131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

435. mál
[11:15]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Nokkur orð varðandi þessa tilskipun, XVIII. viðauka við EES-samninginn, um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, vinnurétt og jafnrétti kynjanna, sem við ræðum hér um og þá sérstaklega út frá vinnutíma unglækna í starfsnámi.

Í raun hefðum við ekki þurft að hafa þessa tilskipun fyrir framan okkur og til afgreiðslu á þinginu til þess að ganga með nokkru öryggi inn í breytingar á vaktafyrirkomulagi, þá sérstaklega á stóru sjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem unglæknar eru flestir, mest mæðir á þeim og mest er treyst á vinnuframlag þeirra við allt skipulag og starfshætti sjúkrahúsanna. Það er löngu tímabært að taka það mál sérstaklega til endurskoðunar. Það kostar jú umtalsverða fjármuni en öllum er fyrir löngu orðið ljóst að breyta þarf vöktum unglækna í starfsnámi þannig að þeir fái eðlilega hvíld og vinnuframlag þeirra verði eðlilegt. Þá er ég ekki eingöngu að tala um þeirra eigin heilsu og úthald í námi heldur ekki síður um öryggi sjúklinganna og öryggi allra sem vinna á sjúkrahúsunum. Það segir sig sjálft að illa fyrir kallaðir unglæknar, vansvefta og þreyttir, eru ekki jafnhæfir til að taka erfiðar ákvarðanir og sinna vandasömum verkum, sem gerist oft.

Það er löngu tímabært að fara í þessa vinnu. Ég hefði talið það eðlilegt og heppilegt við þær aðstæður sem nú eru uppi, þar sem mál hafa verið í gangi hvað varðar réttarstöðu unglækna, að upplýst væri við þessa umræðu hver framvinda málsins er, hvenær þeir megi búast við leiðréttingu á vinnutíma sínum og starfstilhögun.

Tilskipunin gæti náð til fleiri starfsstétta og þá er ég að vísa til starfsstétta sem hafa sex tíma vaktir, eru á sólarhringsvöktum og vinna eingöngu sex tíma í senn þannig að eðlilegur svefn næst aldrei, djúpur svefn næst ekki vegna svo örra breytinga. Slíkt fyrirkomulag tíðkast á nokkrum vinnustöðum, eins hjá hinu opinbera. Ég tel að það sé nokkuð sem verður að fara yfir líka, hvernig sex tíma vaktir koma niður á heilsu starfsmanna og vinnu þeirra. Svefn er nauðsynlegur öllum og djúpsvefninn sérstaklega þannig að vinnutilhögun með sex tíma vöktum er til lengri tíma mjög slítandi og heilsuspillandi.

Tilskipunin varðar bæði daglegan og vikulegan lágmarkshvíldartíma og einnig vinnuvernd. Varðandi vinnuvernd allra starfandi manna þá minni ég á að þeir ættu að hafa rétt á heilbrigðu vinnuumhverfi, heilbrigðu lofti. Ég hvet til þess að með þessari tilskipun sé horft til reyklausra veitingahúsa og matsölustaða þannig að starfsmenn og þjónar vinni við heilbrigðara andrúmsloft en margir þeirra búa við í dag. Reyklaust umhverfi er hluti af þessu og allir ættu að sitja þar við sama borð og eiga rétt á að vinna í reyklausu umhverfi.