131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[10:41]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða skattahækkunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar. Nú er ætlunin að hækka álögur á vatn, hita og rafmagn. Þar er borið niður í þessu tiltekna frumvarpi.

Þeir sérfræðingar sem komu á fund hv. efnahags- og viðskiptanefndar töluðu allir um að þetta mundi leiða til hækkunar. Það liggur einnig fyrir að ríkisstjórnin hefur ekki lagt í neina vinnu, enga, til að kanna hvaða afleiðingar þetta kunni að hafa í för með sér.

Í yfirferð efnahags- og viðskiptanefndar var einnig á það bent að langtímaraforkusamningar við stóriðju gera það að verkum að engar breytingar verða á þeim samningum. Hækkunin mun nánast alfarið falla á almenning í þessu landi og ekki aðeins það heldur hefur einnig verið bent á að hækkunin muni leiða til mikillar tilfærslu á fjármunum frá sveitarfélögum yfir til ríkisins. Í samhljóða ályktun og bókun borgarráðs fyrir nokkrum dögum segir m.a., með leyfi forseta:

„Samkvæmt samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga hefði þessi skattlagning orkufyrirtækja sveitarfélaga numið um 1,1 milljarði króna á árunum 2002 og 2003.“

Það er því alveg ljóst að með þessum aðgerðum er vegið að sveitarfélögunum og ríkið er á nokkurn hátt að kalla til sín þá fjármuni sem það nýlega hefur verið gert samkomulag við sveitarfélögin um að láta þau hafa.

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að Samfylkingin mun ekki styðja þetta mál og mun því segja nei.