131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:45]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Vandamálið varðandi kjarnorkuvopnin og útbreiðslu þeirra er, ef það gengur eftir, að ríki sem eru skuldbindandi aðilar að samningi um takmörkun á útbreiðslu kjarnorkuvopna geta án stórra vandkvæða brotið gegn þeim samningi. Þá er hætt við því að önnur ríki gangi hinn sama veg. Síðan er þá hættan í framhaldinu að eftir því sem þessum ríkjum fjölgi geti kjarnorkuvopn borist þaðan í einni eða annarri mynd, svokallaðar skítugar sprengjur eða hvað það er kallað, til aðila sem kannski ólíkt ríkjum væru tilbúnir til að beita þeim vopnum gegn saklausum almenningi, til að mynda á Vesturlöndum. Það er hætta sem hlýtur að vera raunveruleg.

Hitt er svo annað mál að ríki taka auðvitað eftir því að þau virðast njóta meiri virðingar ef þau eiga kjarnorkuvopn. Ef þau eru búin að koma sér upp þeim vopnum er afskaplega flókið og erfitt að koma því til leiðar að þau haldi þeim vopnum ekki lengur. Það var mikið áfall þegar bæði Pakistanar og Indverjar sprengdu kjarnorkusprengjur fyrr en menn höfðu búist við að fyrir lægi að þeir hefðu komið sér upp slíkum vopnum. Eftir að það hefur gerst er flókið að stemma stigu við útbreiðslu þeirra eða aukningu, hvað þá að ganga til baka. Það hefur þó tekist eftir hrun Sovétríkjanna með samningum eins og gagnvart Úkraínu. Það tókst líka í Suður-Afríku þar sem þessum vopnum var sannanlega eytt en það er ekki auðvelt í framkvæmd.