131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:47]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér þau atriði sem hæstv. utanríkisráðherra fór yfir í ræðu sinni. Af mörgu er að taka í þeim efnum. Einnig mætti koma inn á talsvert af þeim atriðum sem hæstv. ráðherra nefndi ekki.

Ég ætla að byrja á að víkja að því sem hann sagði um fríverslun. Það er ljóst af máli hans að hann metur fríverslun og gildi hennar mikils. Það má taka undir það að ákveðnu marki. Í mínum huga eru hliðarnar á fríverslunarsamningum gjarnan tvær. Það er jú vitað að félagsleg réttindi verkafólks eiga til að verða undir þegar hin frjálsu viðskipti flæða yfir álfurnar. Það er þekkt hvernig stórfyrirtæki og fjölþjóðlegir auðhringar nýta sér aðstæður í fátækari ríkjum til að hámarka gróða sinn en það er eðli máls samkvæmt oft á kostnað þeirra fátæku ríkja sem hafa talið sig auka hagsæld sína með því að opna dyr sínar fyrir auðhringunum. En þeir eiga það til að plata ríkisstjórnir til að gera hluti eins og að einkavæða almannaþjónustu á borð við rafveitur og vatnsveitur.

Frú forseti. Það er skoðun mín að íslensk stjórnvöld þurfi að opna augu sín fyrir þessari neikvæðu hlið á fríversluninni. Þau þurfa að eyða meiri orku í að skoða og gagnrýna slíkt framferði, fremur en að dásama fríverslun gagnrýnislaust og einhliða. Í mínum huga ber okkur skylda til að láta okkur einhverju skipta félagsleg réttindi verkafólks í þeim löndum sem við stundum viðskipti við. Ég efast um að í þeim fríverslunar- og viðskiptasamningum sem hæstv. utanríkisráðherra gerði að umtalsefni í ræðu sinni sé slíkra réttinda getið að nokkru marki. Eða hvað sjá íslensk stjórnvöld fyrir sér í þessum efnum? Er t.d. ætlunin að halda slíku til haga af hálfu EFTA-landanna gagnvart, eigum við að segja, Tælandi eða Kína, sem hæstv. ráðherra nefndi í ræðu sinni? Það væri gaman að fá að vita hjá hæstv. ráðherra hvort slíkt sé á döfinni, að það eigi að gera einhverjar athugasemdir varðandi réttindi verkafólks, t.d. í Kína sem hæstv. ráðherra bindur miklar vonir við að við getum átt öflug viðskipti við í framtíðinni.

Þá er þess líka að gæta, frú forseti, að Doha-samningarnir, á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, hafa verið harðlega gagnrýndir á alþjóðlegum vettvangi. Gagnrýnendur þeirra hafa verið sammála um að þeir samningar muni yfirleitt gagnast þeim best sem eru best settir fyrir. Hæstv. ráðherra talaði um að þeir komi smærri ríkjum afar vel. Það kann vel að vera að það eigi við um smærri ríki í löndum Evrópu en ég veit að það á ekki við um öll ríki veraldarinnar. Það á alls ekki við um mörg ríki Afríku eða Asíu. Fulltrúar frá þeim löndum, kannski ekki endilega ríkisstjórnunum en jafnvel frá frjálsum félagasamtökum, hafa lýst verulegum efasemdum um að samningarnir sem eru nú í burðarliðnum í samningalotunni sem hófst í Doha komi til með að nýtast fátækari ríkjum í þessum álfum.

Ég leyfi mér, frú forseti, í þessu sambandi að vitna til orða indverska arkitektsins, rithöfundarins og mannréttindafrömuðarins Arundhati Roy sem hefur ritað margt og mikið um misnotkun vestrænna ríkja á fátækari ríkjum veraldar, svo sem Indlandi. Í bók sinni Power Politics fjallar hún um skeytingarleysi Vesturlanda gagnvart menningu fátækra ríkja veraldar og þörf t.d. Indverja til að afsanna stöðugt skilgreiningu Vesturlandabúa á sér. Þar segir hún eitthvað ógnvænlegt lúra út við sjóndeildarhringinn; það sé ekki stríð, ekki þjóðarmorð, ekki þjóðernishreinsanir, ekki hungursneyð og ekki farsóttir, heldur eitthvað sem hafi á sér andlit hversdagslegra viðskipta. Það skorti dramatíska ásjónu þjóðarmorðanna og hungursneyðarinnar. Það sé litlaust fyrirbæri, búi til lélegt sjónvarpsefni, sýsli með hluti eins og störf, peninga, vatnsbirgðir, rafmagn og landeyðingu, en það hafi líka að gera með tilfærslu eigna á skala sem eigi sér fáar hliðstæður í veröldinni. Þetta fyrirbæri, sem lúrir þarna og ógnar við sjóndeildarhringinn í augum Arundhati Roy, er alþjóðavæðingin, alþjóðavæðing stórfyrirtækjanna og ríku Vesturlandanna, sem að hennar mati eru eingöngu að hugsa um eigin hag.

Frú forseti. Í mínum huga leikur ekki nokkur vafi á því að við eigum að hlusta á rödd Arundhati Roy og annarra mannréttindafrömuða sem fjalla um þessi mál frá sjónarhóli hinna fátæku ríkja, sem þetta fólk þekkir vel af eigin raun og sér hvert stefnir í þessum efnum. Það er ekki allt gott eða jákvætt sem er að gerast í þessum efnum. Íslensk stjórnvöld bera að mínu mati skyldur að þessu leyti. Við þurfum að opna augu okkar fyrir þessum neikvæðu hliðum. Við þurfum að úttala okkur um þær, hafa þessi sjónarmið á hreinu og hafa þau með í ræðum okkar, líka þegar hæstv. utanríkisráðherra flytur ræður sínar í lokuðum sal á Alþingi Íslendinga. Þessi rödd berst líka út í samfélagið. Það skiptir máli að við tölum hreint út í þeim efnum.

Eitt af því sem mér er hugleikið um þessar mundir, af því ég hef getið um mannréttindamálin, eru málefni Mannréttindaskrifstofu Íslands. Við höfum átt nokkrar snerrur um þau mál. Ég hef gagnrýnt íslensku ríkisstjórnina fyrir að vera að gera hrapalleg mistök í því hvernig fjárveitingum til Mannréttindaskrifstofunnar er nú háttað. Ég ítreka að mér finnst það fullkomlega óeðlilegt, og ekki bara mér, að ríkisstjórnin skuli leyfa sér að ætla að vera ritstjóri mannréttindaverkefna á þeim nótum sem hún ætlar sér greinilega með því að auglýsa eftir verkefnum mannréttindasamtaka og ætla að setja upp einhverjar kríteríur sem fjárveitingum verði stýrt eftir. Það er ljóst, af þeim fjárveitingum sem hafa gengið, bæði frá dómsmálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu, til mannréttindamála á þessu ári að Mannréttindaskrifstofa Íslands er ekki í náðinni. Þeirra verkefni fá ekki náð fyrir augum hæstv. ráðherra.

Mér finnst það miður og mikil synd að svo skuli vera, sérstaklega þegar litið er til þess að hæstv. ráðherrar fara fögrum orðum um félagasamtökin sem starfa á vettvangi mannréttindamála á Íslandi. Það gera þeir. En Mannréttindaskrifstofa Íslands er regnhlíf þessara frjálsu félagasamtaka sem starfa á sviði mannréttindamála. Mannréttindaskrifstofa Íslands starfar eftir þeim línum sem þau einstöku félagasamtök leggja. Hún hefur ákveðið skilgreint verksvið sem er almennara heldur en hinna einstöku félaga og félagasamtaka. Hún samræmir að hluta til störf þeirra. Hún stendur fyrir ráðstefnum og málþingum og síðast en ekki síst skoðar hún með gagnrýnum huga það sem íslensk stjórnvöld gera í mannréttindamálum, ekki hvað síst hér innan lands.

Hæstv. ráðherra á ekki að kveinka sér undan því þótt hér komi þingmenn og haldi því fram að framferði stjórnvalda í garð Mannréttindaskrifstofunnar litist af hefnigirni. Það vita allir sem vilja vita að Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur gagnrýnt íslensk stjórnvöld fyrir frumvörp sem hafa verið lögð fram á síðustu árum, t.d. útlendingalögin. Stjórnvöld fengu á sig mjög harkalega gagnrýni og urðu líka að bakka með ýmislegt sem þau settu fram í því frumvarpi. Þannig hlýtur að vera eðlilegt að menn varpi fram þeirri spurningu og vilji þá fara aftur til fyrra horfs, þ.e. þess horfs sem eðlilegt hlýtur að teljast í þessum efnum, hvort Alþingi eigi ekki sjálft að veita Mannréttindaskrifstofu fé til starfa síns en ekki einstakir ráðherrar. Mannréttindaskrifstofa Íslands á ekki að vera sett undir ritstjórn hæstv. utanríkisráðherra eða hæstv. dómsmálaráðherra. Hún á að fá óumdeilda fjárveitingu frá 63 þingmönnum í þessum sal. Hún á að fá að stjórna sjálf, í gegnum þau félagasamtök sem að henni standa, þeim verkefnum sem hún tekur að sér.

Þetta held ég að stjórnvöld eigi að hafa ofarlega í huga, ekki hvað síst í ljósi þess að nýlega voru send til okkar, frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, tilmæli um að standa okkur betur í að hrista af okkur slyðruorðið í nokkrum tilteknum atriðum er varða mannréttindamál.

Eins og þeim sem hér sitja er kunnugt er mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna m.a. með það verkefni að skoða hvernig ríkisstjórnir aðildarríkjanna standa sig í mannréttindamálum. Við fengum senda skýrslu frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna nú á dögunum nú nýlega. Ég hef kannað það í dómsmálaráðuneytinu en það er ekki búið að láta þýða hana þannig að ég hef ekki opinbera þýðingu á þessari skýrslu. Í henni er að finna nokkrar ávirðingar sem hæstv. ríkisstjórn þarf auðvitað að taka hjarta sínu nær og skoða. Hún þarf að taka sig á í mörgum málum. Ég get nefnt hér, þótt henni sé hælt fyrir ákveðna hluti líka, t.d. að Jafnréttisstofu hafi verið komið á laggirnar og að við reynum að standa vörð um kynbundinn launamun og fleira, að í skýrslunni eru nokkrar ávirðingar sem við þurfum að svara, t.d. þær að íslensk stjórnvöld hafa enn ekki hirt um að lögleiða samning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem hefur verið ákveðin krafa um frá mannréttindasamtökum á Íslandi að þau geri og er orðið sannarlega tímabært.

Jafnvel þó að við höfum talið okkur hafa lögleitt mannréttindaákvæði og mannréttindasáttmála Evrópu þá segir mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna að nokkur ákvæði í samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi séu annars eðlis og taki á öðrum málum en mannréttindasáttmáli Evrópu, þannig að hér sé enn verk að vinna fyrir íslensk stjórnvöld.

Sömuleiðis er átalin skilgreining íslensku hegningarlaganna á hryðjuverkastarfsemi. Hún er sögð ónákvæm. Hún er sögð mjög víðtæk. Í þessari skýrslu segir að lögmætum og eðlilegum aðgerðum í lýðræðisríki geti stafað ákveðin hætta af þeim ákvæðum sem íslenska ríkisstjórnin hefur fært hér í lög. Þá er t.d. verið að tala um þátttöku í venjulegum mótmælagöngum og eðlilegum mótmælaaðgerðum. Fyrir þetta er íslenska ríkisstjórnin átalin. Það hefur svo sem verið nefnt áður í þessum sal að þetta ákvæði, sem sett var í lög á sínum tíma varðandi hryðjuverkastarfsemi, sé ámælisvert og þurfi að taka til endurskoðunar. Hér er það staðfest.

Sömuleiðis gerir þessi skýrsla nauðganir að umfjöllunarefni. Menn gera athugasemdir við það að fjöldi tilkynntra nauðgana á Íslandi sé mikill samanborið við fjölda málssókna vegna nauðgana. Nefndin minnir á að þó að sekt verði að vera hafin yfir vafa til að sakfelling geti átt sér stað þá eigi vafinn ekki að vera hindrun í kæruferlinu sjálfu. Það er jú í verkahring okkar að standa vörð um slíka hluti. Það skiptir verulegu hluti að ríkisstjórnin skoði hvers vegna dæmdum málum í nauðgunarmálum fjölgar ekki þegar við sjáum að nauðgunarmálum sem koma inn á borð til lögregluyfirvalda fjölgar. Þeim hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum en enn stendur fjöldi dóma í stað. Þetta gerir mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna að umtalsefni í skýrslu sinni.

Nefndin fagnar þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til í því augnamiði að styðja við þolendur heimilisofbeldis en lýsir áhyggjum af því að þeim sé kannski ekki nægilega vel fylgt eftir. Þar gera menn sérstaklega að umtalsefni nálgunarbannið og spyrja sig hvort ákvæðið sem við höfum í íslenskum lögum varðandi nálgunarbann sé nægilega virkt og hvort því sé nægilega vel fylgt eftir að það virki sem skyldi.

Nefndinni er kunnugt um þær breytingar á almennum hegningarlögum sem ætlað er að taka á mansali en hún lýsir áhyggjum af því að það virðist vera vaxandi mansal á Íslandi, bæði að Ísland sé það sem kallað er transit-land fyrir mansal og líka eru vísbendingar um að stúlkur sem dansa hér í nektarklúbbum séu tengdar einhverjum glæpahringjum sem stundi mansal til kynlífsþrælkunar. Auðvitað verða íslensk stjórnvöld að hlusta á þessa nefnd sem hefur yfirsýn yfir það sem er að gerast í veröldinni og hefur uppi ákveðið eftirlitshlutverk í þessum efnum. Ég brýni hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnina alla til þess að taka þau tilmæli sem koma frá mannréttindanefndinni alvarlega og sjá til þess að þetta mál verði skoðað ofan í kjölinn og þessum atriðum öllum svarað á málefnalegan hátt hið allra fyrsta.

Virðulegur forseti. Ég sé að ég hef ekki tíma fyrir meira í þessari ræðu í þessari lotu. Ég geyma því fleiri hugmyndir sem ég hafði hugsað mér að reifa til seinni ræðu minnar.