131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:47]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir að mér finnst áhyggjuefni að ríki skuli ætla að brjóta samkomulag sem þau hafa gerst aðilar að um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna. Ég legg þó jafnframt áherslu á að ég hef áhyggjur af kjarnorkuvopnum, hver svo sem hefur þau á hendi, og minni á að eitt ríki í heiminum hefur beitt þessum vopnum, Bandaríkin. Þau viðhalda enn þeirri kenningu að það sé réttlætanlegt að beita kjarnorkusprengjunni og segja að beiting hennar í Japan árið 1945 hafi orðið til góðs. Menn sem hugsa á þennan veg, eða gera það einu sinni, gætu gert það aftur.

Staðreyndin er sú að Bandaríkjamenn eru að segja sig frá samningum sem gerðir hafa verið á liðnum árum og áratugum, t.d. ABM-samningnum sem gerður var 1972, og hafa hafið áætlanir sem kenndar voru við stjörnustríð fyrr á tíð, um vopnvæðingu úti í himingeimnum. Bandaríkin neita að gerast aðilar að samningi um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn.

Bandaríkjastjórn sú sem nú stýrir því mikla og volduga ríki hlýtur að vera okkur ekki síður áhyggjuefni en skálkarnir sem hæstv. utanríkisráðherra nefnir svo, og reyndar set ég þann stóra skálk George Bush rækilega inn í þann hóp og undir þá skilgreiningu.