131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Minnst látins fyrrverandi alþingismanns.

[10:31]

Forseti (Jónína Bjartmarz):

Gils Guðmundsson, rithöfundur, fyrrverandi alþingismaður og forseti sameinaðs Alþingis, er látinn. Hann andaðist föstudaginn 29. apríl, níræður að aldri.

Gils Guðmundsson var fæddur í Hjarðardal innri í Önundarfirði 31. desember 1914. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Gilsson bóndi og Sigríður Hagalínsdóttir húsmóðir þar. Hann ólst upp í foreldrahúsum við búskap og sjósókn fram yfir tvítugsaldur. Árið 1935 hóf hann nám í Kennaraskóla Íslands og lauk kennaraprófi vorið 1938.

Hann var kennari við íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar í Haukadal í Biskupstungum 1938–1940 og við unglingaskóla í Garði og Sandgerði 1940–1941. Afgreiðslumaður í Sandgerði var hann 1941–1943. Árið 1943 fluttist hann til Reykjavíkur.

Um þær mundir hófst sá ferill sem varð meginþáttur í ævistarfi Gils Guðmundssonar. Hann fór að skrá og birta á prenti margs konar þjóðlegan fróðleik. Hann var afkastamikill rithöfundur og stundaði einkum ritstörf og blaðamennsku á árunum 1943–1956. Árið 1956 varð hann framkvæmdastjóri menntamálaráðs og Bókaútgáfu Menningarsjóðs og gegndi því starfi til 1978. Fyrst rita frá hans hendi voru Frá ystu nesjum: vestfirskir sagnaþættir sem komu út í sex bindum 1942–1953. Næst kom út Skútuöldin í tveimur bindum 1944 og 1946. Ritstjóri Sjómannablaðsins Víkings var hann 1945–1954. Nokkru síðar hóf hann að taka saman minnisverð tíðindi á Íslandi á 20. öld og öldinni á undan og sá hann um átta bindi þess vinsæla bókaflokks. Hið síðasta kom út 1986. Ótalinn er hér fjöldi rita sem hann stóð að útgáfu á.

Gils Guðmundssyni voru falin ýmis trúnaðarstörf jafnframt aðalstarfi og verða nokkur þeirra talin hér. Hann var formaður Rithöfundasambands Íslands 1957–1958, skipaður 1962 formaður stjórnar Minningarsjóðs Kristjáns Jónssonar Fjallaskálds, kosinn 1966 í þjóðhátíðarnefnd til að minnast ellefu alda Íslandsbyggðar 1974. Árið 1968 var hann skipaður í endurskoðunarnefnd laga um friðun Þingvalla og um náttúruvernd, og skipaður 1971 í fiskveiðilaganefnd. Hann var formaður nefndarinnar. Í Norðurlandaráði var hann 1971–1974 og 1978–1980, í verðlaunanefnd Gjafar Jóns Sigurðssonar 1972–1983, í Þingvallanefnd 1972–1980 og í stjórn Þjóðhátíðarsjóðs 1977–1987. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sat hann 1970 og á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1974–1975.

Gils Guðmundsson var einn forvígismanna við stofnun Þjóðvarnarflokks Íslands árið 1953, var ritari flokksins 1953–1960 og varaformaður 1960–1962. Hann skipaði efsta sæti á lista flokksins í Reykjavík í alþingiskosningunum 1953, hlaut kosningu og sat á Alþingi til 1956. Árið 1963 tók hann aftur sæti á Alþingi, þingmaður Alþýðubandalagsins í Reykjaneskjördæmi, og sat á þingi til 1979. Alls sat hann á 20 þingum. Hann var forseti neðri deildar 1971–1974, fyrri varaforseti sameinaðs þings 1974–1978 og forseti sameinaðs Alþingis 1978–1979.

Gils Guðmundsson var traustur drengskaparmaður. Hann var vel máli farinn, flutti lengi vel erindi í útvarp og annað dagskrárefni og hlaut vinsældir meðal hlustenda. Í störfum sínum á Alþingi naut hann reynslu sinnar og þekkingar af atvinnulífi Íslendinga til sjávar og sveita. Í málflutningi var hann rökfastur og fundvís á kjarna hvers máls. Hann var röggsamur og réttlátur í forsetastóli.

Gils Guðmundsson átti við sjúkleika að stríða síðustu æviárin. Hann tók þó eftir föngum þátt í störfum Félags fyrrverandi alþingismanna og var á nýliðnum vetri kjörinn heiðursfélagi þess.

Ég bið háttvirta alþingismenn að minnast Gils Guðmundssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]