131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:36]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Konur í Írak eins og allir aðrir borgarar í Írak vildu breytt líf, vildu nýtt líf, vildu bætt líf, en þær hafa ekki fengið það. Borgararnir hafa ekki fengið lýðræði. Þeir hafa ekki fengið öryggi. Þeir hafa ekki fengið það sem bandalagsþjóðirnar voru að lofa upp í ermarnar á sér að fólk mundi fá. Óöldin sem ríkir í stríðinu í Írak er þvílík að fólki er ekki lengur óhætt. Eins og ég er búin að segja hér aftur og aftur vogar fólk sér ekki út á götu og ef það gerir það samt á það á hættu að týna lífinu.

Þó svo að það fái að kjósa einhverja ríkisstjórn sem er með herkjum hægt að skrapa saman á þessum nótum sem gert hefur verið er ekki þar með sagt að menn séu hér bara í lukkunnar velstandi og allt sé orðið fínt og gott. Menn mega ekki láta eins og svo sé. Það er oft og tíðum eins og hv. þingmaður og aðrir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins haldi að nú sé bara beinn og breiður vegur í Írak og lýðræðið handan við hornið. Það er ekki þannig.

Það sem hefði þurft að gera í Írak var ekki að ráðast inn með menn gráa fyrir járnum á þeim nótum sem gert var. Það er hægt að beita öðrum aðferðum. Meðal annars hafa konur í Írak bent á það að aðrar aðferðir hefðu verið farsælli til að koma Saddam Hussein frá völdum en með aðferðum herjanna sem vinir hv. þingmanns beittu.

Svo vil ég bara að lokum segja, virðulegi forseti, að það að hv. þingmaður skuli standa í ræðustóli árið 2005 og tala um alþýðubandalagsflokkana á þingi lýsir engu öðru en hans eigin skringilegheitum, vil ég segja, því að sjálf hef ég aldrei verið í neinum flokki sem heitir þessu nafni. Ég er í flokki sem heitir Vinstri hreyfingin – grænt framboð. (Forseti hringir.) Ég bið hv. þingmann að kenna mig við þann flokk og engan annan því að í engum öðrum flokki hef ég setið en þeim.