131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

435. mál
[11:21]

Frsm. utanrmn. (Sólveig Pétursdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. þingmanna um málið sem hér er rætt vil ég láta þess getið, m.a. vegna athugasemda hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem gerði athugasemd við val á gestum á fund nefndarinnar, þ.e. að enginn hafi komið frá ASÍ en fulltrúi Samtaka atvinnulífsins hafi mætt, að Alþýðusambandinu var boðið að senda fulltrúa á fundinn þegar málið var til umræðu en gat því miður ekki sent neinn á þeim tíma. Fulltrúi unglækna var boðaður og hélt fram sjónarmiðum unglækna.

Vinnutímatilskipunin eykur réttindi launafólks. Samtök atvinnulífsins gerðu ekki athugasemdir við efni hennar og gera verður ráð fyrir að Alþýðusambandið og fleiri launþegasamtök komi að málinu þegar það verður innleitt í íslenskan rétt með lögum eða kjarasamningum. Við höfum fengið formlegar athugasemdir frá ESA út af þessu máli og ég held að 1. ágúst á síðasta ári hafi verið lokafrestur í þessu máli þannig að við því þarf að bregðast.

Nokkuð hefur verið rætt um málefni unglækna í þessu sambandi. Unglæknum hefur verið haldið utan við vinnuverndarlöggjöfina hingað til, þar sem ekki hefur verið samkomulag um breytingar á vinnufyrirkomulagi. Það var skipuð nefnd af heilbrigðisráðherra fyrir nokkrum árum til að skilgreina lækna í starfsnámi í skilningi vinnutímatilskipunarinnar. Sú skilgreining hefur legið fyrir frá árinu 2003 og mun samræmast efni tilskipunarinnar að mati heilbrigðisráðuneytisins.

Hins vegar hefur verið ágreiningur milli lækna og ráðuneytis um skilgreininguna. Langar vaktir, t.d. sólarhringsvaktir hafa tíðkast lengi, einkum hjá unglæknum. Unglæknar hafa tekið lengstu vaktirnar en sérfræðingar hafa reyndar einnig verið viljugir til þess að taka fleiri og lengri vaktir. En í hnotskurn snýst málið um hvaða þjónustu heilbrigðiskerfið vill veita og með hvaða kostnaði. Hér vegast á sjónarmið um skipulag vinnutíma, lágmarkshvíld og tekjur lækna. Væntanlega þarf einnig að taka tillit til þess að unglæknar fái næga starfsþjálfun; meiri vinnu, meiri þjálfun.

Ef dregið yrði úr vinnu unglækna þyrfti væntanlega að bæta við öðrum læknum sem gætu aukið kostnað heilbrigðiskerfisins ef halda ætti uppi sama þjónustustigi. Þetta mál snýst væntanlega líka um að læknar og stjórnendur heilbrigðisstofnana verða að sætta sig við það að fara eftir vinnutímalöggjöfinni, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þótt kerfið hafi reynst ágætlega áður fyrr hefur vinnuálag á heilbrigðisstofnunum aukist mikið og kröfur til starfsmanna eru miklar. Ef vinnutími er of langur eykst hættan á lakari þjónustu og mistökum.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég vekja athygli á því sem kemur fram í nefndaráliti allra nefndarmanna í utanríkismálanefnd í þessu máli. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Við meðferð málsins í nefndinni var einkum rætt um lækna í starfsnámi en ljóst er að vinnutími unglækna er oft og tíðum mjög langur sem kemur bæði niður á læknum og sjúklingum. Af þeim sökum telur nefndin brýnt að löggjafinn, stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins bregðist við og geri nauðsynlegar breytingar sem fyrst en tilskipunin virðist veita nokkurt svigrúm hvað nokkrar stéttir varðar, þar á meðal heilbrigðisstarfsmenn.“

Þessa athugasemd taldi utanríkismálanefnd rétt að láta koma fram í nefndaráliti.