131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[17:52]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð, hvort sem er á Alþingi eða í sveitarstjórnum, varar við stóriðjustefnunni. Við höfum beitt áhrifum okkar alls staðar þar sem við höfum komið því við (GÞÞ: Nei.) til þess að gera það. (GÞÞ: Þetta er rangt.) Er hv. þingmaður að tala um Tryggva Friðjónsson fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í stjórn Orkuveitunnar og hans viðhorf? (Gripið fram í.) Við skulum bara fara rækilega í þessa umræðu. Ég frábið mér þessi hróp og þessar dylgjur sem koma hér frá hv. þingmanni um þetta efni. (GÞÞ: Þetta er staðreynd.) Staðreyndin er sú að við höfum ekki lagst gegn málefnalegri skoðun á framkvæmdum á vegum Orkuveitu Reykjavíkur. Það er staðreynd. (GÞÞ: Nei.) Það er líka staðreynd (GÞÞ: Þetta er rangt.) að fulltrúar okkar í Orkuveitu Reykjavíkur hafa verið þeir aðilar sem hafa varað við (GÞÞ: Samþykkt.) því að fara út á braut þá sem kalla má áhættufjárfestinga. En hver er það sem talar? (Gripið fram í.) Hver er það sem talar svona alveg niður í innyflin og er að hneykslast yfir því að opinberir aðilar ráðist í áhættufjárfestingar? Það er fulltrúi stjórnmálaflokks sem hefur ráðist í stærstu áhættufjárfestingu Íslandssögunnar (Gripið fram í.) upp á mörg hundruð milljarða króna (Gripið fram í.) við Kárahnjúka, vegna þess að það er ekkert annað en áhættufjárfesting sem ég hef stundum sagt að Jósef Stalín hefði veitt orðu fyrir því um önnur eins ríkisafskipti (GÞÞ: Svaraðu ...) af hálfu nokkurrar ríkisstjórnar hefur ekki verið að ræða hér (GÞÞ: Svaraðu spurningunum.) í sögunni. (GÞÞ: Svaraðu spurningunum.) Búinn að því. (GÞÞ: Nehe-hei.)