131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[22:57]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var fróðleg ræða og ágætlega farið yfir ýmislegt sem fylgir því þegar menn ætla að reyna að skattleggja orkugeirann. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er mun erfiðara og óeðlilegra, sé eingöngu litið á þetta mál út frá samkeppnissjónarmiðum, að ná skattlagningunni fram varðandi hitaorkuna, þ.e. þar sem hitaveitur eru til staðar heldur en í raforkukerfinu þar sem þó er stefnt að samkeppni þó að maður dragi það í efa. Maður efast um að hún verði í reynd þegar upp verður staðið og að almenningur njóti þeirrar samkeppni.

En ég vil líka horfa á málið út frá hinu sjónarmiðinu, að ef menn telja eðlilegt, eins og mér fannst koma fram í máli hv. þingmanns, að stefna til skattlagningar í raforkugeiranum þá segi ég: Við verðum að horfa til þess að þar sitji Íslendingar við sama borð, að mönnum sé ekki mismunað í skattlagningu. Það er þannig að stór hluti landsmanna neyðist til að kynda hús sín með raforku. Þar af leiðandi sýnist mér að ef ná ætti upp einhverri „sanngirni“ í skattlagningu á raforkufyrirtækin sem síðan færi út í verð til almennings þá yrðu allir landsmenn að sitja við sama borð. Það yrði að undanskilja algerlega orku til húshitunar, bæði hitaveitumegin og raforkumegin. Þetta vildi ég sagt hafa og spyrja hv. þingmann hvort ég hafi ekki skilið orð hans rétt að þessu leyti.