131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:10]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Gott og vel, virðulegi forseti. Mér gæti hreinlega ekki verið meira sama. Ég stend við hvert einasta orð. Meðferð Ísraelsmanna á Palestínumönnum er ekkert annað en svívirðileg kúgun. Það er algerlega ólíðandi að þjóð sem hernemur aðra þjóð skuli komast upp með það áratugum saman að fara með hana með þeim hætti sem Ísraelsmenn eru að gera í dag. Það er ekkert annað en svívirðileg kúgun. Það er ekki hægt að verja það. Þetta minnir á þær aðferðir sem við urðum vitni að á sínum tíma, fyrir 60 árum í Evrópu. Það gerir það hreinlega.

Ég hef mikið af efni sem sannar þetta, ótal myndir. Ég hef sýnt þessar myndir. Ég veit ekki hvort hæstv. utanríkisráðherra hefur séð þær. Ég efast hreinlega um að hann hafi kynnt sér málið. Ég efast stórlega um það. Þá vil ég líka nota tækifærið hér til að hvetja hann til að gera það, hvetja hann þá til að ferðast þarna suður eftir til að sjá það sem er að gerast á þessum slóðum. Það er hreinlega óverjandi. Hernámslið nota ávallt sömu aðferðir til að kúga þær þjóðir sem þau komast yfir. Þetta höfum við séð í mannkynssögunni allt frá tímum Rómverja. Þetta er að gerast þarna núna. Í svona málum sem eru gleymd, og virðast vera gleymd, þarf maður oft að hrópa hátt til að ná eyrum fólks. Ég hygg að það hafi tekist núna og ég er ákaflega stoltur af því.

Það þarf að segja heimsbyggðinni frá þessu. Það þarf að segja fólki frá þessu. Það er íslenskum stjórnvöldum hreinlega til skammar ef þau ætla ekki að gera neitt, ef þau ætla að láta það líðast að Ísraelsmenn komist upp með það sem þeir eru að gera núna gegn palestínsku þjóðinni. Það er til hreinnar skammar.