131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:03]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er það ekki slæmt að atvinnuleysi í Indónesíu sé minna nú en það var (Gripið fram í.) og það kann að vera að hluta til afleiðing alþjóðavæðingarinnar. Ég sagði heldur ekki að hún væri alslæm. Ég sagði hins vegar að á henni væru tvær hliðar og við yrðum að opna augu okkar fyrir skuggahliðinni, við mættum ekki alltaf tala eins og allt væri í lukkunnar velstandi í alþjóðavæðingunni því það er ekki svo. Þar eru ámælisverðir hlutir í gangi, misnotkun stórfyrirtækja, eða vill hv. þingmaður að stórfyriræki komist upp með að einkavæða rigningarvatnið eins og gerst hefur í Suður-Ameríku? Finnst hv. þingmanni í lagi að stórfyrirtæki fari svo gjörsamlega út yfir öll velsæmismörk að fátækt fólk í Brasilíu hafi ekki tök á því að drekka vatn? Finnst honum það í lagi? Mér finnst það ekki. Þetta er líka afleiðing alþjóðavæðingar.

Málið er að það eru tvær hliðar á alþjóðavæðingunni. Mér finnst hæstv. ríkisstjórn horfa einhliða á þessi mál og hafa tilhneigingu til að loka augunum fyrir skuggahliðinni. Það vil ég ekki gera, ég vil vinna að því að hæstv. ríkisstjórn opni augu sín fyrir skuggahliðum alþjóðavæðingarinnar.

Varðandi söknuð hv. þingmanns eftir Íraksumræðu þá get ég glatt hann með því að ég á eftir seinni ræðu mína og ef hann hefur biðlund til að sitja í salnum getur hann heyrt sjónarmið mín í þeim efnum. Um það hvort ég hefði viljað að Saddam Hussein sæti enn að völdum þá vísa ég þeirri spurningu á bug, hún er fullkomlega ómálefnaleg. Það sem ég hef ævinlega sagt um Írak er að þar hefði átt að fara að alþjóðlegum samþykktum. Þær voru ekki um það að Saddam Hussein héldi áfram völdum, en þær voru heldur ekki um það að Bandaríkin og Bretland réðust þangað inn til að murka lífið úr óbreyttum borgurum eins og þeir eru búnir að vera að gera.