131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[20:53]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er verið að loka skattaglufu. Það er verið að færa þessi fyrirtæki undir sama hatt og öll önnur fyrirtæki í landinu, matvörufyrirtæki og flutningafyrirtæki sem öll borga skatta af tekjum sínum, hagnaðinum, 18% reyndar núna sem sumum finnst vera fulllágt. Sumir kvarta jafnvel undan því hvað það er lágt. Það er verið að loka þessu og það er verið að gera skattstofninn almennan. Þess vegna er ég eindregið hlynntur þessu.

Matvörufyrirtæki borga skatta. Flutningafyrirtæki borga skatta. Ég skil ekki af hverju þessi fyrirtæki ættu ekki að borga skatta eins og önnur.

Síðan segir hv. þingmaður að hann hafi ekki trú á því að samkeppni myndist í þessari grein. Það getur vel verið að það sé erfitt að koma á samkeppni í raforkugeiranum en þetta er ekki síður stór grein hér á landi en t.d. matvöruverslun. Allir landsmenn eiga viðskipti við orkufyrirtæki á einn eða annan máta þannig að þetta er mjög stór grein. Fámenni á Íslandi ætti ekki að koma í veg fyrir samkeppni þarna frekar en á öðrum sviðum.

Það má vel vera að það séu vandræði við að koma á samkeppni í svona fámennu landi og getur verið erfitt vegna fákeppni. Við verðum a.m.k. ekki með mörg hundruð fyrirtæki á orkusviðinu. Ég tek undir það og endurtek að í nefndarálitinu stendur: „Einn megintilgangur frumvarpsins er að tryggja jafnræði í skattalöggjöf á þessu sviði.“ Öll fyrirtæki væru þá eins sett, þau sem framleiða risarækjur með þessum hætti og þau sem framleiða risarækjur með öðrum hætti, eða framleiða raforku, eða orku yfirleitt. Einnig á þetta að stuðla að aukinni samkeppni þannig að sum fyrirtæki borgi ekki skatt á meðan önnur gera það. Hv. þingmaður segir að við getum lækkað skatta á þau raforkufyrirtæki sem eru í einkaeigu. Þá lendum við aftur í því að þau fyrirtæki geta verið í samkeppni við önnur fyrirtæki á öðrum sviðum, eins og ég nefndi með risarækjuna.