131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[21:41]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar farið er að tala um Hjörleif Guttormsson sem helsta brautryðjanda stóriðjuframkvæmda og stóriðjurekstrar hér á landi þá minnir það á þegar menn úr svipuðum flokki töluðu um Jósef Stalín sem mesta friðarhöfðingja veraldarinnar fyrr og síðar. (SJS: Ja, hérna ...) Það er auðvitað svo ... (SJS: Góða kvöldið.) Já, gott kvöld. Ég (Gripið fram í.) vil taka það sérstaklega fram (Gripið fram í: ... ekki forseti þingsins ...) að ... Forseti þingsins talaði, já, og er nýbúinn að lesa ýmsar bækur m.a. eftir nóbelsskáld okkar Halldór Laxness þar sem minnst er lítillega á þennan mikla leiðtoga friðarins fyrir austan. Ef hv. þingmaður hefur ekki lesið Halldór Laxness þá get ég vísað honum á ýmsar góðar bækur, t.d. Gerska ævintýrið, Fótatak manna og ýmislegt annað þar sem þessu er lýst, eða Í austurvegi t.d. Þar eru nú heilu friðarræður Jósefs Stalíns teknar upp og má svo sem vitna í ýmsa aðra menn úr því gamla Alþýðubandalagi og gamla Kommúnistaflokki sem hafa kunnað mjög að meta þann mann. Það voru einmitt menn úr þessum sama flokki sem stóðu harðast og fastast gegn stóriðjuframkvæmdum og stóðu gegn því að virkjað yrði við Búrfell.

Eins og fram kom hjá hv. þingmanni áðan þá fór nú svo eins og fyrir séð var að orkusalan frá þeirri virkjun borgaði hana að fullu og öllu og hefði auðvitað gert það hvort sem það fyrirtæki hefði verið sérstakt eða ekki því auðvitað hefði þurft hlutafé til að koma ef það fyrirtæki hefði sérstaklega verið stofnað til þess að reisa þá virkjun. Það stendur því og það er ljóst að sá mikli arður og þau miklu auðævi sem við eigum í Landsvirkjun eru vegna stórvirkjana. Því vilja líka ýmsir (Forseti hringir.) reisa nú á Norðurlandi álver við Skjálfanda eða Eyjafjörð eins og hv. þingmaður veit.