131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[22:39]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þá ágætu umræðu sem hér hefur staðið í dag og kvöld. Það er orðið langt liðið á kvöldið, klukkan að ganga 11, en hér hefur margt ágætra sjónarmiða verið reifað í þessu máli. Ég ætla að reyna að auka þar aðeins við en tel eðlilegt að það komi fram við upphaf ræðu minnar að sá sem hér stendur á í senn sæti í stjórn Landsvirkjunar og sömuleiðis um þessar mundir í borgarstjórn Reykjavíkur og gætir á þeim vettvangi auðvitað þeirra hagsmuna sem þar liggja og varða þetta mál. Er rétt og eðlilegt að þeir sem mál mitt heyra hafi það í huga þegar þeir meta þau sjónarmið sem ég set fram.

Ég vil í fyrsta lagi lýsa almennt jákvæðri afstöðu til þess málefnis sem hér er á ferðinni, skattlagningu á þá starfsemi sem hér er undir, þ.e. raforkuþáttinn, og ég held að það sé miklu eðlilegra að tala um það, sem það er, sem auðlindagjald. Við höfum í þinginu og hinni pólitísku umræðu oft rætt um auðlindagjöld á auðlindir lands og sjávar. Það hefur því miður verið mikil andstaða hjá stjórnarflokkunum við slík gjöld á auðlindir sjávarins en hér er ríkisstjórnin greinilega að fara fram með auðlindagjaldskröfu á bæði auðlindir í vatnsafli og varmaorku sem í landinu eru. Í dag eru í sjálfu sér ekki gerðar rentukröfur af hálfu ríkisins til þeirra auðlinda og það er sú stefnubreyting sem hér er kynnt að gerðar séu arðsemiskröfur til þessara auðlinda eins og til annarra auðlinda í landinu og annarrar starfsemi í landinu. Ég held út af fyrir sig að það sé óhjákvæmileg þróun hvað raforkuiðnaðinn varðar, sérstaklega nú eftir að hann hefur verið markaðsvæddur, og kunni jafnvel að þurfa að koma til umfjöllunar hvort í því efni þurfi að ganga lengra þegar fram líða stundir, vegna þess að í raforkuiðnaðinum blasir núna við algerlega nýtt umhverfi. Hver sem er getur nú keypt orkufyrirtæki á Íslandi, innlendir aðilar sem erlendir, og eignast þá starfsemina og þær auðlindir sem þau fyrirtæki eru að nýta.

Eftir að frelsi hefur verið gefið á þessu sviði og samkeppni innleidd hafa menn engar varnir við því að þessar eignir, virkjanirnar og dreifikerfin, geti komist í hendur til að mynda alþjóðlegra fyrirtækja sem í sjálfu sér skila engri rentu inn í þjóðarbúið eða arðsemi. Til þessa hefur þessi iðnaður verið skattfrjáls vegna þess að hann hefur verið í opinberri eigu Íslendinga, almannaeigu Íslendinga. Nú hefur ríkisstjórnin afnumið þá skipan og í raun og veru gert þennan iðnað að verslunarvöru á hinum alþjóðlega fjármagnsmarkaði eins og hverja aðra vöru á þeim markaði. Því er auðvitað til lengri tíma litið óhjákvæmilegt annað en að gerðar séu kröfur til þess að orkufyrirtækin skili tekjuskatti í ríkissjóð og almannasjóði og jafnvel auðlindagjaldi þar að auki, þannig að við séum trygg með það, Íslendingar, til langrar framtíðar að njóta þó einhverra ávaxta af auðlindum okkar enda þótt virkjanirnar og auðlindirnar kunni að verða í eigu alþjóðlegra fyrirtækja þegar fram líða stundir eftir að ríkisstjórnin hefur með þessum hætti breytt skipun orkumála þannig að orkan er ekki lengur í almannaeigu alfarið heldur komin inn á hinn alþjóðlega peningamarkað.

Ég tel óhjákvæmilegt að horfa til þessara breytinga þegar við fjöllum um þetta málefni. Ég held þó að það orki miklu fremur tvímælis að láta þessa skattlagningu einnig ná til hitaveitnanna í landinu. Það vekur á sinn hátt athygli að ríkisstjórn undir forustu hæstv. utanríkisráðherra Davíðs Oddssonar fari fram með þá stefnu. Það hefur löngum verið sjónarmið okkar Reykvíkinga að það ætti ekki að refsa okkur úr ríkissjóði með gjöldum og álögum fyrir að hafa forsjálni. Íbúar í Reykjavík byggðu snemma á síðustu öld upp hagkvæma og góða hitaveitu. Það er augljóslega nokkur stefnubreyting, a.m.k. af hálfu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, að beita sér fyrir því á Alþingi að taka upp skattlagningu á hitaveituna í Reykjavík með þessum hætti í landssjóð því að það mun auðvitað leiða til hækkunar á verði heita vatnsins í Reykjavík. Það er þess vegna nýr skattur á Reykvíkinga sem ríkisstjórnin er að innleiða.

Það hlýtur að horfa sérstaklega við þegar um lögbundna einokunarstarfsemi er að ræða, eins og hitaveitustarfsemina, og horfa öðruvísi við en með samkeppnisiðnað á alþjóðlegum fjármálamarkaði eins og raforkuiðnaðurinn er núna orðinn. Ef við ætlum að skattleggja hitaveiturnar með þessum hætti, ætlum við þá að skattleggja almenningssamgöngurnar? Ætlum við að skattleggja slökkviliðin eða aðra almannaþjónustuna í landinu almennt og yfir höfuð? Það gegnir einfaldlega öðru máli um hitaveitu þar sem engin samkeppni er, þar sem fyrirtæki í almannaeigu keppast við að veita þessa þjónustu á sem lægstu verði. Það eru ríkar ástæður fyrir því að þessi starfsemi hefur lengi verið undanþegin. Þess vegna er eðlilegt að í umsögnum um það frumvarp sem hér liggur fyrir gæti meiri andstöðu við að skattleggja hitaveiturnar en raforkuiðnaðinn sjálfan. Ég held að sú andstaða sé eðlileg og tel út af fyrir sig ótímabært að skattleggja hitaveiturnar með þessum hætti. Til þess þyrfti að vinna málið allt miklu betur.

Ég held að skynsamlegast væri, virðulegur forseti, að láta þetta mál liggja yfir sumarið, vinna betur að undirbúningi þess og reyna að skapa um það betri samstöðu en nú er vegna þess að þetta mál er að mörgu leyti dæmigert um hversu illa er oft staðið að lagafrumvörpum frá hæstv. ríkisstjórn um mikilsverð mál.

Nú er það þannig að ef við ætlum að byggja varnargarð við einhverja höfn landsins, leggja flugbraut eða reisa virkjun, þá leggjumst við í miklar rannsóknir á vegum hins opinbera. Við setjum upp líkön til að líkja eftir veðri og vindum og ýmiss konar aðstæðum til þess að glöggva okkur á afleiðingum þess sem við erum að fara að gera, hvort sem það er að leggja flugbraut, reisa varnargarð eða ráðast í virkjun. Við ráðumst í miklar úttektir og setjum sérfræðinga, mánuðum saman og stundum árum saman, í rannsóknir og undirbúningsvinnu til að geta sem best áttað okkur á áhrifunum af því sem við ætlum að gera, hinum verklegu áhrifum, hinum fjárhagslegu áhrifum, áhrifum á umhverfið og þannig gætum við áfram talið.

Þegar hins vegar kemur að Alþingi að ákveða eitthvað sem varðar fjármál fólks, fjárhag heimilanna í landinu og afkomu, þá virðist vera hægt að henda inn frumvörpum og hafa nokkuð loðna umsögn um það hvað þau muni þýða fyrir fjárhag fólksins í landinu, fyrir fjárhag heimilanna og þær áætlanir sem heimilin hafa gert. Síðan er þessum málum bara ruslað í gegn.

Við höfum um þetta, virðulegur forseti, nýlegt dæmi sem oft hefur verið vitnað til í þessari umræðu. Það verður að segja eins og er, að það var auðvitað fyrir neðan allar hellur, þ.e. hvernig staðið var að frumvarpinu um raforkumálin sem er náskylt þessu máli og vekur upp hjá mönnum þá tortryggni að í þessu frumvarpi muni líka reynast mikill kostnaðarauki fyrir heimilin í landinu eins og raforkulögin reyndust vera. Þar var borðleggjandi að ráðist væri í aukinn kostnað við að framleiða, dreifa og selja raforku og sá kostnaður mundi lenda á heimilunum í landinu. En það var ekki við það komandi að reiknað væri út og rannsakað gaumgæfilega hvað það þýddi nákvæmlega fyrir heimilin í landinu. Þess vegna standa menn uppi nokkrum vikum eða mánuðum síðar, undrandi, hissa og hneykslaðir á dæmum sem berast til þingmanna af landsbyggðinni um margvísleg áhrif þessara ákvarðana. Það er ekki fullnægjandi, virðulegur forseti, að við sýnum heimilunum í landinu, fólkinu í landinu og fjárhag þess, ekki sömu virðingu og við sýnum t.d. umhverfinu eða verklegum framkvæmdum, að við skulum ekki rannsaka og kanna til hlítar hvaða áhrif breytingar sem þessar hafi á fjárhag heimilanna áður en við tökum þær til afgreiðslu.

Nú tel ég ljóst af þessu frumvarpi að þegar fram líða stundir muni það leiða til nokkurra þúsunda króna útgjaldaauka fyrir hvert heimili í landinu á ári. Ég held að það sé alveg einboðið að skattur þessi muni hlaupa á einhverjum hundruðum milljóna króna á ári hverju þó að það verði kannski lítið fyrstu árin, á meðan stærstu fyrirtækin eins og Landsvirkjun eða Orkuveitan eru í miklum afskriftum af nýlegum framkvæmdum eða framkvæmdum sem þau standa í akkúrat núna. En ég held að það sé ljóst að þessi skattur muni hlaupa á hundruðum milljóna króna. Það er hárrétt sem fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni við umræðuna fyrr í dag, að stóriðjufyrirtækin munu ekki borga það. Þessi fyrirtæki eru bundin í samningum við stóriðjuna áratugi fram í tímann og geta í engu breytt verði þeirrar orku. Það hefur að vísu óveruleg áhrif á arðsemi einstakra framkvæmda. Mig minnir að áhrifin á arðsemi Kárahnjúka séu einhvers staðar á bilinu 0,5–1% sem er ekki verulegt. En ef menn ætla að hafa sama arð af Landsvirkjun og áætlanir gerðu ráð fyrir áður þá verður það ekki Alcoa sem borgar það sem upp á vantar frá upphaflegu áætlunum heldur hlýtur að þurfa að senda þann reikning til almennings. Sama hlýtur að eiga við um Orkuveituna, Hitaveitu Suðurnesja og aðra þá aðila sem kunna að vera bundnir í langtímasamningum þótt þessir séu helstir.

Það er auðvitað talsvert mál ef orkureikningar heimilanna í landinu hækka um þúsundir króna á hverju ári. Það er verulegt mál og þó að kerfisbreytingin í sjálfu sér sé jákvæð er slæmt að hún sé sett fram svo einhliða, sem einhliða skattahækkun á almenning og á heimilin í landinu. Þó að kerfisbreytingin, að þessi fyrirtæki sitji við sama borð og önnur í að borga tekjuskatt, kunni að vera jákvæð þá yrðu auðvitað að koma á móti einhverjar ívilnandi aðgerðir fyrir almenning þannig að hann væri jafnsettur eftir. En þetta er auðvitað lýsandi fyrir skattapólitík þessarar ríkisstjórnar. Stjórnarmeirihlutinn hefur nýverið samþykkt alls kyns frumvörp um að falla frá eignarsköttum, falla frá hátekjusköttum, að lækka tekjuskattinn með þeim hætti að best komi fyrir þá sem eru hæst launaðir. En svo á að leggja nokkuð flatan orkuskatt á heimilin í landinu með hinni hendinni, þ.e. hátekjuskattinn á að fella niður en heimilin í landinu, hvort sem þau eru efnuð eða efnalítil, eiga að fara að borga nokkrum þúsundum krónum meira fyrir heitt vatn og rafmagn. Það sýnir auðvitað með öðru hvernig þessi ríkisstjórn vinnur. Hún vinnur að því að flytja byrðarnar í samneyslunni af tekjuhærri hópum og á hina tekjulægri. Það er engum blöðum um það að fletta, virðulegi forseti.

Þessi málatilbúnaður er líka að sumu leyti ákaflega skýrt dæmi um hve illa stjórnarmeirihlutinn stendur að framgangi mála, stundum sjálfsagðra framfaramála. Það má vel færa rök fyrir því að það sé nauðsynlegt, eins og ég hef farið yfir, til lengri tíma að leggja tekjuskatt á raforkuiðnaðinn í landinu og að slík auðlindagjöld séu heilbrigð fyrir þjóðarhaginn allan. En það verður ekki gert með þessu móti. Það verður ekki gert í andstöðu við sveitarfélögin. Það er ekki gert með einhliða skattahækkunum á almenning. Ríkisstjórn sem vill vinna í þágu þjóðarinnar hlýtur að ræða slík áform við sveitarfélögin í landinu, ræða þau í þjóðfélaginu og ná sátt og samstöðu um einhverjar aðgerðir sem meiri hluti þeirra sem að málinu koma getur verið nokkuð sáttur við. Verði um óhóflegar hækkanir á verði til almennings að ræða kæmu einhverjar ívilnanir á móti eða sveitarfélögunum yrði bættur skaðinn með öðrum þáttum í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Það er ekki boðlegt að halli meira á sveitarfélögin í hinum fjárhagslegu samskiptum við ríkið en er nú þegar. Menn þekkja hvernig það er. Tekjuskiptunum er þannig háttað að sveitarfélögin í landinu eru rekin með bullandi tapi og ríkissjóður með bullandi hagnaði. Á nú enn að auka á það bil með því að hirða skattfé í ríkissjóð af sveitarfélögunum gegn vilja þeirra? Það virðist ekki ráðlegt. Það sýnist miklu farsælla að reyna að tala fyrir framfaramálum með þessum hætti og stilla fram í sem mestri sátt við þá sem mest eiga undir, sveitarfélög í landinu sem ríkisvaldið skiptir miklu máli að séu öflug og gott samstarf við um að veita öfluga og góða grunnþjónustu. Ég held að það verði ekki gert nema með því að takmarka þetta við raforkuiðnaðinn og grípa til ráðstafana sem bæta annaðhvort sveitarfélögunum eða almenningi þær hækkanir sem óhjákvæmilega hljóta að öðrum kosti að leiða af þessu frumvarpi.