131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:50]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri þá kröfu að formaður utanríkismálanefndar Alþingis finni þessum orðum sínum stað. Hún segist, hv. þingmaður, hafa flett upp eða það sé hægt að fletta upp í þingtíðindum ummælum sem sýni að við berum ekki hag þessa fólks fyrir brjósti. (Gripið fram í.) Starfsemi, það er allt annar handleggur. Við höfum gagnrýnt það að Íslendingar skuli taka þátt í þessu hreingerningarstarfi í Afganistan. Við höfum gagnrýnt það mjög ákveðið, og við höfum viljað beina þróunarstarfi okkar og framlagi til friðarmála inn í allt annan farveg. Ég hef haldið um þetta margar ræður á þingi, skrifað blaðagreinar og tjáð mig um þetta opinberlega. Ég hef hins vegar aldrei látið að því liggja að ég vilji þessum mönnum eitthvað illt, (Forseti hringir.) þessum einstaklingum, og ég krefst þess að hv. þingmaður (Forseti hringir.) finni þessum alvarlegu ásökunum og (Forseti hringir.) orðum sínum stað. Ég krefst þess.