131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[21:46]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil segja fáein orð um þetta mál. Auðvitað er það hluti af því ferli sem stjórnvöld hafa sett af stað vegna samkeppnisvæðingar á raforkumarkaðnum. Ég ætla ekki að endurtaka umræðuna um tilurð þess leiðangurs en ég kemst þó ekki hjá því að segja að mér finnst menn flýta sér of hratt. Fólkið í landinu er enn þá í óvissu um afleiðingarnar af fyrsta skrefinu í hinni svokölluðu samkeppnisvæðingu sem á svo að ganga yfir allt um næstu áramót. Ég tel mikils vert að rugga þessum bát ekki meira en þarf.

Ég tel að menn séu að flýta sér of mikið með því að klára þessi mál líka til viðbótar núna. Það getur ekki legið svo á að koma á skattlagningu á þessi fyrirtæki sem ekki hafa borgað skatta fram að þessu, að koma með þá lagasetningu beint í kjölfarið á hinni fyrri. Ég held að það væri til bóta að menn létu þetta mál bíða fram á næsta vetur. Þá væru menn a.m.k. búnir að sjá afleiðingarnar af breytingunni sem orðin er. Ég held að gott væri að menn fengju líka að lifa næstu áramót áður en þeir taka afstöðu til þeirra hluta sem hér er verið að leggja til. Um næstu áramót ætti að vera farið að sjást í hvort einhvers konar samkeppni á raforkumarkaði geti komið almenningi til góða . Mér er það ekki ljóst og ég held að sé ekki nokkrum manni ljóst í dag hvort þessir hlutir muni ganga eftir eins og menn vona.

Ég hef nú stundum sagt það áður í umræðu um þennan samkeppnisgeira sem þarna á að verða til að ég hef áhyggjur af því að hluti þeirrar samkeppni verði þannig að hún muni koma mönnum mjög á óvart. Það er veruleg hætta á því að það verði til samkeppni um afgangsraforku, viðbótarraforku, t.d. á góðum sumrum, eða af því menn hafi virkjað pínulítið meira en orkumarkaðurinn geti tekið við. Þá er þessi markaður ekki venjulegur heldur er búið að fjárfesta í sjálfum virkjununum og allur stofnkostnaðurinn er kominn. Framleiðslukostnaður á raforku er nánast enginn þegar stofnkostnaðurinn er kominn. Þetta þýðir að eigi fyrirtæki orku sem þau geta selt þá er hægt að selja hana fyrir mjög lítinn pening, einfaldlega vegna þess að allt er betra en ekkert þegar menn hafa allan kostnaðinn á sér hvort sem er.

Ég bið menn að útskýra fyrir mér hvernig eigi að koma í veg fyrir að hér verði seld raforka á algjörum spottprísum þegar þannig hagar til. Ef ekki, hvar er þá samkeppnin? Þetta er áhyggjuefni sem menn hafa ekki lagt á sig að ræða í sölum Alþingis síðan farið var að ræða þessa einkavæðingu framtíðarinnar sem hér er stefnt að.

Það má líka velta fyrir sér þeirri skattlagningu sem hér er á ferðinni. Eins og ég sagði er ég á móti því að menn komi með hana nú strax. Ég tel reyndar að í framtíðinni verði ekki undan því vikist að búa til svipað umhverfi í þessum rekstri eins og öðrum rekstri í landinu, einfaldlega vegna þess að það hefur verið ákveðið að almennir aðilar, einkafyrirtæki, komi inn í framleiðslu og sölu á raforku. Þá er auðvitað ekki hægt annað en hafa álíka skattaumhverfi fyrir þau fyrirtæki. Það segir samt ekki að ganga þurfi það mál núna, á meðan menn eru ekki búnir að átta sig á því hvernig hlutirnir muni ganga fyrir sig.

Við höfum séð að hjá einstökum fyrirtækjum, orkuframleiðslufyrirtækjum í landinu, hafa orðið hækkanir. Hjá Orkuveitu Suðurnesja segja menn að hækkunin hafi verið 15%. Við höfum heyrt héðan og þaðan af landinu af fólki sem hefur verið að fá reikninga. Þar er talað um verulega miklu meiri hækkanir. Reynslan á þessa hluti er ekki komin. Þess vegna finnst mér menn ganga allt of hratt fram með því að klára þau mál sem hér er lagt til að verði afgreidd í þinginu.

Það er alveg hárrétt sem hér hefur komið fram að samningar um stóriðju eru til langs tíma. Fyrirtækin sem hér á að skattleggja, þ.e. Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja, eru öll með langtímasamninga um sölu á orku til stóriðju. Þeir langtímasamningar gera ekki ráð fyrir því að greiddir séu skattar af tekjunum með þeim hætti sem hér er lagt til. Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort stjórnvöld geti gengið fram með þeim hætti gagnvart orkufyrirtækjunum eins og ætlunin er að gera. Þarf ekki að setjast yfir það hvort ekki eigi að ganga til móts við þessi fyrirtæki hvað varðar þá samninga sem gerðir hafa verið. Það er hægt að velta því fyrir sér á ýmsan máta. Það er t.d. augljóst að ef Landsvirkjun á að hala inn fjármuni til viðbótar fyrir þeim sköttum sem hér er gert ráð fyrir að verði lagðir á þá verða þeir ekki sóttir annað en í almenna raforkusölu Landsvirkjunar á innanlandsmarkaðnum. Það gæti hækkað raforkuverð almennings verulega.

Sveitarfélögin hafa mótmælt þessu á þeim forsendum. Þau hafa bent á að þessi fyrirtæki eru mörg hver í eigu sveitarfélaganna. Þau hafa farið mjög ákveðið fram á það að hitaveiturnar verði undanþegnar. Það er skiljanlegt vegna þess að auðvitað eru einkaleyfi á bak við hitaveiturnar og ekki um neina samkeppni um orkusöluna að ræða þar sem einkaleyfin eru.

Ég tel að hér hafi menn gengið of hratt fram og eigi að doka við. Það er mín skoðun að best væri að þessu máli yrði lagt, afgreiðslu þess frestað og að menn tækju málið upp aftur eftir næstu áramót. Eins og ég sagði áðan ætti þá að vera betur komið í ljós hvernig mál hafa skipast hvað varðar orkuverð. Þá ætti líka að vera komið betur í ljós hvort einhvers konar samkeppnisumhverfi er að verða til í raforkugeiranum. Þá ætti almenningur í landinu líka að vera búinn að átta sig svolítið á því nýja umhverfi sem hér er að skapast.

Hér væri hægt að hafa langt mál um þetta efni. Ég ætla ekki að gera það. Ég tel að ég hafi komið því á framfæri sem ég ætlaði mér. Ég ætlaði fyrst og fremst að leggja til að menn veltu fyrir sér af fullri sanngirni hvort skynsamlegt væri að klára þessi mál með þeim hætti sem hér er lagt til. Ég tel einsýnt að menn eigi ekki að gera það og að frestun fram á næsta vetur væri skynsamlegasta niðurstaðan. Ég ætla ekki að endurtaka það, hæstv. forseti.