131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[21:08]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir með hv. síðasta ræðumanni að það er nokkur skaði að við skulum ekki fá hæstv. iðnaðarráðherra til að vera við umræðuna til fróðleiks, skemmtunar og gagnsemi fyrir utan þá aðra ábyrgðarmenn þessa máls sem gætu verið hæstv. fjármálaráðherra og einhvers staðar ætti að vera formaður þingnefndar sem fjallað hefur um málið en ég kem ekki auga á í salnum í bili. Þetta skattahækkunarfrumvarp verkar því svolítið munaðarlaust. Kannski vilja foreldrarnir eitthvað lítið við krógann kannast. Hugsanlega hafa menn ekki mikinn áhuga á að fara í málefnalegar umræður um málið eða forsvara það mikið.

Þetta mál er allrar athygli vert, ekki síst vegna þess samhengis sem það er í við fleiri breytingar sem hafa orðið í orkumálum í landinu á undanförnum mánuðum og árum. Þetta er holdgetið afkvæmi, eða næstum því má segja, þeirrar einkavæðingar eða markaðsvæðingar raforkukerfisins sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir. Menn bera þar að vísu fyrir sig tilskipun Evrópusambandsins um sameiginlegan markað með raforku og hafa út af fyrir sig nokkuð til síns máls í því. Þó er það nokkuð viðurkennt að af Íslands hálfu var ekki mikið gert í því til að reyna að fá annaðhvort varanlegar undanþágur frá þeirri tilskipun eða heimildir til að framkvæma hana með hliðsjón af íslenskum aðstæðum eins og ýmsar aðrar Evrópuþjóðir þar sem sérstaklega háttar til um, hafa fengið að gera.

Þessi ágæta markaðsvæðing orkugeirans hefur leitt til þess að rafmagnsverð í landinu hefur þegar hækkað verulega. Það er orðið óumdeilt. Menn eru að vísu með alls konar skýringar eftir á, þegar hækkanirnar urðu þvert á það sem lofað var, og tala þá um að það sé ekki að marka enn þá þar sem þetta geti verið uppsafnað og erfitt að lesa úr gjaldskránum og þarna sé tilfærsla o.s.frv. Þeir dómbærir menn á þetta sem ég hef helst náð sambandi við, menn sem gerþekkja þennan geira og kunna á þessa reikninga, segja að það sé enginn minnsti vafi á því að að meðaltali sé að verða umtalsverð raunhækkun á raforkuverði í landinu vegna þessara breytinga þó að hún komi misjafnlega niður. Þó að finna megi dæmi um einhverjar lækkanir er hitt miklum mun algengara að menn fái verulegar hækkanir og allt upp í gríðarlegar hækkanir, þeir sem hafa hitað stór hús með rafmagni á köldum svæðum.

Þetta á sér allt skýringar sem í sjálfu sér liggja ljósar fyrir. Það gat hvaða hugsandi maður sem er sagt sér að þetta leiddi til hækkana. Það er svo gersamlega borðleggjandi vegna þess að allmargir nýir kostnaðarliðir bætast einfaldlega ofan á þá sem fyrir voru í kerfinu. Hæstv. iðnaðarráðherra er, sem vel að merkja er nú upplýst, með fjarvist og er erlendis, og skylt að taka það fram sem sannara er, og þá þýðir ekki að fást um það þótt hæstv. ráðherra geti ekki mætt hér til umræðunnar. Það er þá væntanlega einhver annar ráðherra í ríkisstjórninni sem ber ábyrgð á þessu máli og flytur það hér en þeir leggja það ekki orðið í vana sinn, hæstv. ráðherrarnir, að vera í þinginu, maður er að verða tiltölulega vanur því að ráðherrabekkirnir séu tómir. En það blasti auðvitað við hverjum manni að þessar hækkanir eru að verða.

Það má nefna þrjá og kannski frekar fjóra skýringarþætti sem eru þarna augljóslega til staðar í þeim efnum af hverju raforkuverðið hlaut að hækka. Því er ég að rekja þetta, virðulegur forseti, að ég tel að það eigi erindi inn í samhengið sem við erum að ræða hér, um að bæta svo ofan á allt sem fyrir er og orðið er viðbótarhækkunartilefnum á raforkuverð til almennings, sem er með því að skylda fyrirtækin til skattgreiðslna sem engir aðrir borga að lokum þegar upp er staðið en notendurnir.

Í fyrsta lagi kosta auðvitað uppskipti orkufyrirtækjanna fjármuni. Það kostar að framkvæma þá breytingu. Orkufyrirtækin sjálf kalla það öfug samlegðaráhrif. Það þarf að skipta upp starfseminni, aðgreina stjórnkerfið, stofna ný fyrirtæki, aðskilja algerlega bókhald þeirra og þar fram eftir götunum. Hve mikil þessi öfugu samlegðaráhrif eru er kannski erfitt að segja en þau eru annars vegar fólgin í tilteknum einskiptiskostnaði sem fellur á núna og hins vegar í ákveðnum viðbótarrekstrarkostnaði vegna þess að fleiri einingar eru reknar.

Í öðru lagi er alveg ljóst að þessari málamyndamarkaðs- og samkeppnisvæðingu í orkugeiranum, sem auðvitað verður fyrst og fremst til málamynda vegna augljósra, landfræðilegra og líffræðilegra aðstæðna á Íslandi, fylgir mikill eftirlitskostnaður. Þannig er það alls staðar og alveg sérstaklega ef menn reyna að einkavæða veitustarfsemi og aðra slíka starfsemi sem lýtur að verulegu leyti lögmálum náttúrulegrar einokunar. Þá þarf mikið eftirlit til að koma í veg fyrir að menn misbeiti þeirri stöðu sinni þar sem samkeppnin er eins og hver annar roknabrandari, þar sem í besta falli getur orðið um algera fákeppni að ræða og þar á ofan eru þetta opinberir aðilar.

Í þriðja lagi er búið að lögskylda orkufyrirtækin til að taka arð út úr rekstrinum, til að reikna sér í þrepum, vaxandi og að lokum fullan arð miðað við alla þá eiginfjárbindingu sem í rekstrinum er og greiða sér hann á ári hverju. Það er ekki lengur eitthvað sem menn eiga val um heldur eru menn beinlínis skyldaðir til þess. Hverjir halda menn að borgi þennan arð sem þannig verður árlega tekinn út úr rekstrinum aðrir en notendurnir? Engir? Þá kemur að þessu frumvarpi, herra forseti, til viðbótar þessu, ofan á þessi tilefni til hækkunar á raforkuverði, sem sannarlega eru orðin, ætla menn svo að skella skattskyldu orkufyrirtækjanna. Það finnst mönnum nauðsynlegt að gera af því að annars sé þetta ekki alvörumarkaðsvæðing, alvörumarkaður, alvörubisness.

Þarna er þá í fyrsta lagi horft fram hjá því að eigendurnir eru opinberir aðilar sem eru þá að verulegu leyti að greiða sjálfum sér skattinn. Þá verður að vísu ákveðin tilfærsla í þeim skilningi að sveitarfélög eru stórir eigendur að orkufyrirtækjunum, ýmist á móti ríkinu eða í gegnum sínar eigin veitur, en það er ríkið sem á að fá skattinn. Að svo miklu leyti sem þar verður tilfærsla á verður hún frá sveitarfélögum til ríkisins. Er það þá það sem menn þurfa helst á að halda um þessar mundir? Er ríkið svona illa haldið og sveitarfélögin svona vel stæð? Það mætti ætla það. Að minnsta kosti hafa kröfur sveitarfélaganna um úrbætur í fjármálum sínum ekki fengið mikið brautargengi og mætti nú margt segja um það hvernig sveitarfélögunum hefur tekist í hagsmunagæslu sinni í þeim efnum.

Ég verð að segja alveg eins og er að maður fer nú að hætta að nenna því að bera mikið blak af því batteríi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og hvernig það hefur staðið á verðinum eða kannski öllu heldur sofið, eða eigum við að nota aðra líkingu, staðið í ístaðinu, ekki með burðugri hætti en svo að það er nú algerlega að snarast á klárnum. Þess vegna undrar það mann t.d. í þessu tilviki að Samband íslenskra sveitarfélaga skuli ekki taka grjótharða afstöðu gegn þessu máli. Nei. Það er verið að kvarta undan því og leggjast alfarið gegn því að hitaveitur séu skattlagðar eins og raforkufyrirtæki, en þeir virðast ekki hafa kjark þar á bænum til þess að berja bara í borðið og segja: Nú er nóg komið, hingað og ekki lengra. Orkufyrirtækin sjálf í eigu sveitarfélaganna eru miklu harðari í afstöðu sinni, t.d. Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja, heldur en yfirhagsmunagæsluaðilinn sjálfur, Samband íslenskra sveitarfélaga. Vekur manni nokkra undrun. Þessi tilfærsla þarna verður í þá átt.

Það langalvarlegasta í þessu máli, virðulegi forseti, er auðvitað svikamyllan sem er innbyggð í skipulag og hlutföll orkumálanna á Íslandi. Það er hin eitraða svikamylla sem almenningur er búinn að búa við frá því virkjun hófst í þágu erlendrar stóriðju hér í landinu illu heilli þannig að það var gert inni í einu og sama fyrirtækinu, að virkja bæði fyrir almenna notendur og almennan markað innan lands og stóriðjuna. Það bókhald hefur aldrei fengist hreint. En verðhlutföllin, þau liggja nokkuð fyrir. Það er í besta falli þannig að Landsvirkjun fær einn þriðja af því verði til stóriðjunnar sem hún fær þegar hún selur í heildsölu til annarra stórra innlendra kaupenda. Það má kallast gott ef það nær því. Þessi hlutföll hefur undanfarin ár mátt lesa út úr ársskýrslum Landsvirkjunar þangað til núna að ég tók mér ársskýrsluna í hönd og sé allt í einu mér til mikillar undrunar að horfið er út úr ársskýrslunni aðgreining orkusölu og tekna til stóriðju annars vegar og almennra notenda hins vegar, sem ég held ég muni rétt að var í skýrslunum alveg þangað til á síðasta ári. Hvers vegna skyldi það nú vera, herra forseti? Getur verið að það sé að verða eitthvað viðkvæmt að sýna þetta?

Staðan er þannig að Landsvirkjun eða orkumarkaðurinn á Íslandi hefur verið að selja núna um 70% af orku sinni til stóriðju. Nú er það hlutfall að hækka ört, fer í 80–85% á næstu þremur árum eða svo, almenni markaðurinn, þ.e. almenningur og innlendir notendur sem ekki flokkast til stóriðju, kaupa afganginn. Þeir hafa þá verið að kaupa um þriðjung núna að undanförnu. Tekjurnar hafa komið inn akkúrat í öfugum hlutföllum. Það sýnir mönnum hvernig þessi hlutföll eru. Nú á enn að draga þarna í sundur.

Þá kemur að því að útsöluprísarnir til stóriðjunnar eru bundnir til langs tíma, til 20 ára, jafnvel lengur. Verðviðmiðunin er föst. Það er heimsmarkaðsverð á áli í tonnum per dollar, eða í dollurum per tonn. Þar verður engu um þokað nema þá þegar kemur að endurskoðunar- eða uppsagnarákvæðum í þeim samningum. Þar eru engir skattar reiknaðir inn. Engir. Enda var ekki gert ráð fyrir þeim þegar þannig var samið. Verðin voru skrúfuð niður í þvílíkt botnlágmark eins og allir vita að það hvín og syngur í öllu saman. Þær væru ekki merkilegar tekjurnar sem væru að rúlla inn hjá Landsvirkjun í dag ef hún hefði ekki verið svo stálheppin að fá þessa hækkun á álverði sem hefur verið að ganga yfir heiminn núna að undanförnu, sérstaklega vegna mikils hagvaxtar í Kína. Þá væru það nú ekki háar tölur í íslenskum krónum, a.m.k. meðan gengið er eins og það er, sem væru að koma inn núna.

Hvað gerist þá þegar skattlagningargreiðsluskylda verður lögð á þessi orkufyrirtæki, eins og t.d. Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja, sem eru nýbúin að semja um afhendingu á miklu magni orku á föstum lágum verðum til 20 ára, án þess að reikna þar inn nokkrar skattgreiðslur? Hver getur borgað skatta af mögulegum hagnaði fyrirtækjanna? Almenningur. Almenni notandinn. Þetta blasir við.

Það er sem sagt ekki verið að hækka skatta almennt á viðskiptavinum orkufyrirtækjanna, vegna þess að sumir þeirra eru undanþegnir, þeir eru varðir af samningum á föstum verðum, enda segja þær eftirfarandi í umsögnum sínum, bæði Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja, og kveða alveg skýrt að orði. Með leyfi forseta, segir í umsögn Orkuveitu Reykjavíkur, í 3. og 4. tölul. á bls. 7 í nefndaráliti 1. minni hluta, hv. þm. Ögmundar Jónassonar.

„Skattlagning á orkufyrirtæki mun óhjákvæmilega leiða til hækkunar verðs þar sem í núverandi gjaldskrá gerir ekki ráð fyrir greiðslu tekju- og eignarskatta.

Orkuveita Reykjavíkur er með samninga um orkusölu til stóriðju sem gilda í 20 ár. Samningar þessir hafa verið gerðir fyrir hvatningu ríkisins og engir fyrirvarar af þess hálfu að gera þurfi ráð fyrir skattlagningu til framtíðar. Arðsemisútreikningar sem gerðir hafa verið í góðri trú vegna stórframkvæmda hafa ekki gert ráð fyrir greiðslu þessara skatta.“

Sama nokkurn veginn orðrétt, a.m.k. efnislega, segir Hitaveita Suðurnesja. Þá vitum við náttúrlega að það sama gildir um Landsvirkjun. Ekki er reiknað með neinum sköttum í samningnum stóra um útsöluna miklu frá Kárahnjúkum. Reyndar er reiknað með sáralitlum arði líka. Fyrirtækið verður því ekki mikið gróðafyrirtæki fyrstu árin.

Sama er ef menn eiga að taka þessa hluti alvarlega þá er þetta svona, að stóru kaupendurnir allir eins og þeir leggja sig eru út úr myndinni. Það geta engir tekið á sig þennan skatt nema þeir sem eftir eru, það eru almennu notendurnir í landinu. Ósvífnin í málinu er í raun og veru margföld þegar þetta er skoðað í réttu ljósi, að þessi skattahækkun eða skattgreiðslur geta eðli málsins samkvæmt eingöngu lent á hinum almennu notendum, þeim hinum sömu og fengu á sig hækkanirnar um áramótin. Finnst hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, sem hefur verið að fara svolítið um kjördæmið trúi ég og hitt einn og einn framsóknarmann, kannski reiða framsóknarmenn í Eyjafjarðarsveit sem hafa nýlega fengið rafmagnsreikningana sína, finnst henni tilhlökkunarefni að fara næst norður og ræða við þá um næstu hækkun, sem leiði af því að nú hafi snillingunum dottið það í hug að leggja skatta á orkufyrirtækin sem stóriðjan að sjálfsögðu er undanþegin og engir geta borgað nema þeir sem eftir eru, almennu notendurnir? Það er mikil snilld að dengja þessu ofan í kaupið.

Maður veltir því fyrir sér hvort mönnum sé alveg sjálfrátt, menn séu með fullri meðvitund þegar þeir raða þessum hlutum svona upp. Hvað lá nú á í þessu tilviki? Hafa menn fengið einhverjar klögur? Er eitthvað sem skyldar Ísland til að fara að skattleggja orkufyrirtækin þó við höfum tekið upp þessa orkutilskipun Evrópusambandsins? Nei, það er ekki þannig, það er alveg á hreinu. Við erum ekki aðilar að Evrópusambandinu og EES-samningurinn færir okkur ekki inn undir tollabandalag og skattasamræmingu Evrópusambandsins, það er ekki svo. Við erum að vísu bundin af samkeppnislögunum, en meðan við mismunum ekki fyrirtækjunum innbyrðis á þessu sviði er okkur stætt á að hafa þessa hluti eins og við kjósum.

Jafnvel þótt menn fari og nöldri eitthvað og reyni að kæra þetta mætti láta á það reyna, því það er ansi hart og ansi langt gengið ef ekki má láta starfsemi af þessu tagi sem í eðli sínu er veitustarfsemi og auðvitað almannaþjónusta ef allt er með felldu gagnvart skilgreiningum og er í opinberri eigu ríkis og sveitarfélaga, búa við það skattalega umhverfi sem við svo kjósum. Það væri þá hægt að hafa á þeim 2% tekjuskatt ef einhverjum liði betur með það. En það er ekkert, nákvæmlega ekkert sem segir að þetta þurfi að gerast si svona.

Þetta frumvarp er líka mjög illa undirbúið, herra forseti. Það er með miklum endemum að sjá það meira að segja í greinargerð með frumvarpinu og auðvitað taka umsagnaraðilar það margir óstinnt upp að það sé nánast ekki hægt að reikna neitt út hvaða áhrif frumvarpið hafi. Eiginlega er bara skotið út í loftið með það. Engar forsendur liggja fyrir um hver geti orðið líkleg áhrif þess á afkomu orkufyrirtækjanna hverjar skattgreiðslurnar geti orðið. Þær forsendur vantar meira og minna. Auðvitað hefur þetta tekið miklum breytingum og það er erfitt að sjá það nákvæmlega fyrir sér. En eru það þá kannski ekki rök fyrir því að doka nú aðeins við? Væri nú ekki ráð að leyfa orkugeiranum að jafna sig eftir síðustu köldu sturturnar, þ.e. kerfisbreytinguna um áramótin og ýmislegt fleira sem þar hefur verið að dynja á mönnum áður en farið er út í þetta?

Það sem ég óttast að vísu mest, herra forseti, er að það hlálega verði aðallega upp á teningnum að stóru orkufyrirtækin öll komi nánast ekki til með að borga neina skatta næstu tíu árin, það verði fyrst og fremst minnstu orkufyrirtækin sem þarna gætu átt í hlut, sem gætu átt eftir að búa við þolanlega afkomu vegna þess að þau eru fyrst og fremst að selja almennum notendum á sínu svæði orku og veita þeim þjónustu. Sérstaklega geti þetta átt við ef hitaveitur verða látnar vera þarna undir áfram eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Ég hef því miður ekki mikla trú á að hún Landsvirkjun okkar verði þannig gróðafyrirtæki á næstu tíu árum eða svo að hún borgi mikla skatta. Ætli verði ekki frekar ástæða til að hafa áhyggjur af hinu gagnstæða? Hvernig halda menn að efnahagsreikningurinn þar líti út ef gengi krónunnar fellur um 20–30% innan árs? Segjum nú að til viðbótar fari álverðið kannski niður, niður í þá 1.550 dollara á tonn sem áætlanirnar gerðu ráð fyrir? Þá fer nú að harðna á því.

Ég er heldur ekki viss um að samningar Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja eigi eftir að færa þeim myljandi gróða fyrstu árin, þó það sé að vísu öðruvísi dæmi þegar byggðar eru gufuaflsvirkjanir sem hafa hlutfallslega lægri stofnkostnað bak við framleidda orkueiningu en hins vegar meiri rekstrarkostnað þegar frá líður, jafnari og meiri inn í framtíðina, þannig að dæmið lítur betur út í byrjun en á sér minni von um góðan hagnað að lokum heldur en vatnsaflsvirkjanirnar.

Frumvarpið er illa undirbúið og vanhugsað að mínu mati. Það er nánast óboðlegt af hæstv. iðnaðarráðherra sem aðila að þessu máli í ríkisstjórninni að standa að því ofan í þau ósköp sem hér gengu yfir um áramótin og á mánuðunum fyrir áramótin, þau hroðalegu vinnubrögð sem menn standa núna frammi fyrir og eru uppvísir að, að koma svo með þetta í viðbót eða samþykkja að þetta sé lagt fram. Mér finnst það alveg með ólíkindum satt besta að segja, herra forseti, hversu lítinn metnað menn hafa fyrir sjálfs sín hönd og verka sinna að láta hafa sig út í slíkt eða standa að slíku.

Þetta frumvarp um aukna skattlagningu almennings er að mínu mati alveg herfilega misráðið plagg, misráðin ráðagerð, enda stendur ekki á því að nánast allir umsagnaraðilar finna því allt til foráttu að þetta sé afgreitt. Þannig leggjast stærstu samtök launamanna gegn því. Orkufyrirtæki sveitarfélaganna mótmæla því harðlega og reyndar ýmsir fleiri sem ég sé ekki ástæðu til að endurtaka eða rekja hér því grein mun hafa verið gerð fyrir því í fyrri ræðum hér um málið.

Ég sé svo sem ekki ástæðu til, virðulegur forseti, að fara um þetta kannski fleiri orðum. Ég tala hér yfir svo til tómum bekkjunum því aðstandendur málsins eru meira og minna allir flúnir af hólmi. (PHB: En formaður og varaformaður?) Alla vega ekki ... (PHB: En formaður og varaformaður nefndarinnar?) Já, þeir eru komnir til sögunnar núna sem gleður mig mjög. Hæstv. fjármálaráðherra er ekki hér og hæstv. iðnaðarráðherra er ekki hér. (PHB: Á forræði þingsins.) Hv. þm. Pétur Blöndal, ég hef heyrt þetta frammíkall áður, að mál af þessu tagi séu á forræði þingsins. Ætli fjárveitingarnar til Mannréttindaskrifstofu Íslands hafi ekki verið á forræði þingsins? (Gripið fram í.) Já, já, það tókst nú hönduglega eins og dæmin sanna. Það tókst hönduglega. Ætli við höfum ekki einhvern grun um það, hv. þingmaður, sem þekkjum sæmilega til í stjórnmálunum hverjir það séu sem ráða þegar til kastanna kemur og hinn auðsveipi meiri hluti hæstv. ríkisstjórnar, sem er sá slappasti sem ég hef upplifað hér á mínum rúmu tveimur áratugum á þingi, af öllu slöppu, ætti nú ekki að vera að ybba mikið gogg þegar ýmis mál hér ber á góma. (Gripið fram í.)

Ég man ekki betur líka en að einn og einn þingmaður og einn og einn sjálfstæðismaður hafi verið eitthvað að nöldra úti í bæ, jafnvel á þingi, um þessa breytingu í orkumálunum. Er það ekki rétt munað um oddvita minni hlutans í borgarstjórn Reykjavíkur, þ.e. að þar hafi gerst þau undur og stórmerki að þeir bara sameinuðust Pontíus og Pílatus, eða hvað það nú heitir, og oddviti meiri hluta og minni hluta voru sammála um það í umræðum um málið á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur að auðvitað hefði Ísland átt að reyna að fá varanlega undanþágu frá þessu og það ætti að athuga það þó seint væri. Einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sögðu hið sama eða a.m.k. lýstu hugrenningum í sömu átt og það gekk sú saga að menn væru lítt hrifnir í þingliðinu ýmsir á þessum breytingum. En þetta var keyrt í gegn. (Gripið fram í.) Ég er nú að tala um sjálfa (Gripið fram í.) markaðsvæðinguna, orkutilskipunina. Það er undanfari þessa, hv. þingmaður. En þetta var keyrt í gegn og menn létu sig hafa að samþykkja það.

Það er ánægjulegt að í þetta skiptið er hv. þm. Pétur Blöndal svona einstaklega glaður yfir skattahækkunum. Hann er nú stundum þekktur fyrir annað. En hér brosir hv. þingmaður út í sal, ræður vart við sig af kæti og kallar fram í í strákslegri gamansemi yfir því að hér skuli vera á dagskrá þetta skattahækkunarfrumvarp á almenning þar sem almennir raforkunotendur eiga að taka að sér að greiða alla skattana, líka fyrir stóriðjuna af því hún er undanþegin þeim á grundvelli langtímasamninga um útsöluverð á rafmagni á grundvelli þessa furðulega kerfis sem ólán okkar Íslendinga hefur orðið að byggja inn í skipan raforkumála okkar. Við sjáum því lítið til lands í þeim efnum að hér lækki eitthvað raforkuverðið til almennra notenda eins og það auðvitað ætti að geta gert. Staðreyndin er sú að ef allt væri með felldu á Íslandi þá ættum við að geta búið við eitthvert hagstæðasta raforkuverð til almennra notenda sem þekktist á byggðu bóli. Það eru meira en allar forsendur til þess hér. Það hefur engin þjóð í heiminum, liggur mér við að segja, aðrar eins aðstæður til þess að búa við hagstæðan sjálfbæran orkubúskap og Íslendingar. En við höfum hressilega klúðrað því hvað varðar stöðu hinna almennu notenda. Það er hlálegt en satt að það skuli þurfa verulegar niðurgreiðslur úr ríkissjóði t.d. til þess að raforkuverð til garðyrkjubænda á Íslandi sé ekki hærra en í Hollandi. Finnst hv. þm. Pétri Blöndal að það sé bara allt í lagi? (Gripið fram í: Vantar samkeppni) Það vantar samkeppni, já. Það var lóðið. Það vantar samkeppni. Hún er þá líkleg til að lækna þetta eða hitt þó heldur. Hvað fylgdi samkeppnisfrumvarpinu hérna um áramótin um markaðsvæðingu raforkunnar? Voru það ekki viðbótargreiðslur úr ríkissjóði upp á nokkur hundruð milljónir þar sem átti að auka niðurgreiðslurnar til almennings til húshitunar og auka niðurgreiðsluna til garðyrkjubænda til þess að rafmagnsverðið hjá þeim hækkaði ekki enn meir en ella hefði orðið? Það voru fyrstu áhrif samkeppninnar sem við upplifðum. Samkeppni hvað? Heldur hv. þm. Pétur Blöndal að hann fái einhvern til þess að trúa því að það séu forsendur fyrir eiginlega samkeppni í orkumálum á Íslandi eins og staðan er þar, á þessum litla algerlega lokaða orkumarkaði hér úti í miðju Atlantshafinu, þar sem keppendurnir eru svona tveir og hálfur kannski, ef svo má að orði komast, og ríkið og sveitarfélögin sameiginlega eiga fyrirtækin sem öllu ráða og öllu skipta? (Gripið fram í.) Já, en ætli það verði nú ekki handleggur að selja þetta eins og menn hafa komið fjármálum þeirra nú um sinn?

Þetta frumvarp er alveg með ólíkindum, herra forseti. Það sýnir hvernig kreddan getur borið menn fullkomlega ofurliði. Öll skynsemissjónarmið eru látin lönd og leið og menn standa berir að hlutum eins og þeim sem hér blasa við hverjum manni, að það er alveg einstaklega ólánlegt hvernig þetta hlýtur að leggjast og hvernig byrðin af þessum skattgreiðslum, að svo miklu leyti sem einhverjar verða, eru dæmdar til að lenda á herðum almennra notenda einna sem kaupa að vísu aðeins lítinn hluta orkunnar en leggja til mikinn meiri hluta teknanna engu að síður. Ofan á það fyrirkomulag bætast því byrðarnar af þessum skattgreiðslum. Ofan á það lendir kostnaðurinn af Evróputilskipuninni og markaðsvæðingunni frá því um síðustu áramót. Ég óska stjórnarþingmönnum og ekki síst stjórnarþingmönnum af landsbyggðinni eða þeim sem þekkja til þar alveg innilega til hamingju með þessa viðbót við kraftaverk sín frá því um síðustu áramót.