbreytingar gefa menn málunum góðan tíma. (LB: Er ekki Pétur bara að fara að selja?) Er ekki hv. þm. Pétur H. Blöndal bara að fara að selja? Jú, það liggur nefnilega mikið á að selja. Það er mergurinn málsins. Það á að reyna að koma þessari þjónustu, þessari starfsemi sem hraðast út á markaðstorgið, það er staðreynd málsins. (Gripið fram í: Ríkisstjórnin á skamman líftíma eftir þannig að þeim liggur á.) Það skulum við vona, að ríkisstjórnin eigi skamman líftíma eftir.

En talandi um málefni sem þurfa að fá góðan tíma til umfjöllunar vil ég minna þingið og hæstv. forseta á að hér fyrir þinginu liggur fjöldinn allur af frumvörpum, ekki bara þetta stóra mál sem umturnar skattkerfinu gagnvart orkugeiranum, heldur fjöldi annarra mála. Þar eru mjög stór mál þar sem ríkisstofnanir eru slegnar af eða skapaðar nýjar, lagaumgjörð breytt og menn ætla á örfáum dögum að afgreiða málið. Ég vísa þar í samkeppnislög. Menn eru í alvöru að tala um að gera samkeppnislög að lögum áður en þing fer heim eftir fáeina daga. Menn eru í alvöru að gæla við þá hugmynd, (Gripið fram í.) og það þrátt fyrir að verkalýðshreyfingin á Íslandi andmæli, ASÍ, BSRB og Neytendasamtökin vara við því. Hér höfum við síðan frumvarp sem Samband íslenskra sveitarfélaga, öll sveitarfélögin í landinu í reynd, andæfir. Það kallar á ítarlegri umræðu um samskipti ríkis og sveitarsjóða áður en því er hrundið fram. Það kemur fram í álitsgerð Sambands íslenskra sveitarfélaga að miklu meiri umræðu þurfi á milli ríkis og sveitarfélaga til að hnýta þá enda sem lausir eru áður en ráðist er í þessar breytingar.

Þær koma ekki til framkvæmda í næstu viku, þær gera það ekki. En mönnum liggur hins vegar á að knýja þetta í gegn og ég spyr: Er það vegna þess að menn óttast umræðuna? Er það vegna þess að menn óttast málefnalegar umræður um þessi mál? Hvernig skyldi standa á því að hér skuli reynt að keyra í gegn lagabreytingar sem nánast allir sem að málunum standa vara við, allir. Samt skal það gert. Þá er eðlilegt að spurt sé: Er það vegna þess að menn óttist málefnalegar umræður, við þá aðila sem vara við þessum kerfisbreytingum, að ríkisstjórnin leggur svo mikla áherslu sem raun ber vitni að hraða þessu í gegn?

Um hverja er ég að tala? Ég er búinn að vitna í álitsgerðir Alþýðusambands Íslands sem leggst gegn þessum breytingum. Ég er búinn að vitna í álitsgerð frá BSRB sem leggst gegn þessum breytingum og ég er nýbúinn að fara rækilega yfir umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem leggst einnig gegn þessum breytingum. (LB: Samtök atvinnulífsins styðja það, ég fann eina.) Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson fann eina álitsgerð, ég gæti trúað að það væru tveir sem styðja frumvarpið. Ég gæti best trúað að Verslunarráðið auk Samtaka atvinnulífsins styddi þetta mál. Hvernig skyldi standa á því að aftur og ítrekað hafa áheyrendapallar í þinginu — þeir eru ekki þéttsetnir núna — verið þéttsetnir á valdatíma núverandi ríkisstjórnar? Af hálfu hverra? Hverjir hafa setið þessa bekki? Það er launafólk og öryrkjar. Það eru hagsmunaaðilar af því tagi. Minnast menn þess að stjórn Verslunarráðsins hafi setið á bekkjunum eða að stjórn Samtaka atvinnulífsins hafi vermt þessa stóla? Aldrei. Hvers vegna ekki? Vegna þess að þeir vita sem er að hagsmuna þeirra er gætt í þessum sal. Þeir þurfa ekkert á því að halda að horfa gagnrýnum augum niður í salinn. Þeir vita að hv. þm. Birgir Ármannsson situr hér og gætir hagsmuna þeirra og Pétur H. Blöndal og félagar þeirra í Sjálfstæðisflokknum með dyggri aðstoð Framsóknarflokksins. Vegna þess að það eru að sjálfsögðu þessir tveir flokkar sem standa fyrir þeim kerfisbreytingum sem nánast öll verkalýðshreyfingin á Íslandi og sveitarfélögin í landinu vara við.

Hvað skyldi Reykjavíkurborg segja um frumvarpið? Hvað vill Reykjavíkurborg gera við frumvarpið? (Gripið fram í: Hún ætlar að selja Landsvirkjun.) Selja Landsvirkjun? Það er staðreynd að innan Reykjavíkurborgar hafa verið deildar meiningar um það mál. Þar hefur íhaldið náttúrlega verið á þeim brókunum að selja allt, lifandi og dautt þannig að það þarf ekki að koma nokkrum manni á óvart, en við erum mörg á því … (Gripið fram í.) Það er ekkert einhlítt í því efni, það vita menn. Við erum mörg á þeirri skoðun þegar kemur að því að hugsa um raforkuna, eins og ég gat um áðan, að eignarhald á fyrirtækjum sem þjóðin hefur komið sér upp í áranna rás á síðari hluta síðustu aldar heyri allri þjóðinni til. Það gerir það og því á að taka ábyrgt á málum þegar hugað er að eignarhaldi á þeim stofnunum. Reykjavíkurborg tekur einmitt mjög ábyrgt á þessu máli. Þar er Orkuveita Reykjavíkur umsagnaraðili og borgarráð Reykjavíkur tekur undir umsögn Orkuveitunnar.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi Landsvirkjun. Landsvirkjun ályktaði reyndar um málið og var furðulega hógvær í skoðunum sínum en ekki var sjónarhornið mjög vítt frekar en fyrri daginn. Það var fiskræktarsjóður, held ég, sem Landsvirkjun staldraði helst við, sá ofsjónum yfir því að greitt yrði í fiskræktarsjóð og það yrði að koma í veg fyrir það hrikalega ranglæti. En Landsvirkjun sem hefur verið gert að þjóna erlendum stóriðjuhagsmunum gerist hógvær þegar frumvörp ríkisstjórnarinnar eru annars vegar og það er hálfdapurlegt fyrir þá ágætu menn sem þar starfa. (Gripið fram í: R-listinn stýrir þar stórum hlut.) R-listinn stýrir stórum hlut í Landsvirkjun. Já, það er alveg rétt, en sannleikurinn er hins vegar sá að það er ríkisstjórnin sem hefur haft forgöngu um þau verkefni sem Landsvirkjun hefur tekið sér á hendur og R-listinn hefur litlu ráðið þar. Þó hafa verið deildar meiningar eins og við þekkjum og menn muna kannski frægar atkvæðagreiðslur þegar greidd voru atkvæði um heimildir til Kárahnjúkavirkjunar, en ég skal ekki fara lengra út í þá sálma. Ég get alveg fullvissað hv. þm. Pétur H. Blöndal um að fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í stjórn Landsvirkjunar og sá sem hér stendur tala einum rómi í þessum málum.

Í umsögn Orkuveitu Reykjavíkur er komið nokkuð víða við. Þar er í fyrsta lagi, eins og reyndar ýmsir aðrir álitsgjafar gera, rætt allítarlega um endurmat eigna, hvaða reikniaðferðum eigi að beita við endurmat eigna þegar skattstofnar eru ákveðnir. Það var umræða sem var ágætlega tekin í nefndinni. Þar sýndist sitt hverjum en ég ætla ekki að staldra við þá þætti heldur fyrst og fremst þau atriði í þessu frumvarpi sem ég tel vera gagnrýniverð og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Hér segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið gerir ráð fyrir að orkufyrirtæki greiði framvegis tekjuskatt og eignarskatt en þau hafa verið undanþegin greiðslu þessara skatta fram til þessa. Í bréfi til fjármálaráðuneytisins hefur Orkuveita Reykjavíkur lýst sig andvíga markmiðum frumvarpsins, m.a. af eftirtöldum ástæðum:

Skattlagning á orkufyrirtæki mun óhjákvæmilega leiða til hækkunar verðs þar sem núverandi gjaldskrá gerir ekki ráð fyrir greiðslu tekju- og eignarskatta. Í athugasemdum við frumvarpið kemur ekki fram hvaða áhrif þessi skattlagning hefur á orkufyrirtækin og ekki kemur fram hvaða breytingar verða á gjaldskrá fyrirtækjanna verði frumvarpið að lögum.“

Stöldrum aðeins við þetta. Það kemur með öðrum orðum ekki fram í athugasemdum við frumvarpið nein áætlun um hvaða áhrif þessi skattlagning komi til með að hafa á verðlag. Það er engin áætlun um áhrifin á verðlagninguna. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Orkuveita Reykjavíkur er með samninga um orkusölu til stóriðju sem gilda í 20 ár. Samningar þessir hafa verið gerðir fyrir hvatningu ríkisins og engir fyrirvarar af þess hálfu um að gera þurfi ráð fyrir skattlagningu til framtíðar. Arðsemisútreikningar sem gerðir hafa verið í góðri trú vegna stórframkvæmda hafa ekki gert ráð fyrir greiðslu þessara skatta. Forsendur gerðra samninga og arðsemi þeirra raskast verulega verði frumvarp þetta að lögum.“

Þetta er kjarni málsins hefði ég haldið. Hér kemur fram að Orkuveitan í Reykjavík hafi gert samninga við stóriðjufyrirtæki til 20 ára. Það hafi verið gert að áeggjan ríkisvaldsins án nokkurra fyrirvara af þess hálfu um að til skattlagningar gæti komið í framtíðinni. Nú er það hins vegar að gerast og þá segir Orkuveitan að arðsemisútreikningar sem gerðir hafi verið í góðri trú vegna stórframkvæmda hafi ekki gert ráð fyrir greiðslu þessara skatta. Forsendur gerðra samninga og arðsemi þeirra raskist verulega verði frumvarp þetta að lögum.

Mér finnst að ríkisvaldið hljóti að þurfa að taka slík varnaðarorð alvarlega og við bíðum þess að heyra í fulltrúa Frjálslynda flokksins, hv. þm. Gunnari Örlygssyni, talsmanni Frjálslynda flokksins. Hann hefur lagt fram tillögu sem hann mun gera grein fyrir á eftir, sem ég hef mikinn áhuga á að kynna mér nánar, um frestun á þessum aðgerðum. Það bíður síns tíma en rímar við það sem orkufyrirtækin segja. Þau benda á að þau séu búin að gera sínar áætlanir. Þær byggja á tilteknum forsendum sem til eru orðnar m.a. fyrir áeggjan ríkisvaldsins, orkusölusamninga við stóriðju og þar fram eftir götunum og nú raskast öll áætlanagerð þeirra nái þetta frumvarp um skattlagningu fram að ganga. Síðan segir Orkuveita Reykjavíkur, með leyfi forseta:

„Orkuveita Reykjavíkur er í eigu fjögurra sveitarfélaga sem hafa haft af henni arð. Möguleikar Orkuveitunnar til arðgreiðslna til eigenda sinna skerðast verulega ef til skattgreiðslna kemur. Ljóst er að sveitarfélögin eru ekki undir þann tekjumissi búin.“

Þar er komin skýringin á efasemdum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem, nota bene, leggst ekki gegn þeirri hugmynd í grundvallaratriðum að orkufyrirtæki verði skattlögð. Það vill láta endurskilgreina skilgreininguna þannig að þau taki einvörðungu til raforkufyrirtækja en heita vatnið sé undanskilið, en bendir jafnframt á að án þess að gera hliðarráðstafanir muni skattlagningin nú, á þeim forsendum sem hún er kynnt, koma í bakið á sveitarfélögunum. Þau munu verða af arði sem frá orkufyrirtækjunum kemur og gengur til samfélagslegrar þjónustu en þessum verðmætum verði beint inn í ríkissjóð. Sveitarfélögin segja þess vegna: Ræðum málið og göngum frá því áður en lögin eru sett. Ég tek undir það.

Síðan bendir Orkuveita Reykjavíkur á að eignarskatturinn komi ekki til framkvæmda því að Alþingi hafi þegar samþykkt að eignarskattur einstaklinga og lögaðila falli niður við áramótin 2005/2006 en síðan segir, með leyfi forseta:

„Til að raska ekki samkeppnisstöðu orkufyrirtækja er nauðsynlegt að kveða á um að sömu reglur gildi um skattskyldu þeirra og skatthlutfall óháð því hvert rekstrarformið er.“

Þetta er að sönnu til umhugsunar og mun ég hlusta eftir röksemdum sem fram koma hvað þennan þátt varðar síðar við umræðuna en Orkuveita Reykjavíkur leggur áherslu á að það eigi ekki að mismuna eftir rekstrarformi. Ég vil þó ítreka þá skoðun mína að ég legg ekki að jöfnu samfélagsþjónustu sem rekin er á vegum og í eigu samfélagsins og þjónustu sem er einvörðungu til þess sköpuð að mynda arð hjá eigandanum. Hér segir undir lokin í álitsgerðinni frá Orkuveitu Reykjavíkur sem borgarráð Reykjavíkur gerir að sinni, með leyfi forseta:

„Flestar orkuveitur landsins eru með fjölþætta starfsemi svo sem rafmagnsdreifingu, rafmagnsframleiðslu, hitaveitur, vatnsveitur og fleiri starfssvið. Mikilvægt er að sömu reglur gildi óháð því hver starfsemin er sem verið er að skattleggja. Mjög kostnaðarsamt er fyrir fyrirtækin þegar mismunandi reglur gilda við mismunandi starfsemi.“ — Undir þetta skrifar Guðmundur Þóroddsson forstjóri.

Ég hef ákveðnar efasemdir um þessa athugasemd frá Orkuveitu Reykjavíkur. Ef það verður ofan á að samþykkt verði lög sem opni á skattskyldu raforkunnar þá er ekki þar með sagt að við viljum skattleggja hitaveiturnar, sem er reyndar innifalið í þessari lagasmíð, að við viljum líka skattleggja kalda vatnið. Þótt Orkuveita Reykjavíkur skipuleggi sig þannig og henni hafi verið falið að sinna veitustarfsemi almennt, heitu vatni og köldu auk raforkunnar, er ekki þar með sagt að við kaupum það eða ég geri það ekki að þar með hljótum við líka að þurfa að skattleggja kalda vatnið. Það er athugasemd sem ég get ekki skrifað upp á þó að hún sé að mörgu leyti skiljanleg frá hendi þeirra aðila sem reka þetta fyrirtæki og vilja búa við ákveðna einsleitni í sínu umhverfi þannig að ein regla gildi um allt. Það eru ákveðin hagkvæmnissjónarmið sem búa þar að baki þó ég sé þeim alls ekki sammála. Mér finnst hins vegar að slíka þjónustu, sem fyrst og fremst er þjónusta á gæðum sem allir þurfa að nýta, eigi að undanskilja skatti. En auðvitað vitum við hvað þarna býr að baki. Það á að markaðsvæða alla þessa starfsemi og síðan er reist sú mikla herhvöt og réttlætiskrafa sem frá þessum stríðsmönnum braskaranna kemur að eitt skuli yfir alla ganga. Ég kaupi ekki þá röksemd.

Hvað skyldi Hitaveita Suðurnesja segja? Er hún á þeim buxunum að samþykkja eða leggja blessun sína yfir frumvarp ríkisstjórnarinnar? Nei, aldeilis ekki, ef taka má mið af niðurlagsorðum í umsögn Hitaveitu Suðurnesja.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Hitaveita Suðurnesja hf. er að mestu leyti í eigu sveitarfélaga. Nokkuð ljóst er að þau gera ákveðnar arðsemiskröfur til fyrirtækisins. Til að mæta auknum álögum er líklegt að hækka þurfi orkuverð. Að þessu framansögðu er rétt að benda á að Hitaveita Suðurnesja hf. hefur gert samninga um orkusölu til stóriðju til allt að 20 ára. Þegar þessir samningar voru gerðir var ekki gert ráð fyrir í arðsemisútreikningum að breytingar yrðu á skattalegu umhverfi orkufyrirtækja. Af því leiðir að álögur á aðra notendur munu að líkindum aukast og vill Hitaveita Suðurnesja hf. benda á, að með nýjum raforkulögum er nýlega búið að auka álögur verulega sem á aðlögunartíma hafa leitt til um 15% hækkunar raforkuverðs og enn meira þegar fram líða stundir.“

Undir álitsgerðina frá Hitaveitu Suðurnesja ritar forstjóri fyrirtækisins, Júlíus J. Jónsson.

Hér kemur fram að nýbúið er að ráðast í breytingar sem hafa leitt til 15% hækkunar raforkuverðs og að ekki sé alveg ljóst hvað enn sé í þeim kortum og forstjórinn varar við því að ráðast í breytingu sem augljóslega muni leiða til hækkunar á raforkuverði. (Gripið fram í.) Hafa menn ekki melt þær upplýsingar sem fram hafa komið? Ég held að það sé enginn áhugi á því. Ég held að það sé enginn áhugi á því að skoða málefnalega þær röksemdir sem fram koma. Menn ætla sér að gera þetta. (Gripið fram í.) Það liggur svo á að koma þjónustunni út á markaðstorgið.

Hér eru sömu ábendingar og fram koma hjá Orkuveitu Reykjavíkur hvað varðar skuldbindingar inn í framtíðina. Hitaveita Suðurnesja segir að búið sé að ganga frá samningum um orkusölu til stóriðju til allt að tveggja áratuga og byggir alla útreikninga og áætlanir í samræmi við óbreytt skattumhverfi. Er þetta skiljanlegt sjónarmið, að vilja búa við öryggi hvað þetta snertir í framtíðinni? Alcoa fannst það eðlilegt. Hverjum öðrum fannst það eðlilegt líka? Ríkisstjórninni. Ríkisstjórninni fannst það eðlilegt þegar samið var við Alcoa um raforkuverð og um forsendur raforkuverðs og um skattlagningu. Þar voru gefin fyrirheit um að skattlagningu á Alcoa yrði ekki breytt, þótt sköttum á Íslandi yrði breytt skyldi það fyrirtæki undanþegið. Hvers vegna? Vegna þess að Alcoa vildi búa við öryggi í þessum efnum og ríkisstjórninni fannst það sjálfsagt og eðlilegt. En þegar Hitaveita Suðurnesja á í hlut, þegar Orkuveita Reykjavíkur á í hlut (Gripið fram í: Og almenningur.) og almenningur, og þegar Samband íslenskra sveitarfélaga bendir á það og BSRB og ASÍ er það blásið út af borðinu. Þá skiptir það ekki nokkru máli. En elsku, litla Alcoa sem liggur í bómullinni, þar er skilningurinn fyrir hendi. Þegar Íslendingar eiga hins vegar í hlut, íslenskur almenningur, íslensk raforkufyrirtæki, sveitarfélögin í landinu, þá er blásið á það. Það er það sem er að gerast.

Að lokum langar mig til að víkja að einni röksemd sem hefur verið sett fram í málinu af hálfu stjórnarsinna og hún er þessi: Orkufyrirtækin á Íslandi, sem koma til með að verða skattlögð ef þetta verður að lögum, eru flest í miklum fjárfestingum. Þannig er einnig búið um útreikninga á skattstofnum að þau þurfi ekki mikið að óttast í fyrstu. Þá segja menn: Það er ekkert að óttast, það verður engin breyting, vegna þess að þegar allt kemur til alls er verið að skattleggja hagnað.

Við þessu er tvennt að segja. Í fyrsta lagi er verið að ráðast í kerfisbreytingar til langs tíma. Það er ekki verið að tjalda til einnar nætur og því þarf að hugsa málin til langs tíma, með langtímasjónarmið í huga.

Í annan stað hefur hagnaðurinn, sem skattlagður verður og er fyrir hendi og hefur verið fyrir hendi og verður það að einhverju leyti, gengið til samfélagsins, til sveitarfélaganna. Þau benda ekkert síður en orkufyrirtækin á áætlanir sínar og rekstrarforsendur sínar. Þau hafa gert ráð fyrir þessum fjármunum og verðmætum inn í samfélag sitt og það er verið að svipta þau þeim tekjum, draga úr þeim alla vega.

Þegar þetta þrennt er allt skoðað saman, áætlanir og útreikningar og forsendur orkufyrirtækjanna, sem eru ekki bara að hugsa til næstu tveggja, þriggja ára heldur eru þau að vísa í samninga sem hafa verið gerðir til tveggja áratuga eða jafnvel lengur, þau þurfa að hyggja að þessu. Síðan þegar horft er til sveitarfélaganna og sjónarmiða þeirra og svo náttúrlega almennings, sem kemur til með að borga brúsann.

Eigum við ekki aðeins að staldra við þegar okkur er bent á og við erum minnt á að raforkan hefur farið hækkandi vegna kerfisbreytinga, um 15%, segir Hitaveita Suðurnesja? Er á bætandi? ég bara spyr. Er á bætandi vegna þess að ein ríkisstjórn er komin með þá skrúfu á sálina að taka verði allan raforkugeirann og markaðsvæða hann hið fyrsta og helst selja hann allan og þess vegna verði að búa til einsleitt skattumhverfi?

Eigum við ekki aðeins að hugsa hvaða afleiðingar þetta kemur til með að hafa? Eigum við ekki að taka til greina varnaðarorð sem til okkar er beint frá hagsmunasamtökum almennings, Alþýðusambandi Íslands, BSRB og Sambandi íslenskra sveitarfélaga? Hefur verið það vel búið að sveitarfélögum og eru þau það ánægð í skiptum sínum við ríkisvaldið að ástæða sé til að blása líka á þetta? Blása á það þegar þau biðja okkur um að fara varlega í þessum efnum og taka og klára þá umræðu sem fram hefur farið og hefur ekki verið lokið um stöðu sveitarfélaganna. Það er nefnilega umhugsunarvert þegar skoðaður er annars vegar hagur ríkissjóðs og hins vegar sveitarfélaganna og hvernig hann hefur þróast á undangengnum áratug, hve ólíku er þar saman að jafna. Annars vegar hefur ríkinu tekist að færa skuldir sínar niður sem hlutfall af landsframleiðslu en hlutur sveitarfélaganna hefur versnað. Er það vegna þess að sveitarfélögin eru verr rekin? Það held ég ekki. Það er vegna þess að verkefnum hefur verið hlaðið á sveitarfélögin án þess að því fylgi nægilegir tekjustofnar þannig að þau geti risið undir skyldum sínum.

Við þekkjum það og fylgdumst með því í kennaraverkfallinu, og þá var þetta mjög í brennidepli, að sum sveitarfélög bjuggu við svo erfiðan fjárhagslegan hlut að þau áttu erfitt með að verða við eðlilegum og réttmætum kröfum launafólksins, kennaranna. Ég held að það hafi verið réttmæt sjónarmið, ég held að það hafi verið rétt, þau áttu það. Þess vegna lögðum við fram tillögur um lagabreytingar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í tengslum við kjarasamningaumræðuna þess efnis að fjárhagslegur hlutur sveitarfélaganna yrði réttur. Aukið framlag kæmi til þeirra, það var ein tillagan. Önnur var sú að jafnframt því sem tekjuskatturinn yrði lækkaður yrðu auknar heimildir sveitarfélaganna til útsvars til þess að auðvelda þeim sveitarfélögum, þeim bæjarfélögum sem reyndist róðurinn erfiðastur að ná tökum á þeirri erfiðu stöðu sem þau voru í, ekki aðeins gagnvart kennurum heldur almennt gagnvart starfsmönnum sínum og gagnvart rekstri samfélagsþjónustunnar.

Hæstv. forseti. Ég fer að ljúka fyrri ræðu minni um málið. Ég vænti þess að hér í ræðustól muni stíga fulltrúar meiri hlutans á Alþingi, hvort sem það eru ráðherrar eða þingmenn úr meiri hlutanum sem ríkisstjórnin styðst við, og skýra fyrir okkur hvers vegna Alþýðusambandið hefur rangt fyrir sér, útlista það fyrir okkur hvers vegna BSRB hefur rangt fyrir sér og hvers vegna Samband íslenskra sveitarfélaga fari með fleipur, því að væntanlega finnst mönnum það ef ganga á þvert á þær yfirlýsingar og ráðleggingar sem frá þeim koma, hvers vegna Orkuveita Reykjavíkur fer með rangt mál, því ég geng út frá því að menn líti svo á að þessar alvarlegu athugasemdir séu út í loftið sem fram koma frá Orkuveitu Reykjavíkur, að ógleymdri Hitaveitu Suðurnesja sem bendir á að þetta setji málin á þeim bænum í fullkomið uppnám.

Ég geri mér hins vegar fyllilega grein fyrir því að ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti, sem vill gleðja Samtök atvinnulífsins og Verslunarráð Íslands, er náttúrlega að gera góða hluti með þessu frumvarpi og ýmsum öðrum sem frá núverandi ríkisstjórn hafa komið.

Ég mun fylgjast rækilega með umræðunni og sérstaklega er tilhlökkunarefni að heyra röksemdir stjórnarmeirihlutans fyrir því að auka álögur á almenning með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.