131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[21:39]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður telur að það hafi staðið þannig um 1983 þegar undirritaður tók sæti á Alþingi að Búrfellsvirkjun hafi verið um það bil búin að greiða sig upp. Hv. þingmaður er nú ekki vel að sér í sögunni. Er hv. þm. Halldór Blöndal búinn að gleyma því að ítrekað á áttunda áratugnum sérstaklega varð að hækka raforkuverðið til almennra notenda til að forða Landsvirkjun frá gjaldþroti vegna þeirra ótrúlega lélegu samninga sem gerðir voru í upphafi við Ísal og hverjum ekki fékkst breytt fyrr en nefndur Hjörleifur Guttormsson, þáverandi iðnaðarráðherra, hafði sannað svindl á fyrirtækið, hækkun í hafi, og fyrirtækið valdi það til að komast hjá dómi í alþjóðlegum gerðardómstóli í New York að gangast inn á samninga um verulegar greiðslur og hækkanir á raforkuverðinu? Þetta liggur fyrir. Þetta er skjalfest. Þetta er sannað. Það vita auðvitað allir sem þekkja til þessarar sögu að samningarnir sem voru gerðir um raforkuframleiðsluna upphaflega til Ísals voru algjörlega út úr öllu korti. Menn notuðu þá m.a. til réttlætingar þeim að það væru síðustu forvöð að reyna að selja eitthvað af rafmagni á Íslandi af því að kjarnorkan væri að koma og verða svo ódýr að hún væri að leysa þetta allt af hólmi. Milljarðarnir sem hins vegar hafa komið í kassann, tikkað í kassann síðan vegna þess að það tókst að fá þessu verði breytt og það hækkað, hafa skipt miklu máli. Þar á einn maður, Hjörleifur Guttormsson, öllum öðrum meira hrós skilið nema ef vera skyldi fyrir hans helsta aðstoðarmann Inga heitinn R. Helgason.

Það sem ég var aðallega að leggja hér áherslu á — en ég er alveg tilbúinn í umræður við hv. þingmann um málin almennt — var sú óskaplega villa að ganga ekki frá því strax í byrjun að framleiðslan til stóriðjunnar væri í sérfyrirtækjum, algerlega aðskilin og truflaði ekkert fjárfestingar og verð á (Forseti hringir.) hinum almenna notendamarkaði.