131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[23:01]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér hefur verið rætt allítarlega við 2. umr. frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja. Enn einn liðurinn í þeim aðgerðum ríkisstjórnarinnar er að markaðsvæða raforkubúskapinn, þessa almannaþjónustu landsmanna sem við höfum verið svo stolt af að byggja upp. Ekki einungis á þar að taka raforkubúskapinn, heldur einnig hitaveiturnar.

Við höfum á undanförnum missirum farið í gegnum hið lærdómsríka ferli markaðsvæðingar raforkukerfisins og höfum í vetur alloft rætt þær afleiðingar sem þjóðin og einstakir neytendur standa frammi fyrir þegar sopið er seyðið af þeim aðgerðum. Það er stórhækkað raforkuverð og óvissa um framtíðina hvað það varðar. Þegar hæstv. ráðherrar, hvort sem er iðnaðarráðherra eða aðrir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn, hafa verið spurðir hvort ætlunin hafi verið að þetta færi svo hefur svarið verið að þetta hafi alls ekki verið ætlunin og þeim hafi komið fyllilega á óvart að rafmagnið hafi hækkað um 20, 30, 40% og jafnvel meira eftir síðustu áramót þegar lögin komu til framkvæmda. Á þetta var þó allt rækilega bent, ekki síst af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í aðdraganda málsins. Við röktum mjög ítarlega afleiðingarnar sem yrðu af markaðsvæðingu raforkukerfisins. Og enn eru okkur að berast fregnir af gríðarlega háum raforkureikningum sem fólk er að fá þessa dagana, raforkureikningum sem sýna hækkanir upp á tugi prósentna frá síðasta ári.

Bóndi úr Skagafirði hringdi í mig í dag og sagði mér að rafmagnið hefði hækkað hjá sér um 90 þús. kr. á ársgrundvelli. Hann hafði leitað eftir skýringum og þær var engar að fá nema hliðstæðar skýringar og hæstv. iðnaðarráðherra gaf í þinginu fyrr í vetur, að veturinn hefði verið svo kaldur að rafmagnsreikningurinn væri svona hár, hann mundi lækka strax og hlýnaði í veðri. Mjög gáfulegt svar hjá hæstv. iðnaðarráðherra, ekki satt, virðulegi forseti? Þetta eru svör sem duga ekki neytendum til að sætta sig við þær aðgerðir sem hér eru á ferðinni.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur ítrekað sagt að þessi markaðsvæðing eigi ekki að þýða hækkað verð á raforkunni. Reyndin hefur verið önnur og það má segja að þeir reikningar sem fólk er nú að fá, margt hvert miklu hærri en áður hefur verið, séu í rauninni herkostnaður einkavæðingar þessarar ríkisstjórnar og þá sérstaklega ráðherra Famsóknarflokksins með hæstv. iðnaðarráðherra í einkavæðingarbroddinum.

Nú er að koma nýtt frumvarp um að auka enn á gjöld almennings. Það á að skattleggja orkufyrirtækin, leggja á þau tekjuskatt — og hverjir borga brúsann? Jú, það er aftur sami almenningur. Stóriðjan, stórnotendurnir eru með áratuga samninga um fastbundið orkuverð, a.m.k. orkuverð sem ekki breytist hvað þetta varðar, og þess vegna verða álögurnar einungis á hinn almenna notanda. Þetta er skattstefna ríkisstjórnarinnar í hnotskurn, að þykjast lækka skatta — sem er reyndar lækkun skatta á hátekjufólki, lækkun skatta á fyrirtækjum í almennum samkeppnisatvinnurekstri — og hækka skatta á lágtekjufólki, hækka álögur á almannaþjónustu eins og að auka skatta á orkufyrirtæki, þá orku sem almenningur notar. Þetta er sú skattstefna sem rekin er í reynd. Það er stöðugt verið að hygla þeim sem hafa meira, en hinum sem hafa minna er íþyngt með sköttum.

Í því ítarlega nefndaráliti sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur lagt inn, þingmaður Vinstri grænna í efnahags- og viðskiptanefnd, er rakin stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í orkumálum. Þar er lögð áhersla á að raforkan og hitaorkan eru meðal grunnþátta almannaþjónustunnar sem á í sjálfu sér að stuðla síðan að öflugu atvinnulífi sem á að vera stoð og stytta heimilanna. Þessi almannaþjónusta á að vera á sem hagkvæmustu verði. Hún er í sjálfu sér ekki tekjustofn ríkisins. Þar greinir okkur á, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þingmenn markaðshyggjuflokkanna, einkavæðingarflokkanna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem vilja einmitt gera almannaþjónustuna að tekjustofni fyrir ríkissjóð eins og hér er verið að gera. Áður hefur verið minnst á að verið er að leggja skatta á sjúklinga — sjúklingar eru tekjustofn, nemendur í framhaldsskólum og háskólum eru tekjustofn en þegar verið er að lækka skattana eru fundnir þeir sem hafa langhæstu tekjurnar, burðarásarnir svokölluðu. Á þeim eru gjöldin lækkuð og það endurspeglast í þessu frumvarpi og er algerlega í andstöðu við stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Hv. þm. Helgi Hjörvar gerði því skóna í ræðu að þetta væri eins konar auðlindagjald, þessi 18% skattur. Ég er ekki sammála því. Það er tvennt ólíkt. Ef menn eru að hugsa um auðlindagjald hlýtur það að vera á orkueiningu sem tekin er og þá hlýtur líka að vera gerður þar á munur hvers konar orku verið er að taka. Reyndar ætti það líka að gerast í þessari skattlagningu. Ef verið er að fara út í skattlagningu á annað borð ætti að mismuna eftir því hver uppruni orkunnar er. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kemur einmitt inn á það í nefndaráliti sínu. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Fyrsti minni hluti telur einnig rétt að vekja máls á því að engin tilraun er gerð til að viðurkenna þann mikla mun sem er á tilteknum tegundum virkjana í umhverfislegu tilliti heldur er lagður sami flati skatturinn á alla aðila. Eðlilegra hefði verið að hvetja með einhverjum hætti til umhverfisvænnar orkuvinnslu úr því að efnt er til þessarar skattlagningar á annað borð. Þannig er það mjög athugavert að skattleggja eigi t.d. smáar rennslisvirkjanir til jafns við risavaxnar vatnsaflsvirkjanir með stórum uppistöðulónum.“

Þetta tel ég vera mjög mikið atriði, herra forseti, ekki síst þegar fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að vegna þess að stærsti orkunotandinn, Landsvirkjun, er að ráðast í svo mikið af óhagkvæmum virkjunum mun hann ekki skila neinum hagnaði á næstu árum. Þess vegna mun Landsvirkjun engan skatt þurfa að borga, það orkufyrirtæki sem gengur hvað harðast fram í að ráðast í virkjanir sem eru hvað skaðlegastar í umhverfislegu tilliti. Landsvirkjun mun samkvæmt þessum lögum hafa rétt til að safna upp tapi sem verður orðið verðmæti í sjálfu sér þegar einhver annar kaupir. Þá verður tap Landsvirkjunar orðið kannski aðalverðmæti, a.m.k. eitt af meginverðmætum, kaupandans. Hugsið ykkur hversu vitlaust þetta er.

Hefur hæstv. forseti áttað sig á því hvers konar della er hér á ferðinni? Það er ekki þessi 18% tekjuskattur sem verið er að sækjast eftir. Nei, það er verið að búa til seljanleg verðmæti úr töpum virkjana eins og Landsvirkjunar. Þegar draumur hæstv. ríkisstjórnar gengur upp, ef Landsvirkjun verður seld einhverjum aðila sem á skattskyldan hagnað, getur kaupandinn nýtt þetta uppsafnaða tap Landsvirkjunar á móti hagnaði sínum og þannig komist hjá því að greiða eðlilega skatta til ríkisins. Sjáið þið skollaleikinn? Sér forseti skollaleikinn? Forseti er glöggur maður. Þarna magnast upp annars vegar fáránlegar framkvæmdir af hálfu Landsvirkjunar sem hefur verið bent á að væru svo óhagkvæmar að Landsvirkjun hefði ekki neitt lánstraust nema með tilkomu ríkisábyrgðarinnar. Hér er hins vegar verið að setja í lög að tapið verði eitt af þessum seljanlegu verðmætum vegna þessara fáránlegu skattalaga sem hér er verið að innleiða. Fáránleikinn í þessu er algjör.

Hins vegar eru veitur sem eru reknar af skynsemi og skila örlitlum hagnaði til eigenda sinna skattlagðar. Það má taka dæmi af Orkuveitu Húsavíkur sem var til umræðu fyrr í vetur. Samkvæmt upplýsingum í nefndaráliti 2. minni hluta skilar Orkuveita Húsavíkur árið 2003 20 millj. kr. í hagnað, Norðurorka 66 millj. kr. Þessi orkufyrirtæki eru allt í einu orðin skattskyld. Eru það þessi orkufyrirtæki sem verið er að elta?

Ég hafði samband við Skagafjarðarveitur sem eru með hitaveitur í Skagafirði og hefðu betur líka rekið Rafveitu Sauðárkróks sem var illu heilli seld burt. Bara það fyrirtæki mun þurfa að fara að borga kannski 1–2 millj. kr. í skatta til ríkisins af starfsemi sinni. Er það þetta sem verið er að sækjast eftir, herra forseti, þessar veitur? Mér er spurn. Er ekki nóg komið með að seilast til þeirra veitna sem sveitarfélög eiga, þeirra fáu veitna sem sveitarfélög eiga í landinu? Það eru veitur sem skapa rekstur, atvinnu og umsvif í sveitarfélagi sínu. Eru þær veiturnar sem er nauðsynlegt núna að elta uppi? Ég hefði viljað fá svör við því hjá formanni iðnaðarnefndar sem hlýtur að hafa gaumgæft það hvar þessi skattlagning kemur niður. Ekki kemur hún niður á Landsvirkjun, ekki niður á stóriðjunni því að þar eru langir samningar langt fram í tímann. Ekki lendir hún á þeim. Þessi gjörningur er allur hinn torkennilegasti og hugarfarið á bak við hann alveg með ólíkindum.

Það hefði verið fróðlegt ef hæstv. iðnaðarráðherra hefði upplýst okkur í þessari umræðu um það sem brennur á mörgum í dag, þ.e. hvenær komi auknar endurgreiðslur vegna húshitunar á þeim svæðum þar sem ekki eru hitaveitur. Hvenær verður þessu fólki svarað um það hvort gerðar verði leiðréttingar á orkureikningunum hjá því? Þetta brennur á fólki úti um sveitir landsins og úti um byggðir landsins. Fólk er ekki að óska eftir aukinni skattheimtu til að þurfa að borga meira.

Herra forseti. Ég hefði viljað fá betur útlistað — væntanlega kemur hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hingað í lokin til að gera grein fyrir þessu — ég vil fá betur útlistað hvernig orkufyrirtæki eins og Landsvirkjun, eins og Rarik og jafnvel Orkubú Vestfjarða koma út úr þessum lögum. Það er upplýst í textanum að Landsvirkjun muni ekki skila hagnaði á næstu árum. Það væri fróðlegt að vita hvert verði hið uppsafnaða tap sem kaupandi er að kaupa eftir tvö, þrjú, fjögur ár. Gæti formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar svarað því hvernig þessi lög koma út fyrir Landsvirkjun næstu árin? Mér finnst alveg ótækt að við séum að setja lög sem fyrst og fremst snúa að því að gera þessum fyrirtækjum kleift að safna upp tapinu og gera það að verslunarvöru. (Gripið fram í: Það er hægt að kaupa tap.) Ég veit það, kaupa tap. Þá höfum við þetta. Landsvirkjun ræðst í eina óhagkvæmustu virkjun sem til er í norðurálfu, Kárahnjúkavirkjun sem er að setja hana á hausinn. Hún hefði ekki fengið til þess fjármagn nema ríkið gengi í ábyrgð. Þess var krafist hér að þetta væri sjálfstætt fyrirtæki þannig að það yrði að standa undir sér á eigin forsendum fjárhagslega. Því var hafnað og það látið hvíla á Landsvirkjun. Nú á svo að búa til lög sem gera það kleift að safna upp þessu tapi af þessari óhagkvæmu virkjun og þessari óhagkvæmu starfsemi Landsvirkjunar til að gera það svo seljanlegt til aðila sem hugsanlega, ef vilji ríkisstjórnar gengur eftir, kaupir Landsvirkjun að einhverjum árum liðnum og á þá skattskyldan hagnað sem hann getur varið í að jafna upp á móti tapinu. Er þetta eitt af því sem vakir fyrir mönnum með þessu frumvarpi, herra forseti?

Það er rétt að ítreka það að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er andvíg þessari stefnu sem hér er verið að leggja upp með varðandi það að leggja skatta á almenningsfyrirtæki eins og orkufyrirtækin eru. Þetta eru fyrirtæki sem fást við almannaþjónustu sem hefur lengi verið talin sjálfsagður hluti af mannsæmandi lífi á Íslandi og aðstaða þeirra veitir þeim svokallaða náttúrulega einokun á sínu sviði. Svo stendur í nefndaráliti 1. minni hluta, hv. þm. Ögmundar Jónassonar, og, með leyfi forseta, vil ég lesa áfram:

„Á þessum hugmyndafræðilegu forsendum hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð ávallt lagt ríka áherslu á að slík veitustarfsemi sé í sameign fólksins sem nýtir þjónustuna og að hún sé rekin þannig að almenningur geti bæði búið við mikið öryggi og lágmarksgjaldtöku.

Breytingar ríkisstjórnarinnar á skipan raforkumála á síðustu árum hafa gengið gegn þessu markmiði. Er í því sambandi skemmst að minnast stórfelldra gjaldskrárhækkana um land allt um síðustu áramót eftir að orkufyrirtækjum var gert að reikna sér arð af starfseminni og láta hvern einstakan þátt starfseminnar standa undir sjálfum sér upp á krónur og aura.“

Herra forseti. Ég held að ég ljúki ræðu minni með því að vitna til síðustu orða í ágætu nefndaráliti hv. þm. Ögmundar Jónassonar, fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í efnahags- og viðskiptanefnd. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrsti minni hluti telur frumvarpið sýna enn og aftur hversu misráðið það var af ríkisstjórninni að leggja í þá vegferð að markaðsvæða jafnmikilvæga almannaþjónustu og veitustarfsemi landsmanna. Nær væri að hefja vinnu við að vinda ofan af þeim vandamálum sem sú markaðsvæðing hefur nú þegar haft í för með sér heldur en að auka enn frekar á þá mismunun og ringulreið sem af henni hefur hlotist. Því er lagt til að frumvarpið verði fellt.“