131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:01]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðu hans. Hún var yfirgripsmikil og að mörgu leyti fróðleg þó að ég sem stjórnarandstæðingur hafi verið ósáttur við margt sem í henni kom fram. Í henni var þó að því er virtist að finna fyrirboða mikilvægrar stefnubreytingar sem varðar öryggisráðið eins og ég mun ræða á eftir. Ég hjó hins vegar eftir því að hæstv. ráðherra hóf mál sitt á því að hrósa ríkisstjórn sinni sérstaklega fyrir einkavæðingu og fyrir alveg sérlega vel heppnaða framkvæmd kvótastefnunnar í sjávarútvegi.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það voru margir sem auðguðust vegna einkavæðingarinnar og vegna kvótakerfisins en það voru ekki allir, og það er líka önnur hlið á þessu máli. Það er sú græðgisvæðing viðskiptalífsins sem hefur fylgt í kjölfar einkavæðingarinnar. Ég sýti það ekki sem frjálslyndur jafnaðarmaður að við erum á leið úr umhverfi þar sem ákveðin forsjá hins opinbera einkenndi atvinnu- og viðskiptalíf yfir í aukið frelsi. Það er hluti af alþjóðavæðingunni en markaðsöflin sem leika eins og logi um samfélagið hafa líka dekkri hliðar fyrir marga, eins og við vitum. Það er ýtt undir óhóflega neyslu og menn safna skuldum hennar vegna, og það eru ekki allir sem koma heilir úr þeim leik, hæstv. forsætisráðherra. Þetta er hluti af alþjóðavæðingunni en í tilefni af þessum orðum sem hæstv. ráðherra hóf mál sitt á er rétt að það komi fram að við jafnaðarmenn teljum að besta svarið við þessari græðgisvæðingu sem hefur siglt í kjölfar einkavæðingarinnar sé einmitt að tefla fram þessum gömlu alþjóðlegu grundvallarreglum sem jafnaðarstefnan byggir á. Þess vegna leggjum við áherslu á að önnur sýn taki við af sýn þessarar ríkisstjórnar með sterkari áherslu á velferðarkerfið, útrýmingu fátæktar og aukinn jöfnuð.

Herra forseti. Einn merkilegasti kaflinn í ræðu hæstv. utanríkisráðherra fjallar um framboð Íslands til öryggisráðsins. Þetta framboð er það sem bar hæst af hálfu forvera hans og það má segja að það hafi um missira skeið verið eitt stærsta verkefni utanríkisþjónustunnar. Málið á sér ákaflega langan aðdraganda af hálfu sitjandi ríkisstjórnar. Fyrrverandi utanríkisráðherra ræddi það fyrst í þessum sölum 1998, og haustið 2003 fjallaði ræða hans um utanríkismál að mestu leyti um framboðið. Það er athyglisvert þegar maður skoðar þessar umræður að af hálfu utanríkisráðuneytisins var hvorki rætt um kostnað við málið né möguleika okkar til að ná kjöri og þar með hvort það væri messunnar virði að ráðast í mjög dýrt framboð. Síðan hafa vaknað áleitnar spurningar um kostnaðinn sem aldrei hefur almennilega verið svarað í þessum sölum.

Ég rifja það upp að það var varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem í janúar sl. kastaði því fram á opinberum vettvangi að framboðið væri ekki þess virði að ráðast í það vegna þess að óvíst væri um árangur og vegna þess að það væri gríðarlega kostnaðarsamt. Hv. þingmaður, einn af virtustu þingmönnum stjórnarliðsins, sagði að það gæti kostað 800–1.000 milljónir og það er athyglisvert að þremur dögum síðar svaraði hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson fyrirspurn í þinginu frá formanni VG og sagði í tilefni af þeim upplýsingum sem höfðu komið fram í fjölmiðlum dagana á undan, með leyfi forseta:

„Ég er því þeirrar skoðunar að sá kostnaður sem hefur verið talað um í fjölmiðlum síðustu daga sé fjarri lagi.“

Þarna er svo fast að orði kveðið að hæstv. forsætisráðherra talar eins og hann hafi glögga sýn á kostnaðarhliðina og viti nákvæmlega um hvað hann er að tala. En viti menn, herra forseti, um þremur vikum síðar segir hæstv. utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, að kosningabaráttan ein kunni að kosta 500 millj. kr. og síðan muni kostnaðurinn við sjálfa setuna hugsanlega vera allt að 200 millj. kr. Þá er farið að slaga hátt í þær 800 millj. kr. sem þingmenn voru að tala um og sem hæstv. forsætisráðherra vísaði á bug. Og ræða hæstv. utanríkisráðherra áðan rímaði algjörlega við þetta. Þar talar hann um kostnað upp á 600 millj. kr. og segir síðan að sá kostnaður sé líklegur til að aukast verulega þegar aukin harka færist í baráttuna. Ég spyr hæstv. ráðherra: Var það þá ekki rétt sem þingmaður hans, Einar Oddur Kristjánsson, sagði fyrr í vetur, að baráttan kynni að kosta 800–1.000 millj. kr.? Var þá ekki rangt það sem hæstv. forsætisráðherra sagði?

Ég spyr líka hæstv. utanríkisráðherra hvort það sé rétt tilfinning sem ég hef að engar kostnaðaráætlanir hafi verið gerðar þegar ráðist var í framboðið og þær áætlanir hafi ekki legið fyrir fyrr en eftir að núverandi hæstv. ráðherra tók við. Hæstv. ráðherra hefur bersýnilega miklar efasemdir um það hvort rétt sé að ráðast í þetta framboð vegna dýrleikans sem því fylgir og óvissunnar um árangurinn. Ég vísa til þess að það er ekki langt síðan aðstoðarmaður hans, Illugi Gunnarsson, sagði í fjölmiðlum að það væri algjörlega vonlaust að spá fyrir um niðurstöðuna. Ég deili þessum efasemdum með hæstv. ráðherra í ljósi hinna nýju upplýsinga um kostnaðinn.

Ég hef miklar efasemdir um að það sé 1.000 millj. kr. virði að ráðast í kosningabaráttu þegar ekki er samstaða í Vesturlandahópnum um framboð, og ég vísa til reynslu Svía fyrir nokkrum árum. Mig langar þess vegna í tilefni af orðum hæstv. ráðherra að spyrja hvort það sé til alvarlegrar íhugunar af hans hálfu að hætta við framboðið sökum þessarar óvissu og sökum þess hvað það kostar mikið.

Ég og hæstv. ráðherra og við flest sem erum í þessum sölum erum sammála um gildi fríverslunar sem hæstv. ráðherra reifaði töluvert. Alþjóðleg sýn okkar jafnaðarmanna felur í sér að viðskiptafrelsið sé besta leiðin til að hjálpa fátækum þjóðum að brjótast til bjargálna. Við Íslendingar vorum sjálf fátæk þjóð en það var öflug barátta okkar fyrir fríverslun með fisk sem átti ekki sístan þátt í því að við urðum auðug. Alþjóðahreyfing jafnaðarmanna berst með sama hætti fyrir því að fátækari þjóðir heims, þróunarríkin, fái í auknum mæli aðgang að mörkuðum hinna ríkari. Ég held, herra forseti, að það sé ein besta þróunarhjálpin sem hægt sé að veita og sú varanlegasta.

Ég vil líka segja það í tengslum við þessa umræðu að aðildin að EFTA og síðan EES var líklega besta kjarabótin sem þessi þjóð náði fram eftir að hún hlaut sjálfstæði. Hér á landi höfum við séð það aftur og aftur, bara allra síðustu missirin, hvernig það viðskiptafrelsi sem við náðum þá fram þrátt fyrir harða andstöðu margra leiddi til þess að þegar sjávarútvegurinn allt í einu lenti í harðri samkeppni, nýrri og óvæntri samkeppni úr austri, gat svo að segja í vetfangi — ég kalla það vetfang þegar ég tel missiri — skipt úr frystingu á sjó og landi yfir í framleiðslu á ferskum útflutningi. Hann hefði ekki getað brugðist svona við nema út af því frelsi sem samið var um í ríkisstjórn sem jafnaðarmenn áttu sæti í á sínum tíma, nota bene með hæstv. núverandi utanríkisráðherra.

Því er ekki að leyna að okkur sem höfum starfað innan vébanda þingmannanefndar EFTA hefur oft fundist vera lítill kraftur og lítið sjálfstæði í EFTA sem stofnun við að ryðja nýjum samningum braut. Þegar maður skoðar hvernig EFTA hagar sér kemur í ljós að mynstur þess er sama mynstur og ESB. En hvað eru Íslendingar að gera núna? Þeir eru í mikilvægri útrás. Hvað er það sem er bakhjarl útrásarinnar? Það er smæðin. Smæðin er allt í einu orðin kostur okkar af því að hún færir okkur sveigjanleika og hreyfanleika. EFTA á líka í krafti sömu smæðar að beita þessum sveigjanleika og hreyfanleika í að sýna sjálfstæði og gera samninga við ný lönd, nýjar þjóðir sem ESB hefur ekki endilega beint sjónum sínum að. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði hérna áðan. Viðskiptalegt afl EFTA er það mikið að við erum eftirsóknarverð og það vantar á frumkvæði EFTA í þessum málum.

Þá kem ég að spurningunni um Kanada sem brennur mér á vörum. Ég tók þátt í því sem þingmaður hér að eiga viðræður við kanadískan þingmann 1998 um fríverslun við Kanada. Þeir komu til okkar, vildu fríverslun, vildu ekki gera fyrst samning við ESB. Kjörið tækifæri fyrir EFTA til að ná þarna ákveðnu forskoti. Það eru átta ár síðan. Hvað hefur gerst? Ekkert.

Ég hef spurt um þetta áður hér og það hefur glitt í það í svörum ráðherra að fyrirstaða sé í Noregi. En nú erum við búin að bíða í átta ár og þess vegna spyr ég hæstv. utanríkisráðherra: Ef það er fyrirstaða í Noregi til að gera þennan mikilvæga samning, er þá ekki kominn tími til að við íhugum að gera tvíhliða samning Íslands og Kanada? Mér þætti vænt um að hæstv. ráðherra mundi svara þessu fyrir mig.

Það var einna merkilegast í ræðu hæstv. ráðherra hvað hann dvaldi lítið við varnarmálin. Við vitum öll að miklar viðsjár hafa verið í öryggis- og varnarmálum. Bandaríkjamenn hafa verulega breytt viðbúnaði sínum hérlendis að undanförnu og það virðist einboðið að þeir ætli sér frekari samdrátt, ef ekki brottför. Núverandi ríkisstjórn hefur því miður ekki sinnt því verki að skilgreina varnarþarfir Íslands í næstu framtíð þó að það sé alveg ljóst að hættur og ógnir í þeim efnum séu allt aðrar en áður. Þetta verk þarf að vinna. Það höfum við í Samfylkingunni margsinnis lagt áherslu á. Menn semja ekki um neitt nema vita fyrst hvað þeir ætla að semja um. Við í Samfylkingunni teljum að það felist í samningnum frá 1951 að Bandaríkin eigi ekki að geta gert breytingar á vörnum lofthelginnar án samráðs við Íslendinga. Það er hins vegar ekki gefið að slíkar loftvarnir felist til frambúðar í tilteknum fjölda flugvéla af ákveðinni gerð á Keflavíkurflugvelli. Í þessu efni þarf að skilgreina framtíðarþarfir. Það hefur ekki verið gert.

Hæstv. ráðherra sagði í áramótagrein sinni að öryggi og óvissa færu ekki saman, og það er hárrétt. Þessi óvissa er ekki síst erfið fyrir byggðarlögin syðra sem eiga erfitt með að grípa til viðbragða vegna þeirra áhrifa sem óvissan og samdrátturinn hafa á þau. Og það verður varla sagt að óvissan hafi minnkað við þær 20 sekúndur sem hæstv. ráðherra dvaldi við þetta efni í ræðu sinni. Það hefur ekkert gerst. Það er ekkert að gerast. Hæstv. ráðherra fór í heimsókn til Bush forseta í fyrra og hafði gaman af og hann boðaði í framhaldi af því viðræður. Þær töfðust, fyrst vegna forsetakosninga, svo vegna innsetningar, svo vegna nýs ráðherra og nú var hér í vikunni varaaðstoðarutanríkisráðherra sem sagði að vonandi hæfust viðræður á næstunni. Herra forseti. Gaman væri ef hæstv. utanríkisráðherra eyddi öðrum 20 sekúndum á eftir til að skýra örlítið fyrir okkur hver hin raunverulega staða í þessu máli er.

Að lokum, herra forseti, er mál sem mig langar að biðja hæstv. utanríkisráðherra fyrir. Við lásum um það í fréttum í síðustu viku að 300 þús. börn eru stríðsmenn í ýmiss konar skuggastyrjöldum þessa heims, í Úganda, Srí Lanka, Kólumbíu og víðar. Það kom fram að af þessum 300 þús. barnahermönnum eru 40% ungar stúlkur. Það kemur í ljós að þær fara langverst út úr þessu. Þær eru ekki bara drepnar og limlestar, heldur sæta þær kynlífsþrælkun, þeim er nauðgað. Einmitt vegna þess stigmaþema og bannfæringar sem í sumum samfélögum hvílir yfir þeim sem lenda í slíku eru þær bannfærðar í sínu litla samfélagi. Þær eiga sér ákaflega litla von. Vesturlönd hafa ráðist í ákveðið hjálparstarf og komið upp heimilum og áfangastofnunum til að hjálpa barnastríðsmönnum. Og það kemur í ljós að einungis 4% af þeim ungu hermönnum, sumum niður í átta ára sem fara í gegnum þessar stofnanir sem við höfum styrkt, eru stúlkur. Það sýnir hve slæmt hlutskipti þeirra er. Mig langar að biðja hæstv. utanríkisráðherra fyrir það að taka þetta mál upp á vettvangi Norðurlandaþjóðanna, sem hafa oft haft lofsvert frumkvæði að hjálparstarfi, og gera gangskör að því að þau sameiginlega leggi fram tillögu á alþjóðavettvangi um að ráðist verði í sérstakt átak til að hjálpa stúlkubörnum og unglingsstúlkum sem hafa lent í þeirri óhæfu að vera neyddar til hernaðar með öllu sem því fylgir.