131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[17:58]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins um raforkumarkaðinn. Vissulega er það rétt að þegar farið er út í slíkar breytingar þá vonum við að sjálfsögðu að samkeppnin muni aukast. Ég er þess fullviss að svo muni verða. Þetta er í rauninni svipuð umræða og var þegar bankarnir voru seldir. Þá voru hér höfð uppi mikil stóryrði um að þetta yrði alveg hræðilegt fyrir okkur neytendur, fyrir viðskiptavini bankanna, að þjónustugjöldin mundu fara upp úr öllu valdi, vextirnir upp úr öllu valdi o.s.frv. Þar stóðum við líka frammi fyrir því sama og við stöndum frammi fyrir hér að þá voru bankarnir gerðir skattskyldir, reyndar þegar þeim var breytt í hlutafélög. Þessu frumvarpi tengist líka það jafnræði sem verður að gilda. En hvað gerðist? Jú, vextirnir hafa lækkað og ég vil segja um bankana að ég tel að samkeppnin hafi svo sannarlega sannað sig þar.

Aðeins aftur um stóriðjuna af því að við hv. þm. Ögmundur Jónasson erum alls ekki sammála um stefnuna þar. Ég fagna því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð skuli, að hans sögn, standa sína vakt. En ég hef ekki þá tilfinningu að sami málflutningur sé viðhafður gagnvart uppbyggingu stóriðju á höfuðborgarsvæðinu og á Austurlandi. Það er ekki sama hvar á landinu störfin myndast. Það er ekki bara við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð að sakast heldur önnur samtök, til að mynda umhverfissamtök og fleiri.

Ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst gott að við getum gert eitthvað, að stjórnvöld geti gert eitthvað til að laða að stórfyrirtæki vegna þess að við getum ekki byggt upp hér öflugt velferðar- og menntakerfi án þess að hafa öflugt atvinnulíf og ég tel að stjórnvöld hafi staðið sig virkilega vel í því.