131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:07]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja þó að hæstv. utanríkisráðherra telji að ég hafi orðið mér til skammar þegar ég sagði, og ég hygg að það séu þau orð sem hann er að vitna til, að sá aðbúnaður og sú meðferð sem Ísraelsmenn beita Palestínumenn minnti um margt á aðferðir nasista gagnvart gyðingum á árum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Það er nefnilega þannig — og ég held að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki deilt þeirri reynslu með mér — að ég hef séð þennan múr. Ég hef séð hvernig Palestínumenn búa hvern einasta dag við kúgun af hálfu Ísraelsmanna. Ég hef séð hvernig heil þjóð þarf að búa við það að hermenn sem hafa hernumið hennar eigið land stunda það að stöðva ferðir allra borgara, hvernig heilu borgirnar eru múraðar inni með þessum hrikalega múr, hvernig mannréttindi eru brotin hvern einasta dag. Ísraelsmenn geta tekið Palestínumenn til fanga, sett þá í fangelsi í sex mánuði, æ ofan í æ án dóms og laga. Fólk hefur dáið meðan það beið eftir því að komast í gegnum varðstöðvar Ísraelsmanna. Það komst ekki undir læknishendur. Fólk líður mikla neyð. Börn Palestínumanna eru á vergangi í borgum þeirra. Hefur hæstv. utanríkisráðherra farið þangað og séð þetta með eigin augum? Veit hann virkilega hvað hann er að tala um? Ég efast um það.

Mér gekk ekkert illt til með því að leggja til að þingmenn Sjálfstæðisflokksins færu suður eftir til að skoða þetta. Ég veit að í þeim flokki er margt ágætisfólk og ég er alveg sannfærður um að ef það sæi það sem við sáum yrði því hreinlega ofboðið. Það var þetta sem ég átti við.

Ef ég fæ ekki að segja mínar skoðanir með þeim hætti sem ég gerði, nota sterk lýsingarorð til að lýsa mjög sterkum áhrifum sem ég verð fyrir, verður bara svo að vera.