131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:47]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur hér lagt fram sína árlegu munnlegu skýrslu um utanríkismál, farið þar víða um, en ekki djúpt kannski í hvern hlut fyrir sig frekar en við er að búast í stuttri skýrslu eins og þessari.

Ég ætla á þeim skamma tíma sem gefinn er til að ræða efni skýrslunnar aðallega að fjalla um tvö atriði hennar, annars vegar Íslensku friðargæsluna og kannski helst stöðu þeirra einstaklinga sem gegna þar störfum og hins vegar langar mig að fara aðeins yfir og ræða við hæstv. utanríkisráðherra um viðræður okkar eða viðræðuleysi við stjórnvöld í Bandaríkjunum um varnarsamninginn milli Íslands og Bandaríkjanna og um starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Það fylgir því alltaf ákveðin eftirvænting á hverju ári þegar utanríkisráðherra leggur fram skýrslu sína hér að sjá á hvaða málefni og hvaða hluti hæstv. ráðherra leggur áherslu og kannski ekki síður vekur oft athygli það sem ekki er í skýrslunni. Maður veltir þá fyrir sér af hverju ekki er farið dýpra í sum mál en raun ber vitni.

Ég ætla að byrja á því, frú forseti, að fara aðeins í gegnum það sem snýr að Íslensku friðargæslunni í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. Það kemur fram í henni að nú eigi að senda hóp íslenskra friðargæsluliða til starfa í norður- og vesturhluta Afganistans. Það kom líka fram að unnið er að því að semja frumvarp til laga um Íslensku friðargæsluna og búa til siðareglur fyrir liðsmenn hennar. Í skýrslunni segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Eftir að síðustu starfsmenn Íslensku friðargæslunnar fara frá alþjóðaflugvellinum í Kabúl eftir rúman mánuð, mun Ísland hefja þátttöku í endurreisnarsveitum í norðurhluta Afganistans með Norðmönnum og Finnum og í vesturhlutanum með Litháum, Lettum og Dönum. Gert er ráð fyrir að framlag Íslands á hvorum stað verði tveir sérbúnir jeppar og átta til níu manns.“

Það kemur líka fram, og hæstv. ráðherra nefnir það í þessum kafla og í því samhengi sem hér er verið að tala um, að unnið sé að því að semja frumvarp til laga um Íslensku friðargæsluna. Ég verð að segja alveg eins og er að það er í raun óskiljanlegt miðað við hvernig Íslenska friðargæslan hefur verið að þróast að ekki sé fyrir löngu búið að leggja fram slíkt frumvarp til að ná utan um starfsemi friðargæslunnar eins og hún er. Það hlýtur að vera óþolandi staða fyrir þá sem starfa í friðargæslunni að vita í raun ekki með skýrum hætti um sína stöðu, um sína stöðu gagnvart lögum, um til hvers er af þeim ætlast og eftir hvaða reglum þeir eiga að starfa.

Mér finnst, frú forseti, í raun með ólíkindum að heyra nýjustu fréttir um að liðsmenn friðargæslunnar séu ekki tryggðir á eins yfirgripsmikinn og góðan hátt og mögulegt er við störf sín erlendis í öllum aðstæðum, alltaf, alls staðar, nýjustu fréttir um að friðargæsluliðar sem særðust í Chicken Street í Kabúl þurfi nú að reyna að sækja tryggingar til Tryggingastofnunar ríkisins og upplifa þar höfnun vegna þess að þeir hafi ekki verið tryggðir í frítíma eins og það er kallað. Ég efast ekkert um að starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins reyna að fylgja þeim reglum sem þeim hafa verið settar og þeir þurfa að vinna eftir sérstaklega ef það er rétt sem fram hefur komið í fréttum að utanríkisráðuneytið virðist hafa látið Tryggingastofnun í té þá túlkun að liðsmenn friðargæslunnar hafi verið í fríi við þær aðstæður sem þeir lentu í.

Ég verð að segja, frú forseti, að hæstv. utanríkisráðherra verður að taka strax á þessu máli, eyða allri óvissu þessara manna um eðlilegar bætur fyrir líkamstjón og miska. Svona mál eiga að mínu viti ekkert erindi í hinu almenna tryggingakerfi Tryggingastofnunar ríkisins. Þrátt fyrir góð orð hæstv. ráðherra hér við skýrsluflutning sinn um að þetta mál þyrfti að skoða, þetta mál væri í farvegi þá er ekki hægt að mínu viti að beina þessum mönnum í þann farveg að sækja um, eins og hver annar sem orðið hefur fyrir vinnuslysi, til Tryggingastofnunar ríkisins og láta jafnframt fylgja miða um að þeir hafi nú ekki verið í vinnunni heldur í fríi. Síðan þurfa þeir að sæta því að reyna að sækja sinn rétt frekar til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Mér finnst þetta í raun lýsa virðingarleysi fyrir þeim störfum sem þetta fólk er að inna af hendi fyrir okkur hina á erlendri grundu við hættulegar aðstæður. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. utanríkisráðherra taki á þessu máli. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. ráðherra segi eins og hann hefur áður sagt: „Svona gera menn ekki.“ Hæstv. ráðherra hefur örugglega það afl og þá stöðu sem þarf til þess að koma þessum málum í eðlilegt horf og það strax þannig að það þurfi ekki að velkjast í almannatryggingakerfinu með öllum þeim málum sem þar eru.

Annar kafli í ræðu hæstv. ráðherra sem ég bíð alltaf spenntur eftir er kaflinn um varnarsamvinnuna við Bandaríkin og hvernig gengur í þeim viðræðum sem fyrir dyrum hafa staðið við Bandaríkjamenn um framtíð varnarsamningsins.

Ég bað hæstv. ráðherra um utandagskrárumræðu 16. nóvember í fyrra þar sem ég óskaði eftir því að ræða við hæstv. ráðherra um framtíð varnarsamningsins og hvernig gengi að eiga samskipti við Bandaríkjamenn út af honum. Hæstv. ráðherra hefur ekki enn séð sér fært að eiga þessa umræðu við mig utan dagskrár og þar sem þingið er að verða búið og því fer að ljúka innan nokkurra daga sé ég mér ekki annan kost færan en að ræða þetta að einhverju leyti nú undir skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. Ég verð þó að segja eins og er að ég skil það betur nú en áður þegar ég sé skýrslu hæstv. ráðherra og átta mig á því hversu hrikalega lítið er í raun að frétta af þessum málum að hann hafi ekki viljað taka þessa umræðu á Alþingi vegna þess að í raun hefur ekkert verið að gerast og ekkert er að frétta. Ég skil ekki endalaust langlundargeð og mér liggur við að segja undirlægjuhátt íslenskra stjórnvalda gagnvart bandarískum stjórnvöldum í þessu máli þegar ekkert er að gerast.

Við stöndum nú hér 29. apríl árið 2005. Þá segir í skýrslu hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Um nokkra hríð hefur staðið til að viðræður hæfust milli Íslands og Bandaríkjanna um varnarmálin, en það hefur dregist. Því valda tafir sem hafa orðið á undirbúningi bandarískra stjórnvalda fyrir viðræðurnar. Sem fyrr liggur til grundvallar af Íslands hálfu að hér á landi þurfi að vera lágmarksvarnarviðbúnaður. Jafnframt eru stjórnvöld reiðubúin að semja um það við Bandaríkjamenn hvernig Íslendingar geti tekið meiri þátt í kostnaði við rekstur Keflavíkurflugvallar.“

Þetta er í raun kaflinn um varnarsamvinnuna eða varnarsamninginn og hver staðan er í honum.

Mig langar, með leyfi forseta, að fara aftur til 29. apríl ársins 2004, þ.e. akkúrat eitt ár frá deginum í dag, en þá spurði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hæstv. þáverandi utanríkisráðherra hvort eitthvað væri að frétta af þessum viðræðum við Bandaríkjamenn eða viðræðuleysi eins og hv. þingmaður kallaði það. Þá svaraði hæstv. þáverandi utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson að því miður biðum við enn eftir frekari viðbrögðum Bandaríkjamanna í málinu. Þegar maður les svar hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra við spurningu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þá er það nánast það sama og stendur núna í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra Davíðs Oddssonar. Á heilu ári virðist afskaplega lítið hafa gerst, alla vega sem hægt er að segja frá eða setja niður á blað.

Ég hef oft tekið þetta málefni upp í ræðustól Alþingis og reynt með öllum mögulegum hætti að særa fram einhver svör um það hvernig gangi að semja við Bandaríkjamenn og þegar færi hefur gefist til eða einhverjir þeir áfangar orðið að maður hefur haldið að nú færu hlutirnir að gerast þá hef ég yfirleitt reynt að ýta við því að spyrja á Alþingi og reyna að fá svör. Þetta gerðist eftir fundinn sem hæstv. þáverandi forsætisráðherra sem nú er utanríkisráðherra átti með Bush Bandaríkjaforseta sumarið 2004. Þá voru menn bjartsýnir á að nú færi þetta að gera sig og það væri búið að ræða þetta við Bush, hann vissi nákvæmlega um hvað málið snerist og nú færu hlutirnir að gerast. En það gerðist ekki neitt annað en að ákveðið var að ræða þetta við utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem þá var Colin Powell.

Þann 2. nóvember sama ár spurði varaþingmaður af Suðurnesjum, hv. þm. Böðvar Jónsson, hæstv. utanríkisráðherra hvort nokkuð væri að frétta af þessu máli og sagði þá að í síðustu viku hefðu borist fréttir af því að verið væri að flytja mikið af hergögnum úr landi og óskaði eftir því að hæstv. utanríkisráðherra svaraði hvort nokkuð væri að frétta af samningum við Bandaríkjamenn. Þá svaraði hæstv. ráðherra því að hann hefði átt fund með forseta Bandaríkjanna meðan hann hefði starfað sem hæstv. forsætisráðherra og þar hefði verið ákvarðað að málin skyldu ganga til utanríkisráðherra Bandaríkjanna Colins Powells og hæstv. utanríkisráðherra upplýsti að hann mundi hitta hann að máli 16. þess mánaðar, þ.e. í nóvember 2004, og sagði svo, með leyfi forseta:

„Vona ég að á þeim fundi megi takast að færa þetta mál í fastari farveg þannig að úr óvissu gagnvart varnarstöðunni dragi og að vissa ríki í þeim efnum sem allra fyrst.“

Þetta var 2. nóvember árið 2004 og þetta voru þær væntingar sem hæstv. utanríkisráðherra fór með út til fundar við Colin Powell. Eftir þann fund þegar ljóst var að málið hafði lítið þokast var það að frétta af því að embættismenn þjóðanna ættu að taka upp samningaviðræður í janúar á þessu ári, í janúar árið 2005. En þegar ekki var útlit fyrir að hæstv. utanríkisráðherra vildi taka við mig utandagskrárumræðu um þessi efni þá fór ég í óundirbúna fyrirspurn þann 22. nóvember og spurði hæstv. utanríkisráðherra hver hefði orðið niðurstaða af fundinum við Colin Powell og sagði þá að ég teldi mig tilneyddan til þess að spyrja þessara spurninga í óundirbúinni fyrirspurn vegna þess að fréttirnar af fundinum hefðu verið svona í véfréttastíl, að þar hefði verið sagt að telja megi, að mönnum finnist og menn voni og treysti o.s.frv.

Spurningin til hæstv. utanríkisráðherra á þessum tíma, 22. nóvember, var: Hvað er í raun að frétta af þessum fundi? Megum við vænta þess á næstunni að fá einhverjar frekari fréttir en verið hafa af fundinum eða er niðurstaðan svo óljós að ekki sé hægt að skýra frá með beinum hætti einhverri niðurstöðu af fundinum annarri en þeirri að menn ætli að tala saman aftur í janúar?

Hæstv. ráðherra svaraði því til að fundurinn hefði verið mjög eðlilegt framhald af fundinum sem hann átti með Bush. Ákveðið hefði verið að færa málið á nýjan leik í farveg á vettvangi utanríkisráðuneytanna en það hefði verið á vettvangi forsætisráðherra og forseta Bandaríkjanna.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði að fundurinn með Powell hefði verið mjög jákvæður, afar góður og mikilvægur fundur og gengið mjög í rétta átt. Niðurstaða hans var sú að nú hæfust embættismannaviðræður á þeim grundvelli sem við höfum rætt, sagði hæstv. utanríkisráðherra, að loftvarnir verði tryggðar en jafnframt ákveðið með hvaða hætti eðlilegt þætti að íslensk stjórnvöld kæmu inn í rekstrarþætti Keflavíkurflugvallar vegna breytts umfangs borgaralegrar starfsemi á flugvellinum. Hæstv. utanríkisráðherra sagði þá að málið væri komið í heilbrigðari farveg.

Þetta var, eins og ég sagði áður, 22. nóvember 2004. Viðræður á embættismannastigi áttu að hefjast í janúar á þessu ári. Nú er að nálgast 1. maí. Við fáum skýrslu frá hæstv. utanríkisráðherra sem segir ekki neitt annað en að viðræður hafi í raun ekki enn þá hafist.

Ég verð að segja, frú forseti, að niðurstaða mín, eftir að hafa farið í gegnum þessar umræður og það sem sagt hefur verið og skrifað um samningaviðræður um varnarsamning við Bandaríkin, þá er bara ekkert að gerast. Þar er ekkert að gerast sem hægt er að setja fingurinn á og segja að við séum að þokast eitthvað nær því að ná niðurstöðu við ríkisstjórn Bandaríkjanna. Óvissan hefur í raun aldrei verið meiri því að það er dregið verulega úr starfsemi varnarliðsins. Það er gert án þess að samráð sé haft við íslensk stjórnvöld því að í hvert skipti sem spurt er koma þau af fjöllum, að það hafi ekki verið með þeirra vilja, vitund eða í samningum við þau sem ákveðið hefði verið að hætta þessari starfsemi, draga úr henni eða segja upp þessum fjölda starfsmanna. Því hlýt ég að nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. utanríkisráðherra enn einu sinni, í fullri vinsemd: Er ekki von til þess að eitthvað fari að þokast í niðurstöðu um varnarsamninginn, framtíð hans og framtíðarumsvif á Keflavíkurflugvelli?