131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[20:31]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (frh.):

Virðulegi forseti. Þegar ég gerði hlé á máli mínu fyrir atkvæðagreiðslu, um kl. hálfsjö, var ég kominn nokkuð langt með að fara yfir nefndarálit 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar að því er varðar skattskyldu orkufyrirtækja. Ég hafði farið yfir það að með breytingunum er ljóst að verð á heitu vatni og öðrum nauðsynjavörum til heimilanna mun klárlega hækka. Einnig hafði ég farið yfir að þau sjónarmið, sem eru fyrst og fremst samkeppnissjónarmið, sem meiri hlutinn á hinu háa Alþingi notar til að rökstyðja það að fara þessa leið eiga vitaskuld ekki við þegar kemur að hitaveitum og vatnsveitum.

Ég reyndi í fyrri hluta ræðu minnar að fara yfir þetta og um leið að kalla eftir þeim sjónarmiðum sem að baki þessu standa, því hvorki í nefndaráliti né umsögnum þeirra aðila sem telja mikilvægt að málið verði að lögum koma fram sjónarmið og rök sem hægt er að segja að standi undir því að fara þessa leið. Kannski kom besta lýsingin sem við höfum fengið á málinu fram hjá varaformanni efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur. Hún sagði einfaldlega að rétt væri að fara þessa leið og sjá hvað út úr því kemur og meta reynsluna síðar, því fram kemur í áliti meiri hlutans á mjög skýran hátt að engin rannsókn eða könnun hefur verið gerð á því hvaða afleiðingar það muni hafa að skattleggja orkufyrirtæki eins og vatns- og hitaveitur. Það liggur því fyrir að ætlunin er að leggja auknar álögur á heimilin í landinu.

Ég var kominn að þeim stað í ræðu minni þar sem ég vildi vekja sérstaka eftirtekt á þeirri staðreynd að nú nýverið hafa mörg orkufyrirtækjanna gert langa, stóra og mikla samninga við stóriðjur með fast verð með tiltekna arðsemiskröfu sem ekki verður breytt á þessum tíma. Þar er gert ráð fyrir ákveðinni arðsemi sem væntanlega verður skattlögð, sem mun þýða að ef menn ætla að viðhalda sömu arðsemiskröfu þarf að leita í aðra vasa til að ná henni fram. Þá er ekki nema í einn vasa að fara, þ.e. vasa almennings því almenningur notar ekki nema um það bil 20% af því rafmagni sem framleitt er og restin fer til stóriðju. Þess vegna er alveg furðulegt að þessi leið skuli farin í málinu að algerlega óathuguðu máli. Það er ekki eins og okkur liggi á vegna þess að ætlunin er sú að þetta verði ekki lagt á fyrr en á árinu 2006. Það er því alveg furðulegt að þetta skuli keyrt fram af slíku offorsi að óathuguðu máli á þann hátt sem hér er ætlunin að vinna þetta vitandi það að engir útreikningar liggja fyrir um hvað þetta þýðir og helstu sérfræðingar okkar spá 10%–15% hækkun á hitaveitureikningum og vatnsreikningum heimilanna. Þetta er sá veruleiki sem við ræðum.

Þegar ríkisstjórnin virðist ekki hafa neitt uppi í erminni til að rökstyðja og styðja málflutning sinn er oft vísað til Brussel og yfirvofandi hættu á því að hingað komi grjótharðir embættismenn til þess eins að kæra okkur uppi á Íslandi, kæra samfélagið. Það er eitt af því sem kemur frá fjármálaráðuneytinu að yfirvofandi hætta sé á því að við verðum kærð og þess vegna sé mikilvægt að fara þessa leið. Þetta er röksemdafærslan sem finnst því ekki fannst hún í umsögn Verslunarráðsins eins og fram kom í fyrri hluta ræðu minnar.

Í nefndaráliti 2. minni hluta er sérstaklega vikið að því hvernig samskipti ríkis og sveitarfélaga endurspeglast í þessu tiltekna máli. Í nefndarálitinu er sérstaklega vakin athygli á því hvernig þetta hefði komið út ef reglurnar hefðu verið til staðar árin 2002 og 2003. Þau veitufyrirtæki sem hér er vakin athygli á eru öll meira og minna í eigu sveitarfélaganna. Þau taka því arðinn út úr fyrirtækjunum og tryggja að lágmarksverð sé á vatni, hita og rafmagni. Þau geta ákveðið hvort þau taki arðsemina út í að tryggja umbjóðendum sínum lægra verð eða taki fjármunina út úr félaginu í formi arðs. En hér, virðulegi forseti, á að taka út verulegar fjárhæðir án nokkurs samráðs við sveitarfélögin, enda virðast þau ekki hafa nokkra stöðu í samskiptum við ríkið. Ef þetta hefði gilt árið 2002 og 2003 hefði til að mynda 18% skattur á veitufyrirtækin árið 2002 tekið 708 millj. frá sveitarfélögunum miðað við þau fyrirtæki sem hér eru nefnd sérstaklega, þ.e. Húsavík, Norðurorka, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja. Ríkið hefði tekið 708 millj. frá sveitarfélögunum, einungis miðað við þessi fjögur félög.

Nú ætlar ríkissjóður að leggja til rúmlega milljarð á ári næstu þrjú árin yfir til sveitarfélaganna. Ef þetta hefði gilt árið 2002 erum við að tala um nettó 400 millj. því ríkið er búið að ná til baka 708 millj. Í þessu endurspeglast enn og aftur framkoma ríkisvaldsins gagnvart sveitarfélögunum. Ég skil því vel að hv. þm. Pétur H. Blöndal reynir að skýla sér á bak við blöð og bækur sem hann getur fundið til lestrar í þingsalnum.

Einnig kemur fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að þeir hafa leitað eftir formlegum viðræðum við ríkisvaldið um aðgerðina. Það gleymist kannski stundum í umræðunni að sveitarfélögin eru sjálfstæður aðili sem eru tilgreind sérstaklega sem stjórnsýslustig í stjórnarskránni. En það breytir engu. Lög eru sett yfir hausinn á sveitarfélögunum hvenær sem er og breytir engu þótt þau mótmæli harðlega. Á þau mótmæli er á engan hátt hlustað.

Víðast hvar í löndunum í kringum okkur er miklu meira samstarf og samráð milli ríkis og sveitarfélaga en hér er það ríkisvaldið, meirihlutavaldið. Hér er það valdið og við ráðum og gerum hvað okkur dettur í hug jafnvel þó hækka eigi álögur á almenning í landinu án þess að nokkuð liggi fyrir um að skynsamlegt sé að fara þá leið. Við skulum bara gera þetta, við skulum sjá hvernig þetta gengur og svo skulum við reyna að læra af reynslunni. Skítt með það þó almenningur hafi þurft að greiða 10%–15% hærra verð fyrir hita, vatn og rafmagn.

Þó að ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson deilum ekki skoðunum í öllu er það vissulega sjónarmið sem hann kom með inn í umræðuna að verið er að skattleggja lífsnauðsynjar, það er verið að skattleggja vatn, hita og rafmagn. Fullyrða má að fátt er mikilvægara í nútímasamfélagi en þær lífsnauðsynjar og við hljótum að spyrja: Hvað kallar á þessa aðgerð nákvæmlega núna? Líklega hefur ríkissjóður aldrei nokkurn tíma haft aðrar eins tekjur og nú og við hljótum að spyrja: Hvað kallar á það að seilast enn dýpra í vasa almennings meðan aðrir þurfa ekki að greiða af sínu? En í þessu máli eins og svo mörgum öðrum leiða Samtök atvinnulífsins og Verslunarráðið för. Hugmyndir þeirra, viðhorf þeirra, hugmyndafræði þeirra er það sem verður að veruleika á hinu háa Alþingi.

Á stundum höfum við séð í nefndarálitum frá ýmsum nefndum í þinginu að vikið er sérstaklega að því að umsagnir um mál hafi verið sérlega jákvæðar. Í þessu tilviki er hver einasta umsögn neikvæð ef þessir tveir aðilar eru undanskildir. Menn hljóta því einnig að spyrja: Af hverju er ekki vikið sérstaklega að því í álitinu? Af hverju er ekki vikið sérstaklega að því að öll samtök launafólks í landinu eru þessu andvíg? Af hverju er ekki vikið sérstaklega að því að talsmenn neytenda eru þessu andvígir? Það er ekki talið hæfa í þessu tilviki.

Það er kannski ástæðulaust og þjónar ekki miklum tilgangi að vekja enn og aftur athygli á því en hinir miklu meistarar úr Verslunarráðinu eru með umsögn upp á þrjár línur þar sem þeir mæla eindregið með því að þetta verði að lögum.

Síðan er hitt sjónarmiðið sem hefur verið haft uppi, ekki samkeppnissjónarmiðið heldur jafnræðissjónarmiðið, þ.e. að eitt skuli yfir alla ganga vegna þeirra virkjana sem til eru í landinu í einkaeigu. Það er sjónarmið sem virkilega er hægt að horfa á. En ef það hefði átt að jafna þessa aðstöðu, hefði ekki verið rétt að jafna þetta á hinn veginn, þ.e. að skoða hvort það hefði verið möguleiki að afnema skatta á þessi fyrirtæki? (Gripið fram í.) Ég sagði: Hefði ekki verið nær að skoða það að fara þá leið? Það liggur fyrir að sú tiltekna leið sem meiri hlutinn hér ætlar að fara hefur ekkert verið skoðuð. Það kom fram í nefndinni, það hefur komið fram í umræðunni að menn ætla að renna blint í þetta, fara blint inn í þennan farveg og skoða reynsluna af því hvernig hafi reynst að seilast ofan í vasa almennings og sækja þangað meira fé þegar fram líða stundir.

Ég hlýt að spyrja hv. þm. Pétur H. Blöndal hvernig hann telji að þau fyrirtæki sem hafa gert langtímasamninga við stóriðju muni tryggja arðsemiskröfu sína eftir að þetta verður að lögum. Þau geta ekki gert það nema á einn veg. Það er ekki nema í einn hóp að leita. Það er almenningur. Það haggar ekki ró hv. þm. Péturs Blöndals þó að þessi veruleiki sé uppi á borðinu. Þó er rétt að halda því til haga að þó að breytingar kunni að verða á skattskyldu orkufyrirtækja og að þær breytingar hafi áhrif á almenning í þessu landi getum við huggað okkur við það að Alcoa er a.m.k. undanskilið þar sem sérstök ákvæði eru þess efnis að það skipti engu hvort einhverjar breytingar verði á skattumhverfinu eða ekki. Alcoa stendur a.m.k. í óbreyttri stöðu. Þegar kemur að almenningi á hins vegar allt annað við.

Virðulegi forseti. Þegar verið er að gera svona grundvallarskipulagsbreytingar í umhverfi sem skiptir jafnmiklu og orkugeirinn, eins og á skipulagi og sölu á heitu vatni og köldu og rafmagni, verður að gera þá lágmarkskröfu til stjórnvalda að þau hafi farið vandlega yfir þær. Það er ekki rík, ekki stór og ekki mikil krafa. Það er eðlileg krafa. En meiri hlutinn á hinu háa Alþingi bregst ekki í þessu frekar en mörgu öðru. Forgangsröðunin er skýr, hugmyndafræðingarnir eru klárir, Verslunarráðið lýsir veginn og meiri hlutinn gengur á eftir.