131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[18:00]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Spurningin er einmitt um hvort arður verður af framkvæmdunum. Menn deila um hvort yfir höfuð verði arður af þessum framkvæmdum og telja jafnvel að það verði bókhaldslegt tap, eins og við mörg teljum. Ég tel að það verði bókhaldslegt tap af þessum framkvæmdum fyrir austan og þær séu einhver óskynsamlegasta ráðagerð sem hugsast getur til að skapa störf í landinu. Hún er dýr og óhagkvæm, auk þess sem hún eyðileggur náttúruna.

Varðandi samkeppnina þá heyrðist mér talsmaður Framsóknarflokksins segja okkur að öll samkeppni og markaðsvæðing væri til góðs. Minnumst bankanna. Ég er hræddur um að þar séu ekki öll kurl til grafar komin. (Gripið fram í: Eins og hver?) Eins og hver? (Gripið fram í: Rökstutt.) Rökstutt? Ég skal gera það. Bankarnir lækkuðu vexti sína. Hvenær gerðu þeir það? Þeir gerðu það 11 dögum eftir að ESA-dómstóllinn hafði hafnað því að úthýsa Húsnæðisstofnun af íslenskum húsnæðismarkaði. Ellefu dögum síðar fara bankarnir niður með vextina af því að þeir ætluðu sér inn á þennan markað. Þeir voru búnir að ná veiðiheimildunum í sjónum undir sig og nú voru það heimilin í landinu sem átti að ná. (Gripið fram í: Af hverju gátu þeir lækkað vextina? Það var út af útrás.) Eigum við nú ekki að skoða þegar öll kurl eru til grafar komin hvernig þessari þjóð, sem er í þann veginn að slá heimsmet í skuldum, við erum þriðja þjóð í heiminum hvað varðar skuldir landsmanna, þjóðarbúsins í heild sinni, þriðja þjóðin í heiminum á eftir Finnlandi og Nýja-Sjálandi. Eigum við ekki að spyrja að leikslokum?

Er það endilega til góðs fyrir íslenskt samfélag að taka alla þá starfsemi, alla þá grunnþjónustu sem byggð var upp í landinu á síðustu áratugum, henda út á markaðstorg og segja: Við skulum bara sjá hvað setur. Það er hins vegar sú stefna sem Framsóknarflokkurinn hefur illu heilli fylgt í tjóðrinu frá íhaldinu.