131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:27]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hóf ræðu sína á því að minnast þess að 1. apríl voru 150 ár síðan Íslendingar fengu fullt verslunarfrelsi. Það er rétt sem fram kom að Jón Sigurðsson forseti lagði mikla áherslu á verslunarfrelsi og kynnti sér allt sem hann komst yfir viðvíkjandi verslunar- og hagsögu Íslands. Jón Sigurðsson hamraði stöðugt á að einokunarverslun væri til ills. Hæstv. utanríkisráðherra ætti að íhuga þessi varnaðarorð Jóns Sigurðssonar gagnvart einokunarverslun og frjálsum viðskiptum.

Við í Frjálslynda flokknum gerum okkur fulla grein fyrir gildi frelsis og heiðarlegrar samkeppni á sviðum viðskipta. Á Íslandi eru því miður nýleg dæmi um samráð og samráðssvik stórra fyrirtækja sem ógna hag almennings. Svikasamráð olíufélaganna er landsmönnum í fersku minni. Ekkert hefur verið gert til að efla Samkeppnisstofnun þrátt fyrir að upp hafi komist ítrekað um samráð.

Hvers vegna ætli það sé? Ætli það sé vegna þess að þessi svikasamráð séu svo nátengd stjórnarflokkunum, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum? Það skyldi aldrei vera. Fyrir þessu þingi liggur nefnilega frumvarp sem á að veikja Samkeppnisstofnun, ekki styrkja. Þrátt fyrir mikil hættumerki leggja stjórnarflokkarnir fram frumvarp sem mun veikja Samkeppnisstofnun ef það verður að lögum. Mér finnst það íhugunarvert og vil minna enn á ný á orð Jóns Sigurðssonar forseta um að koma beri í veg fyrir einokun og tryggja verslunarfrelsi.

Það er rétt að stjórnvöld hafa minnkað höft á ýmsum sviðum viðskiptalífsins og ber að þakka það. Hins vegar ber að minnast á að sömu stjórnvöld hafa þanið út ríkisútgjöld og fest höft, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi og fjötrað þessar atvinnugreinar. Það er með ólíkindum. Þeir stjórnmálamenn sem hafa gengið hvað harðast fram eru einmitt oddvitar ríkisstjórnarflokkanna, hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddsson og hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson. Nú hefur miðstýringaráráttan og haftastefnan gengið svo langt fram að bændur eru sviptir atvinnufrelsi í eigin landi og á eigin jörðum. Það er með ólíkindum að flokkur sem kennir sig við frelsi og ber á borð hér skýrslu þar sem hann þakkar afrakstur stefnu síðustu ára aukins frelsis skuli hefta bændur landsins svo mjög að þeir geti ekki einu sinni sótt vinnu í jarðir sínar. Mér finnst það skrýtið. Þetta á ekki saman. Menn mega ekki nýta auðlindir í fjöruborði sínu fyrir þessum flokkum.

Fyrr í umræðunni kom berlega fram hve hæstv. utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, virðist vera illa upplýstur bæði um átakanlegt ástand á herteknum svæðum Ísrael í Palestínu og um undirstöðuatvinnuveg landsmanna, sjávarútveginn. Í ræðu ráðherrans var því haldið fram að með núverandi kvótakerfi Sjálfstæðisflokksins væri fiskur veiddur og seldur samkvæmt eftirspurn á mörkuðum. Þetta er einfaldlega alrangt hjá hæstv. ráðherra og ég furða mig á því að hann sé svona illa upplýstur og skuli bera þetta á borð hér á hinu háa Alþingi. Til þess að upplýsa hæstv. ráðherra og hann komi ekki með þvílíka vitleysu enn á ný hingað í þessa sali skal það tekið fram að einungis fimmti hver þorskur fer á fiskmarkað innan lands, 20%, og einungis 7% af karfaaflanum fer á fiskmarkaði.

Staðreyndin er sú að stefna Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegi hefur beðið skipbrot, staðreyndirnar tala sínu máli. Í nýlegri opinberri skýrslu frá því í nóvember sl. kemur fram að á því tímabili sem var til skoðunar hefur framleiðni dregist saman eða staðið í stað í fiskveiðum og fiskiðnaði. Öllum er ljóst að kvótakerfinu hefur algjörlega mistekist við að byggja upp þorskstofninn og er nýleg vitneskja úr togararalli því miður enn ein vitneskjan um hve stefna Sjálfstæðisflokksins er vonlaus, enda er heildarveiði þorskafla á því tímabili sem flokkurinn hefur stjórnað veiðum á síðustu tólf árum aldrei verið minni, hæstv. ráðherra. Hún hefur aldrei verið minni frá því að Íslendingar fengu fullveldi árið 1918.

Þá hef ég einnig farið yfir það tímabil þar sem nasistar komu í veg fyrir veiðar, þeir hafa verið hér fyrr í umræðunni. Það er mjög mikið áhyggjuefni að kafbátahernaður nasista virðist ekki hafa megnað að koma í veg fyrir veiðar í sama mæli og fiskveiðistefna Sjálfstæðisflokksins. (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti. vill biðja hv. þingmann að gæta að orðum sínum.)

Ég skal gera það. Ég biðst afsökunar ef ég hef gengið of langt, frú forseti.

Hvers vegna er ég að bera þetta á borð í umræðu um utanríkismál? Ástæðan er sú að hæstv. ráðherrar og stjórnvöld hafa verið að draga upp einhverja glansmynd af þessari stefnu sem er svo vitavonlaus sem raun ber vitni. Því miður hef ég ekki verið að ýkja, þetta eru bara hreinar og klárar staðreyndir sem ég hef borið hér á borð. Ég hef m.a. beint þeirri spurningu að ráðherrum hversu háum fjárhæðum hafi verið varið til að kynna þessa vonlausu stefnu erlendis. Ég hef því miður ekki fengið svör við því, enda virðast þetta vera mjög viðkvæmar upplýsingar. Það er áhyggjuefni í alþjóðasamstarfi að Íslendingar séu að útbreiða þessa vitleysu og í rauninni er þetta ljótur leikur hjá stjórnvöldum að gera þvílíkt, að draga upp falska mynd.

Á dögum Jóns Sigurðssonar voru vissulega meiri höft á verslun en að sama skapi má segja að meira atvinnufrelsi hafi verið í sjávarútvegi og landbúnaði. Atvinnugreinarnar hafa verið fjötraðar af núverandi stjórnarflokkum og engum vafa undirorpið í mínum huga að það verður mjög erfitt fyrir landbúnaðinn að bregðast við alþjóðaviðskiptaskuldbindingum framtíðarinnar vegna þess að landbúnaðarkerfið er í beingreiðslum og skuldbindingar um að það verði að draga saman. Næstu ár verða erfið fyrir landbúnaðinn og sérstaklega fyrir kerfið og menn verða að fara að horfa fram á veginn og skoða þær tillögur sem Frjálslyndi flokkurinn hefur lagt fram í landbúnaðarmálum, þ.e. að koma fremur á grænum styrkjum og fjölskylduvænum byggðastyrkjum í stað þess að vera að tengja styrki til landbúnaðarins í framleiðslustyrki. Það gengur einfaldlega ekki.

Ég hef fulla trú á því að ef við förum réttar leiðir hvað varðar landbúnaðinn á hann góða framtíð fyrir sér, en þá þarf hann að losna úr þessu miðstýrða kvótakerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn virðast vera einhuga um að koma landbúnaðinum í. Þá getur landbúnaðurinn farið að framleiða hágæðavöru á alþjóðamarkað í stað þess að vera bundinn niður og niðurnjörvaður í einhverja lítra og kílógrömm sem má framleiða á hverju býli. Þessi búskapur minnir óneitanlega á áætlunarbúskap sem var stundaður austur frá, frú forseti, fyrir nokkrum áratugum.

Ég get tekið undir ýmislegt í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra og ég get tekið undir að mikilvægt sé að horfa til þess að bíða eftir því hvað kemur út úr Evrópunefndinni sem var skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka hér á þinginu og nota þá vinnu sem þar verður unnin til þess að taka upplýsta ákvörðun um framtíðarskipan sambands Íslands og Evrópusambandsins.

Ég get einnig tekið undir þá skoðun sem fram kemur að við eigum að horfa út fyrir Evrópusambandið og út til annarra landa og ekki eingöngu að binda sjóndeildarhring okkar við Evrópusambandið. Einnig er vert að taka undir það að við eigum að leggja mun meiri áherslu á nágrannaþjóðir okkar, samstarf við Færeyinga og Grænlendinga og reyna einnig að læra af ýmsum góðum hlutum sem þeir hafa fram að færa.

Frú forseti. Það sem ég vil einnig minnast á er mikil útþensla utanríkisráðuneytisins. Vissulega hafa ríkisútgjöld þanist gríðarlega út á síðustu árum sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Á föstu verðlagi frá árinu 1998 virðist vera samkvæmt upplýsingum frá upplýsingaþjónustu Alþingis sem útgjöld til utanríkisráðuneytisins hafi aukist um 2,3 milljarða. Mér finnst það vera mjög háar upphæðir. Auðvitað eru ýmis verkefni þar ágæt og að horft sé til mannréttindamála og þess háttar víðs vegar um heiminn, mér finnst það vera jákvætt, því að vissulega er víða pottur brotinn hvað varðar mannréttindi víða um heim. En það er mjög sérstakt að sömu stjórnvöld sem leggja svo mikla áherslu á mannréttindastarf víða um heim þoli ekki umræðu um mannréttindi og eitt og annað sem því viðkemur á Íslandi, þola ekki upplýsta gagnrýni og reyna að koma í veg fyrir hana með því að stoppa opinber fjárframlög til Mannréttindaskrifstofu Íslands, um 75%, það hefur komið fram. Mér finnst að menn eigi einmitt þá frekar, og ég vona að menn sjái að sér, að hæstv. utanríkisráðherra sjái að sér í þessu máli og þakki fyrir gagnrýni á þessu sviði þannig að Ísland verði leiðandi á þeim sviðum. Og þegar menn senda fulltrúa — sendiherrum hefur fjölgað mikið á síðustu árum, um 70%, ef ég man rétt — þegar þeir senda þessa ágætu sendiherra út um víðan völl þá geti þeir sagt að hlutirnir séu til fyrirmyndar heima hjá sér, að það sé til fyrirmyndar á Íslandi og þar sé starfandi mannréttindaskrifstofa sem er gagnrýnin og menn verði einfaldlega að þola þá gagnrýni.

Ég sé að tími minn er að renna út. Hæstv. utanríkisráðherra segir að það kosti 600 milljónir að sækja um aðild að öryggisráðinu. Ég hef reynt að fá þetta fram og ég þakka fyrir að þær upplýsingar séu loksins komnar fram hérna á þinginu. Ég beindi þessari spurningu um miðjan nóvember, ef ég man rétt, til hæstv. utanríkisráðherra en hann hefur ekki séð sé fært einhverra hluta vegna að svara henni. En ég verð að segja að mér finnst þessum fjármunum mjög illa varið og ég tel að Íslendingar ættu að verja þeim miklu frekar til annarra verkefna. Það segi ég vegna þess að ég tel að við höfum einfaldlega ekki mikið vit á því sem fram fer og þeim ákvörðunum sem öryggisráðið á að fjalla um. Öryggisráðið á einmitt að fjalla um hættuástand, taka ákvörðun um hvort fara eigi með ófriði á hendur öðrum þjóðum. Það verður að segjast eins og er að við erum tæplega 300 þúsund og það eru ekki margir sérfræðingar á því sviði. Við eigum miklu frekar að horfa til þeirra verkefna sem við ráðum við og getum lagt þjóðum heimsins lið í stað þessa að vera að þvælast í einhverjum verkefnum eins og í öryggisráðinu þar sem við verðum að treysta á okkar ágætu bandamenn, Bandaríkjamenn. Því miður hefur stjórnarstefnan þar síðustu árin ekki verið til þess fallin að afla okkar þjóð vinsælda víða um heim, því miður, frú forseti.