131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[23:55]

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir að hafa brugðist við og skrifað Náttúrufræðistofnun bréf þar sem knúið er á um að ákveðin lindarsvæði verði friðuð þannig að ekki verði haldið áfram andaveiði á slíkum svæðum. Það liggur fyrir þar sem menn hafa verið staðnir að verki.

Ég minntist á það í ræðu minni á dögunum að mynd hefði birst af státnum veiðimanni á netinu þar sem hann var með nokkra straumandarsteggi í fanginu. Það hafa líka verið sendir inn til Náttúrufræðistofnunar vængir af friðuðum öndum sem skotveiðimenn áttuðu sig ekki á að væru friðaðar. Það liggur því alveg ljóst fyrir að verið er að skjóta friðaðar endur meira og minna allan veturinn. Þetta vita menn gjörla.

Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði að þegar verið er að skjóta endur í rökkri þá auðvitað vita menn ekki hvað þeir eru að skjóta og má mjög velta því fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til að setja ákveðnar reglur um að bannað sé að skjóta fugla eftir að fer að rökkva. Þeir geti flogið í friði að sínu náttbóli án þess að að þeim sé ráðist þar og finnst mér rétt að það sé athugað af Náttúrufræðistofnun og við öll höfum það til athugunar framvegis.

Ég vakti athygli á því við 1. og 2. umr. málsins að farið er að ganga að andaveiðum og fuglaveiðum með miklu skipulegri hætti en áður hefur verið. Sérstakir veiðihundar eru þjálfaðir til að leita uppi endur, gæsir og rjúpur. Ef maður flettir upp á netinu er hægt að sjá þar státinn veiðimann sem er að auglýsa það að hann skuli vera leiðsögumaður fyrir erlenda veiðimenn. Á einni myndinni stendur hann fyrir framan milli 20–30 grænhöfða sem hann hefur skotið og á næstu mynd eru það rauðhöfðar sem urðu fyrir valinu þannig að hann bindur sig ekki bara við stokköndina eða grænhöfðann heldur taldi ég þar um 20 rauðhöfða dauða fyrir framan hann. Það er því alveg ljóst að farið er að ganga að andaveiðum með miklu skipulegri og ákveðnari hætti en áður hefur verið. En eins og hæstv. ráðherra sagði hefur ráðherra falið Náttúrufræðistofnun að athuga nú um þessi mál, þau gögn sem fyrir liggja og hvort ekki sé rétt að friða þau lindarsvæði sem viðkvæmust eru en einmitt eftir áramótin þegar ár, vötn og læki fer að leggja er þýðingarmikið að við bregðumst við og komum náttúrunni til hjálpar og bjargar.

Ég vil líka taka fram að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með að nefndin skuli ekki taka undir þá tillögu mína að heimilt sé að skjóta skúm í æðarvarpi. Við vitum að skúmurinn er að færa út lönd sín og er miklu víðar en áður var. Hann er orðinn mjög áberandi t.d. í Héraðsflóa sem var aðallega kjóabyggð áður, þetta eru skyldir fuglar. Við vitum að skúmurinn er kominn norður. Hann er jafnvel á Sigríðarstaðarsandi í Húnavatnssýslum og við vitum að hann er að fara vestur á bóginn og ég fékk fréttir af því um daginn að hann væri kominn í Rangárvallasýslu, væri á söndunum þar. Við vitum að ef við ferðumst um landið á varptímanum þá sjáum við skúminn uppi um heiðar. Hann er að sækja heiðagæsarunga á fjöll og hann sveimar yfir Grímseyingum til að ná sér þar í lunda eða annan bjargfugl. Þó að skúmurinn eigi sér ekki óðul víða í Evrópu og sé mest af honum hér á landi er það síður en svo að hann sé í einhverri hættu. Miklu fremur má segja að þeir fuglar séu í hættu sem nálægt honum eru og sögusagnir um það í Álftaveri, Meðallandi og Landbroti að svo kunni að vera að eitt mannslát þar megi rekja beint til skúmsins þannig að hann er ekki einungis hættulegur smáfuglum.

Út af því sem hæstv. ráðherra sagði og út af þeim góðu undirtektum sem ég fékk í máli hennar hef ég ákveðið að draga breytingartillögur mínar til baka líka með hliðsjón af því að ég beindi þeim orðum mínum í ræðu minni þegar ég mælti fyrir tillögunum til ráðherra að kannski væri skynsamlegra að nýta þær heimildir sem væru í lögum um friðun, veiðar og vernd á villtum fuglum. En um leið og ég lýsi þessu yfir bíð ég þess að sjá hver niðurstaða Náttúrufræðistofnunar verður og ljóst að ef ég verð fyrir vonbrigðum hef ég áfram rétt til að bera fram tillögur um breytingar á lögum á Alþingi og mun þá gera það. En eins og málið liggur fyrir nú tel ég rétt að doka við og dreg til baka þær breytingartillögur sem ég hef lagt fram, herra forseti.