131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:31]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem kom í það minnsta mér mjög á óvart. Ég held að ég hafi aldrei heyrt hv. þingmann standa hér og ræða utanríkismál án þess að eyða öllum sínum tíma í Írak. Það var eitthvað minna um það í þetta skiptið. En mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í það mál.

Nú liggur fyrir að nokkrar milljónir manna tóku þátt í kosningunum í Írak. Kannski finnst einhverjum það sjálfgefið en í þessu tilfelli hættu nokkrar milljónir manna lífi sínu til þess að fá að njóta þeirra sjálfsögðu mannréttinda. Virðulegi forseti. Þetta fólk hætti lífi sínu. Ég held að það sé ekki hægt að halda öðru fram en að það sé afskaplega skýr vitnisburður um að fólkið sé frelsinu fegið. Ég vil þess vegna spyrja hv. þingmann, virðulegi forseti, hvort þessar kosningar og það að milljónir manna hafi hætt lífi sínu til að nýta sér sjálfsögð mannréttindi, hafi einhver áhrif á afstöðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar til málsins. Mér þætti fróðlegt að heyra það og bíð spenntur eftir svarinu.