131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:34]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að því sé til haga haldið sagði ég að sjö konur væru í íröksku ríkisstjórninni. (Gripið fram í.) Bara til að upplýsa hv. þingmann gat fólk ekki, hvorki konur né karlar, kosið í landi Saddams Husseins. Svo einfalt er það. Það liggur alveg fyrir hreint og klárt að ef alþýðubandalagsflokkarnir á þingi hefðu haft sitt fram, Vinstri grænir og Samfylkingin, væri Saddam Hussein enn þá við völd. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Hér kemur hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir upp, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, og þau eru að reyna að sannfæra okkur um það með einstöku dæmum að konur hafi haft það betra þegar Saddam Hussein var við völd. Ef hv. þingmenn vilja gera það gera þeir það bara. Það er ekkert flóknara. En ég held að það sé ekki til neitt skýrara dæmi um það hversu vonlítill málflutningur þeirra er. Ef þau halda hér ræðu eftir ræðu þar sem þau leggja áherslu á að konur hafi haft það miklu betra hjá Saddam Hussein leyfi ég mér að halda því fram að þau séu að reyna að gera Saddam Hussein að ákveðnum kvenréttindafrömuði. Svo einfalt er það. (Gripið fram í.)

Ég vil benda á það, sem er frekar augljóst, að konur jafnt sem karlar í Írak eru í fyrsta skipti að fá rétt til að kjósa. Þrátt fyrir að hryðjuverkamenn hafi hótað að drepa þau ef þau mundu kjósa komu þau milljónum saman til að kjósa. Milljónum saman.