131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Ferðamál.

678. mál
[12:07]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er til síðari umræðu tillaga til þingsályktunar um ferðamál. Hv. formaður samgöngunefndar, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, hefur greint frá nefndaráliti sem nefndin öll stendur að og sýnir að þessi tillaga er um margt góð svo langt sem hún nær.

Við fyrri umræðu nefndi ég að vinnan við þessa tillögu um ferðamál, um helstu sýn og markmið í ferðamálum, var um margt góð. Í henni tóku margir þátt. Fagaðilar, stjórnmálaflokkar og hinir ýmsu aðilar í samfélaginu sem láta sig ferðamál varða og koma beint að þeim, unnu við að skilgreina ákveðna grunnþætti ferðaþjónustunnar og markmið og sýn fyrir íslenska ferðaþjónustu. Þetta er í sjálfu sér tímamótavinna og alveg fyllilega tímabær því ferðaþjónustan er sá atvinnuvegur sem hefur vaxið hvað hraðast á síðustu árum. Hún hefur vaxið að meðaltali síðustu tvo áratugi um 6% á ári eða eitthvað nálægt því. Hún er að verða önnur til þriðja stærsta atvinnugrein landsins, mæld í fjölda starfa og eins í að skaffa útflutningstekjur. Hún er auk þess sú atvinnugrein sem er hvað ábatasömust fyrir þjóðarbúið, þ.e. innlend aðföng, laun og önnur aðföng, eru í miklum meiri hluta. Innflutt aðföng eru sáralítill hluti miðað við aðrar atvinnugreinar í útflutningsverðmætum ferðaþjónustunnar. Hún hefur því gríðarlega mikla sérstöðu og við hana eru bundnar miklar væntingar um eflingu og vöxt. Því er orðið svo rækilega tímabært að ætla ferðaþjónustunni eðlilegan og nauðsynlegan sess í atvinnulífi þjóðarinnar, í efnahagslífinu, við ráðstöfun á náttúruauðlindum og einnig þar sem hún útvegar fólki fjölbreytta vinnu sem krefst fjölbreyttrar þekkingar. Það er svo sannarlega tímabært að setja henni ramma eins og gert er með þessari þingsályktunartillögu.

Það er ánægjulegt fyrir okkur þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem leggjum áherslu á sjálfbæra nýtingu auðlindanna — við leggjum áherslu á ímynd landsins á grundvelli náttúru og menningar — að einmitt þetta atriði er haft númer eitt í þeirri ályktun sem hér liggur fyrir. Ég ætla aðeins fara yfir þá meginþætti sem lagðir eru til að móti umgjörð og framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu. Gert ráð fyrir að þessi þingsályktun spanni tímabilið frá 2006–2015 og að þar verði unnið út frá eftirgreindum markmiðum:

Í fyrsta lagi að náttúra Íslands, menning þjóðarinnar og fagmennska, auk sterkrar byggðar, verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála. Það er ánægjulegt að sjá að þetta er einmitt sett númer eitt. Ég mun í umfjöllun minni um þessa þingsályktunartillögu einmitt halda mig mjög við þessa þætti. Auk þess eru þarna talin upp eðlileg og sjálfsögð atriði eins og að tryggð verði samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar sem stuðli að hámarksafrakstri í greininni. Það er hárrétt áhersla. Í þriðja lagi á að jafna álagi vegna ferðaþjónustu á landið og íbúa þess og stefna að því að það verði innan þolmarka í samræmi við niðurstöður rannsókna. Þetta er heldur betur tímabært ákvæði um að skipulega eigi að jafna og dreifa álaginu vegna komu ferðamanna um landið og þá líka á hinn veginn að breikka framboð á eftirsóttum þáttum og skaffa atvinnu sem víðast um land. Þessi þáttur er því líka gríðarlega mikilvægur. Svo verður ímynd Íslands sem ferðamannastaðar byggð upp og varin.

Öll þessi atriði sem ég hef talið upp eru gríðarlega mikilvæg og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fögnum þeim áherslupunktum sem eru settir þarna fullkomlega í forgrunn við mótun framtíðarsýnar og áherslna í íslenskri ferðaþjónustu.

Frú forseti. Ég tel að eftir að þessi tillaga verður samþykkt, sem við leggjum eindregið til í sjálfu sér, þá verði næsta skrefið að vega þessa þætti inn í sameiginlega heildarstefnu ríkisins í atvinnumálum, í efnahagsmálum og í umhverfismálum því að staðreyndin er sú að nú er hrópleg þversögn á milli þessara áherslna, náttúru Íslands, menningar þjóðarinnar og samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar, við þá stefnu sem þessi ríkisstjórn rekur í atvinnumálum. Það er hrópleg þversögn þar á milli og verður þess vegna fróðlegt að sjá hvernig þessari ályktun um ferðamál reiðir af hjá þessari ríkisstjórn. Hver er staðan t.d. varðandi náttúru Íslands?

Fjöldamargir staðir sem hafa grundvallarþýðingu hvað varðar náttúruverðmæti, til að laða að ferðamenn og sýna, liggja undir þeim hamri að verða teknir frá til stórvirkjana. Þegar tveir aðilar keppast um að ná undirtökum eða njóta forgangs þá halda menn að sér höndum. Tökum sem dæmi að nú er tekist á um Langasjó. Langisjór og svæðið við vestanverðan Vatnajökul er ein af dýrustu náttúruperlum landsins. Þar eru náttúruperlur í seilingarfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu, frá þeim stað þar sem ferðamennirnir koma fyrst inn í landið og er þess vegna eitt af þeim svæðum sem kjörið væri til að byggja upp og búa undir að taka á móti ferðamönnum árið um kring. Áherslan á að taka Langasjó í forgang fyrir ferðaþjónustu er fyllilega í samræmi við þá þingsályktunartillögu sem hér er flutt, sem hæstv. samgönguráðherra hefur borið inn í þingið og við höfum til afgreiðslu.

Hins vegar er annar aðili jafnframt að vinna að því að taka þessi sömu náttúruverðmæti og setja þau í stórar vatnsaflsvirkjanir og framleiða rafmagn fyrir erlenda stóriðju, fyrir utan það að sú erlenda stóriðja sem hefur verið að byggjast upp virðist skapa afar lítinn þjóðhagslegan ábata miðað við þann kostnað sem lagður er í hana. En þarna er annar aðili að keppast um sömu grunnþættina og við ætlum að byggja okkar ferðaþjónustu á. Hver fer að byggja upp ferðaþjónustu, leggja í kostnað við markaðssetningu og annað á slíkum náttúruperlum þegar á hinn bóginn eru í ríkisstjórninni draumar um stóriðju á sömu svæðum? Það þýðir að þá treystir enginn sér til að leggja fjármagn í að skipuleggja neina aðra atvinnustarfsemi.

Sama má segja um Þjórsárver, sem eru ein af dýrustu náttúruperlum Íslands, sem tekist hefur verið á um. Stóriðjuráðherrarnir, álráðherrarnir, vilja fá Þjórsárverin til að virkja þau með Norðlingaölduveitu. En jafnframt eru Þjórsárverin, fyrir utan að vera ein af dýrustu náttúruperlum okkar sem ósnortið víðerni sem hefur gildi á heimsmælikvarða, hluti af ímynd náttúru Íslands sem við kynnum sem hornstein ferðaþjónustu okkar.

Í þessari þingsályktunartillögu er lögð áhersla á að náttúra Íslands sé hornsteinn íslenskrar ferðaþjónustu. Samtímis er keyrt á sömu mið til að eyðileggja náttúruverðmæti í þágu stórra vatnsaflsvirkjana og erlendrar stóriðju. Þarna stangast sjónarmiðin verulega á og í grundvallaratriðum. Eðlilega eru menn stopp og í flestum tilfellum verða þeir aðilar að lúffa sem vilja byggja upp ferðaþjónustuna á grundvelli náttúrunnar þannig að hér er heldur betur handleggur að taka til.

Hæstv. samgönguráðherra kemur með ágæta tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu í ferðamálum sem byggir á náttúru Íslands. Hæstv. iðnaðarráðherra og aðrir áliðnaðarráðherrar þessarar ríkisstjórnar keyra á sömu náttúru til að virkja hana og framleiða rafmagn fyrir erlenda stóriðju.

Hver þekkir ekki umræðuna um Dettifoss? Þar er tekist á um hvort virkja skuli þau fljót og þá er sagt: Það væri hægt að hleypa vatni á hann yfir ferðamannatímann. Frú forseti. Það er himinn og haf milli þeirra áherslna sem hér eru lagðar fram í ferðamálum og þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin í rekur í atvinnumálum, stefnunni gagnvart sömu náttúruauðlindum og hér er um að ræða.

Tökum t.d. umræðuna í Skagafirði. Þar er tekist á um hvort virkja eigi Héraðsvötnin, stífla jökulárnar í Skagafirði, í þágu erlendrar stóriðju. Jafnframt hafa þær sömu ár og sömu vötn í mörg ár myndað grunn fyrir þá ímynd sem Skagafjörður hefur mótað sér, unnið fyrir og markaðssett fyrir ferðaþjónustu, fyrir matvælaiðnað, fyrir menntun, fyrir háskólanám. Sú ímynd er orðin svo sterk að hún sjálf hefur orðið mikið markaðsgildi og er fullkomlega í samræmi við þær áherslur sem hæstv. samgönguráðherra leggur upp með í ferðamálum og öll samgöngunefnd Alþingis er sammála um að skuli vera númer eitt í uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi, þ.e. á náttúru Íslands. En svo kemur raunveruleikinn hjá ríkisstjórninni, að taka sömu vötn og nýtt hafa verið til ferðaþjónustu og ímyndarsköpunar, taka sömu vötn, stífla árnar, búa til stórar vatnsaflsvirkjanir og framleiða rafmagn fyrir erlenda stóriðju sem litlum ábata skilar en eyðileggur þá ímynd sem aðrar atvinnugreinar þarfnast.

Frú forseti. Það þarf heldur betur að taka til hendi. Ég hef spurt hæstv. samgönguráðherra hvort hann hafi í raun fengið stuðning innan ríkisstjórnarinnar við þessa þingsályktunartillögu. Eða er það kannski eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson var að ýja að, að þingsályktunartillögur sem þessar séu bara samþykktar upp á punt á Alþingi og síðan ekkert meira gert með þær? Síðan veður ríkisstjórnin áfram með allt aðrar áherslur. Hann nefndi dæmi um það. A.m.k. tel ég að í þessari góðu tillögu, þingsályktunartillögu um ferðamál, þar sem lögð er áhersla á náttúru Íslands, menningu þjóðarinnar, öfluga byggð og fagmennsku, sé náttúran númer eitt í uppbyggingu ferðaþjónustu. En í framkvæmd hjá ríkisstjórninni er raunveruleikinn allt annar. Það er gengið á sömu náttúruauðlindir og þær eyðilagðar í þágu stóriðjustefnu, álverksmiðja o.s.frv. Það er mikil nauðsyn að þetta verði skýrt ítarlega, hvaða stefna í raun ræður eða hvort við erum að samþykkja eitthvert puntplagg og síðan haldi ríkisstjórnin áfram með stóriðjustefnu sína.

Hvert er næsta atriðið sem hér er lögð áhersla á, frú forseti? Það er að tryggja samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar sem stuðli að hámarksafrakstri af greininni. Samkeppnishæfni — við spurðum um það í nefndinni hvort hægt væri að fá nánari skilgreiningar á samkeppnishæfninni, hvað væri átt við. Var þar horft á ýmsa þætti, bæði innlenda og erlenda þætti? Voru það aðstæður hér sem voru öðruvísi en erlendis sem skekktu samkeppnisstöðuna? Við því var ekki gott að fá svör.

Eitt vitum við þó. Í þeim fjölmörgu yfirlýsingum sem við höfum fengið frá Samtökum atvinnulífsins, frá Samtökum ferðaþjónustunnar og frá fjölmörgum atvinnugreinum kemur fram að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar, með þessu gríðarlega háa gengi sem m.a. er til komið vegna stóriðjuframkvæmdanna, er hvað hættulegust íslenskri ferðaþjónustu um þessar mundir. Bara fyrir skömmu var einmitt fjallað um ályktun frá aðilum í ferðaþjónustunni þar sem fram kom að vegna hás gengis krónunnar og lágs gengis á erlendum gjaldmiðlum stæði ferðaþjónustan frammi fyrir auknum vanda í sumar. Það hefur dregið úr pöntunum frá útlöndum vegna þess að gengið er svo óhagstætt, gengið sem er keyrt upp með stóriðjuframkvæmdunum, framkvæmdum sem ganga á sömu náttúruperlur og við erum að leggja til að notaðar verði til sjálfbærrar ferðaþjónustu. Í hinu efnahagslega tilliti, stefnu í atvinnumálum, gengur ríkisstjórnin þvert á hagsmuni ferðaþjónustunnar. Þar er önnur ástæða, frú forseti, til að krefja ríkisstjórnina svara um hvort hún ætli að breyta um stefnu. Við þingmenn Vinstri grænna viljum að stefnunni verði breytt, að farið verði af þessari stóriðjubraut. Þessi tillaga til þingsályktunar sem hér er til umfjöllunar og samgöngunefnd er sammála um að samþykkja gengur þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum og efnahagsmálum. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Það er ekki bæði hægt að keyra upp stóriðjustefnu og ætla líka að halda í sömu náttúruperlur, halda í fjölbreytt atvinnulíf. Það er ekki hægt. Annað hvort verður undan að láta og reyndin hefur verið sú að ferðaþjónustan og náttúruperlurnar hafa orðið undan að láta.

Ég minnist þess, frú forseti, að í ræðu hæstv. utanríkisráðherra um utanríkismál, sem hann flutti á föstudaginn, var eitt atriði sem laut að ferðamálum og að markaðssókn í ferðamálum erlendis. Hæstv. ráðherra lagði áherslu á að gera þyrfti átak í þeim efnum. Þar er ég sammála hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddssyni. Það þarf að gera átak í þeim efnum. En ríkisstjórnin er að gera þveröfugt. Með atvinnustefnu sinni er skrúfað upp hágengi og öðrum atvinnugreinum eins og ferðaþjónustunni rutt burt. Auk þess minnist ég þess frá síðustu fjárlögum að á þeim voru fjárframlög til markaðsmála í ferðaþjónustu erlends skorin niður um á annað hundrað milljóna kr. og þótti ekki úr mjög háum söðli að detta. Það eru áherslurnar í ferðamálum í raun, frú forseti. Mér er nær að óttast að þessi tillaga til þingsályktunar, ágæt tillaga um ferðamál, lúti þeim örlögum sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson gaf í skyn, að þetta væri bara puntplagg sem ekki væri talin nein ástæða fyrir stjórnvöld að standa við. Það er alvarlegt mál.

Í þessari tillögu til þingsályktunar er síðan farið í fleiri atriði, frú forseti. Það er minnst á að ferðaþjónustunni verði sköpuð rekstrarskilyrði sambærileg við rekstrarskilyrði í samkeppnislöndunum. Þetta er mjög góð stefnumörkun. Við spurðum að því í samgöngunefnd og óskuðum eftir að fá einhvern samanburð á samkeppni ferðaþjónustunnar hér og erlendis, hvort það væri mismunun í gjöldum af hálfu ríkisins, mismunun í skattlagningu, hvort það væri mismunun í grunnstoð. Við þekkjum það t.d. úr skipasmíðaiðnaðinum að í samkeppnislöndunum í kringum okkur er veittur þróunarstuðningur til skipasmíðaiðnaðar. Hann er bannaður hér, ekki heimill, hefur ekki verið heimill. Hver er munurinn á aðkomu ríkisins að uppbyggingu ferðaþjónustu í öðrum löndum? Við höfum ekki fengið svar við þessu. Þetta tel ég mjög mikilvægt. Það hefur svo litla þýðingu að setja orð á blað um að ferðaþjónustunni verði sköpuð rekstrarskilyrði sambærileg við rekstrarskilyrði í samkeppnislöndunum ef ekkert er síðan gert til að kanna hvort það sé mismunun, í hverju hún sé þá fólgin og hvað hægt sé að gera. Þetta tel ég að þurfi að gera, frú forseti, áður en við afgreiðum þessa tillögu endanlega. Annars er þetta hálfmarklaust.

Af hálfu nefndarinnar var einnig óskað eftir upplýsingum um framkvæmdaáætlun. Það var upplýst að þeir sem höfðu komið að efnisöflun fyrir þessa tillögu hefðu líka gert tillögu um framkvæmdaáætlun og kostnaðaráætlun. Við óskuðum eftir því að fá þessar tillögur nefndarinnar en þær hafa enn ekki borist. Tillaga án framkvæmdaáætlunar og án fjárhagsáætlunar er í sjálfu sér ósköp lítil virði, a.m.k. hvað varðar það þegar verið er að taka á svona atriðum eins og hér sem öll kosta peninga, sem öll krefjast forgangs umfram eitthvað annað. Ég tel mjög mikilvægt, frú forseti, að við fáum þessar skýrslur inn í umræðuna áður en við ljúkum þessu máli hér, skýrslur um tillögu nefndarinnar um framkvæmdaáætlun og tillögu nefndarinnar um fjárhagsáætlun. Mér skilst að hugmyndin sé að tillaga til þingsályktunar um ferðamál hafi hliðstæða stjórnsýslulega stöðu og tillaga um samgöngumál, langtímaáætlun í samgöngumálum. Tillaga um áætlun í samgöngumálum væri ansi lítils virði ef ekki fylgdi þar tímasett framkvæmdaáætlun og hvað hver þáttur kostaði. Mér finnst vanta með þessari tillögu bæði framkvæmdaáætlun og kostnaðaráætlun til að hún geti verið nægilega trúverðug og líka á einhvern hátt skuldbindandi fyrir Alþingi. Eins og hún er núna er hún bara falleg orð og yfirlýsingar, og gott með það, en engin atriði um framkvæmdir eða fjármál sem geta skuldbundið Alþingi til að fylgja þessari tillögu eftir.

Það er lögð áhersla á kynningarmálin og hvaða atriði skulu vera grunnþáttur í kynningu á íslenskri ferðaþjónustu. Það held ég að sé einmitt mjög mikilvægt, að ímynd Íslands út á við sem ferðamannalands verði á einhvern hátt samræmd. Við þekkjum það að einn sterkur aðili sem sker sig úr, velur eitthvert ákveðið atriði og kynnir á erlendum markaði getur bæði styrkt alla hina en getur líka skaðað þá. Ísland er ekki það stórt og við leggjum upp ákveðnar forsendur á hverju við byggjum ferðaþjónustu okkar. Kynningarstarfið á Íslandi erlendis er mjög mikilvægt, mikilvægt að það sé samhæft og enginn einn ætti að fá að skera sig úr og fara kannski að markaðssetja eitthvað sem kemur öðrum illa. Ég ætla ekki að nefna dæmi. Við þekkjum það úr umræðunni hér. Það hefur meira að segja verið rætt á þingi þar sem t.d. hefur verið gagnrýnt að stórir aðilar í ferðaþjónustu láti að því liggja að það væri einhver sérstök upplifun að kynnast íslenskum stúlkum eða kvenfólki í næturlífi Reykjavíkurborgar og að það væri sérstakt aðdráttarafl í ferðaþjónustu. Um það hefur verið deilt hvort þetta sé einhver máti til að kynna Ísland sem ferðamannaland. Ég tel ekki. Ég tel að það eigi ekki að vera þetta. Þetta sýnir bara hvað það er mikilvægt að einn aðili rjúfi sig ekki út úr þeirri heildarmynd sem við viljum að gerð sé hvað varðar íslenska ferðaþjónustu, enda er sett í lið númer eitt að fagmennska og gæði ráði för í kynningu og þróun á ferðaþjónustunni.

Í kynningarmálunum er því í þingsályktunartillögunni lögð áhersla á, með leyfi forseta:

„Áfram verði unnið að uppbyggingu ímyndar Íslands og hún varin með því að leggja áherslu á eftirfarandi þætti í kynningarstarfi ferðaþjónustunnar:

a. einstaka og fjölbreytta náttúru“ — sem er sett númer eitt í hver skuli vera hornsteinn í kynningarstarfi á íslenskri ferðaþjónustu. Einstök og fjölbreytt náttúra. Hvernig harmónerar þetta við stefnu ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum, í þeirri stefnu helst að stífla og eyðileggja flestöll stærri vatnsföll á Íslandi sem eru grunnþáttur í náttúru landsins?

Liður númer tvö er umhverfisvernd, liður númer tvö sem skal vera áhersluatriði í kynningarmálum er umhverfisvernd. Þetta er aldeilis nokkuð sem hæstv. ríkisstjórn þarf að fara að kynna sér því ekki hefur skilningur hennar á hugtakinu umhverfisvernd verið svo hátt uppi á pallborðinu á undanförnum árum, síður en svo. Ég held að hvaða skoðun sem menn hafa á ágæti stóriðjuframkvæmdanna og stórvirkjananna hæli fáir hæstv. ríkisstjórn fyrir áherslu í umhverfisvernd, ef það er þá nokkur. Að minnsta kosti er þar ekki nægilega vel á spilum haldið. Í þessari tillögu er sem sagt gert ráð fyrir að umhverfisvernd sé númer tvö, b-liður á eftir einstakri náttúru. Síðan koma önnur atriði, lögð áhersla á menninguna, þjóðina, fagmennskuna, gæði og öryggi, heilsu og hreinleika, gestrisni, myndræn auðkenni og slagorð sem byggja á þessu sem ég hef rakið.

Öll þessi atriði, frú forseti, eru svo fyllilega í samræmi við stefnu og áherslur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í ferðaþjónustu. Þess vegna fögnum við þeim áherslum sem hér eru dregnar fram og lagðar til grundvallar í uppbyggingu á íslenskri ferðaþjónustu en bendum aftur á að allar þessar áherslur eru nánast í beinni þversögn við áherslur ríkisstjórnarinnar sem hugsar um það eitt hversu hratt sé hægt að stífla íslensk vatnsföll og byggja þar stóriðju þó að sömu náttúruperlur séu grunnþættir fyrir uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu.

Nefndinni bárust allmargar umsagnir um þessa þingsályktunartillögu um ferðamál og það verður að segjast að almennt eru þær mjög jákvæðar, fagna framtakinu með þessari þingsályktunartillögu og að hafin sé svona afgerandi stefnumörkun fyrir uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu. Ég ætla hér á eftir að fara aðeins inn í nokkur þau atriði. Það sem kannski hefði þurft að vera í þingsályktunartillögunni væri að skilgreina betur hver ætti að vera grunnþáttur hins opinbera í uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu.

Ferðaþjónustan sem atvinnugrein er mjög ung borið saman við aðrar atvinnugreinar, tökum landbúnað, sjávarútveg og á vissan hátt margar iðngreinar. Ferðaþjónustan er ung og hefur alls ekki náð að byggja upp höfuðstól í fagþekkingu, rannsóknum eða mannvirkjum og slíku. Berum hana saman við sjávarútveginn sem er á áratugum búið að byggja upp af hálfu hins opinbera, byggja hafnir vítt og breitt um landið og eina stærstu rannsóknastofnun Íslands sem þjónar sjávarútveginum. Margs konar fagþekking hefur verið byggð upp í sjávarútveginum sem hann byggir grunn sinn á. Sama er í landbúnaðinum, áratugum saman hefur þar verið byggður upp samfélagslegur grunnur fyrir þessar atvinnugreinar sem þær byggja verkefni sín og störf á. Ferðaþjónustan hefur það ekki. Hún er ekki með neina stóra rannsókna- og þróunarstofnun að baki sér með áratugareynslu í uppbyggingu ferðaþjónustu. Hún er ekki með stofnbúnað eins og hafnir og aðra sterka samfélagslega þætti sem byggðir hafa verið upp. Þetta skortir hana þannig að ég tel að það hefði þurft að fara inn og segja: Hvað ætlar hið opinbera að gera, ríki og sveitarfélög? Hvað verða þau að gera? Það eru ákveðnir grunnþættir. Það er minnst á markaðsstarfið, sameiginlegt markaðsstarf fyrir allt Ísland. Það finnst mér eiga að vera að stórum hluta á ábyrgð hins opinbera meðan verið er að vinna þessa grein upp í að verða rekstrarlega sjálfbær eins og aðrar atvinnugreinar.

Smátt og smátt hafa upplýsingamiðstöðvarnar byggst upp um landið, þó allt of hægt. Það er skorið svo við nögl, það fjármagn sem væri eðlilegt að þessar upplýsingamiðstöðvar fengju, upplýsingamiðstöðvar sem reknar væru á ábyrgð hins opinbera og fjármagnaðar af ríki og sveitarfélögum sem miðluðu upplýsingum til allra jafnt. Ég held að það sé eitt af þeim lykilatriðum sem hið opinbera þarf að gera í íslenskri ferðaþjónustu. Þetta hefur gengið allt of hægt og hér duga engin góð orð. Þarna þarf fyrst og fremst fjármagn, og fjármagn til ferðaþjónustunnar hefur verið af svo nánasarlega skornum skammti á undanförnum árum miðað við stærð og mikilvægi greinarinnar að það er ekki vansalaust. Einmitt uppbygging á upplýsingamiðstöðvum vítt og breitt um landið er grunnatriði. Ég tel að það hefði átt að nefna í þingsályktunartillögunni hvar meginatriðin væru þar sem hið opinbera ætti að koma inn. Hið opinbera á ekki að koma inn í að reka hótel eða greiðastaði en það verður að skapa grunn til að hægt sé að reka hótel á viðkomandi stað.

Hið sama er t.d. um að búa út staði til að taka á móti fólki. Það er talið að innan tíu ára geti erlendir ferðamenn hér orðið 1 milljón. Það gerist ekki af sjálfu sér að búa landið undir að taka á móti þessu fólki. Ég hefði viljað sjá í þessari þingsályktunartillögu formlega áherslu af hálfu ríkisins, þ.e. hins opinbera, átak í að búa landið undir að taka á móti þessu fólki, búa út staði sem væru eftirsóknarverðir á sviði náttúru og menningar eins og lögð er áhersla á og nefnt í þessari þingsályktunartillögu. Það er ekki nóg að nefna það og segja það, heldur verður líka að gera það og það gerist ekki nema með fjármagni. Það gerist ekki nema með því að maður vilji gera það. Og þennan framkvæmdavilja vantar í þingsályktunartillöguna.

Meginhluti ferðamannaþjónustunnar á sér stað í kringum höfuðborgarsvæðið. Líklega er ferðaþjónustan einn stærsti atvinnuvegur á Reykjavíkursvæðinu, einstæður atvinnuvegur, en það er ekki nóg. Ég held að hið opinbera verði að hjálpa til við að stýra ferðamennskunni út um land til skilgreindra viðfangsefna í náttúru og menningu. Ekki fara að reka hótel en skapa grunninn og styðja við markaðsstarfið.

Um áramótin kom hópur af rússneskum ferðamönnum, sem ég kynntist af tilviljun. Þeir voru vel auðugir og vildu eiga góða daga í viku til tíu daga. Það skipti ekki meginmáli hvað það kostaði en þeir vildu fá að upplifa ákveðna dagskrá sem hafði verið sett upp. Norðurljósin, fara á hestbak, í Bláa lónið og Gullfoss og Geysi og ýmislegt sérstakt í sambandi við mat.

Fyrir utan Reykjavíkursvæðið voru öll hin atriðin sótt fyrir austan fjall. Það er alveg sjálfsagt að byggja upp góða ferðaþjónustu fyrir austan fjall en á þessum tíu dögum fór hópurinn í sex daga austur fyrir fjall, fór að Gullfossi og Geysi og á Þingvöll. Þar var farið á hestbak, leitað að norðurljósunum og borðaður einhver sérstakur matur. Hellisheiðin var því aðalferðamannaleið þessa fólks. Það fór hana tólf eða fjórtán sinnum. Engum datt í hug í skipulaginu að hægt væri að fara á Akranes, í Borgarnes eða í Reykholt. Fara á hestbak í Borgarfirði t.d. Nei, þetta var allt skipulagt með þeim hætti að farið var tólf eða fjórtán sinnum yfir Hellisheiðina, gott og vel, til að sækja þessi afmörkuðu atriði í prógramminu.

Þetta er gott og blessað, en við byggjum ekki alla ferðaþjónustuna okkar upp með þessum hætti. Þess vegna verður ríkið að koma inn í þessa grunnþætti skipulags ferðamála og aðstoða við að stýra ferðaþjónustunni, líka til að nýta mannvirkin og vegina. Í þingsályktunartillögunni er hvergi komið inn á með neinum afgerandi hætti hvernig ríkið ætlar að koma og mynda þennan grunn fyrir ferðaþjónustuna í landinu. Það segir okkur að þingsályktunartillagan er ekki nógu vel undirbyggð og treyst. Það eru falleg orð á blaði um stefnumörkun, sem ég hef hælt, en aftur á móti er lítið farið út í framkvæmdina.

Ég vil aðeins í þessu sambandi minnast á vegamálin. Í vegamálum höfum við vegáætlun. Það er gerð langtímaáætlun í vegamálum og skammtímaáætlun til tveggja og fjögurra ára. Það er sett niður hvaða vegi á að takast á við á næstu tveimur árum, fjórum árum og í tíu ára áætlun og jafnframt áætlað hvað hver kafli kostar. Síðan er líka gerð áætlun um hversu miklu fjármagni er ætlað að verja í vegáætlun. Þetta eru góð vinnubrögð og ég hefði viljað sjá hliðstæð vinnubrögð hvað varðar ferðamál, að við gerðum áætlun um ferðamál til tíu ára, eins og hér er lagt til, og síðan yrði gerð önnur skemmri áætlun til tveggja eða fjögurra ára þar sem nefnd yrðu þau atriði sem hið opinbera ætlaði að beita sér fyrir, tímasett, og fjármagnið sem væri varið til þeirra. Með slíkum vinnubrögðum kæmumst við á einhvern vinnuhæfan grunn í einum stærsta atvinnuvegi þjóðarinnar.

Hvað sem um vegáætlun má segja er hún þó grunnur til að vinna á, þó svo að við lendum stöðugt í því að ríkisstjórnin skeri niður fjármagn til vegamála, niðurskurður á sl. ári var tæpir 2 milljarðar og aftur var 2 milljarða niðurskurður á þessu ári og aðrir 2 milljarðar á næsta ári. Það er því 6 milljarða niðurskurður í vegamálum á þriggja ára tímabili, sem sýnir kannski forgangsröðun og áherslur núverandi ríkisstjórnar því fátt er mikilvægara í ferðamálum en einmitt vegirnir. Það er eiginlega dapurt að horfa á þessa þversögn, annars vegar er falleg tillaga til þingsályktunar um ferðamál, staðreyndin að ferðamál og ferðaþjónusta eru að verða einn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar og sá sem skilar hvað mestum nettógjaldeyristekjum til þjóðarbúsins sem byggir á því að nýta landið allt, náttúruperlur þess, vegina, gestrisnina og allt sem landið og þjóðin hafa upp á að bjóða, og ekki hvað síst vegina.

Þá velur ríkisstjórnin að skera niður framlag til vegamála. Það er ekki aðeins skorið niður framlag til stofnveganna, til þjóðveganna, til þjóðvegar eitt, heldur er líka fjármagnið til byggðaveganna, héraðsveganna, safn- og tengiveganna skorið niður, þeirra vega sem liðast inn til dala og út til stranda og eru einmitt líka einn af hornsteinum fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu úti um allt land. Sveitavegirnir sem liggja inn til dalanna, út til strandanna eru að sjálfsögðu þeir vegir sem það fólk sem þar býr verður að nota daglega til að stunda vinnu, til að koma börnum í skóla og gæði þeirra ráða miklu um búsetuhæfni staðanna. En vegirnir eru líka grundvöllur fyrir uppbyggingu fjölbreyttrar ferðaþjónustu á þessum landsvæðum. Það sýnir hug ríkisstjórnarinnar til ferðamála að einmitt þessir vegir eru líka skornir niður, það litla fjármagn sem er til safn- og tengiveganna er skorið niður og þar með líka skertir möguleikar á eflingu og þróun ferðaþjónustunnar á þeim svæðum.

Frú forseti. Ég hef einmitt lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um að safn- og tengivegirnir, héraðsvegirnir fái sérstakt aukið fjármagn til að mæta kröfunum. Þeir hafa dregist aftur úr á undanförnum árum, setið eftir í áherslum í vegamálum. Ég hef því lagt þunga áherslu á það í umræðunni um samgöngumál að veitt verði sérstakt fjármagn til þess að byggja upp safn- og tengivegina til sveita. Ekki aðeins til að styrkja og efla þá byggð sem þar er fyrir fólk sem er að sækja vinnu, aka börnum í skóla langan veg, heldur einnig til þess að treysta ferðaþjónustuna á þeim svæðum. Þessir slæmu malarvegir, illa uppbornir, þar sem þyrlast upp ryk, holóttir og gegnblautir í rigningu er ekki fyrir ferðamenn, ég tala ekki um erlenda ferðamenn og reyndar ferðafólk til þess að keyra þessa vegi svo viðunandi sé, fjarri því. Það er slysahætta og hvorki bílar eru búnir til að keyra á þessum vegum né fólk vant að keyra á þeim og engin sérstök sæld að keyra í sumarfríinu sínu úti um land í þéttum rykmekki eða í blautum og forugum vegunum eins og raunin er allt of víða.

Þess vegna hef ég lagt áherslu á það við afgreiðslu vegamála og er vel til fallið að taka það í áhersluna um ferðamál að gert verði átak í uppbyggingu á þessum sveitavegum, þessum safn- og tengivegum, þessum innanhéraðsvegum sem hafa dregist mjög aftur úr bæði í viðhaldi og uppbyggingu á síðustu árum en gegna lykilhlutverki fyrir vöxt, viðgang atvinnulífs og búsetu og ekki síst ferðaþjónustu á þessum stöðum. En ríkisstjórnin velur að skera niður framkvæmdir til vegamála og það er framlag þeirra til ferðamála.

Frú forseti. Ýmsum öðrum atriðum hefði verið hægt að koma að, eins og stefnu varðandi hálendið, varðandi ferðamennsku á hálendinu, varðandi vörslu og leiðsögn um mestu náttúruperlur landsins. Þar höfum við verið að byggja upp kunnáttumenn, menntaða leiðsögumenn sem hafa færni og kunnáttu til þess að taka að sér leiðsögn á héraðsvísu, á landsvísu um hálendið. Við höfum landverði og skálaverði. (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti vill spyrja hv. þingmann hvort hann sé að ljúka ræðu sinni vegna þess að til stendur að gera hlé á þingfundi klukkan eitt.)

Ég þigg, frú forseti, að gera hlé á ræðu minni og halda áfram síðar.

(Forseti (SP): Forseti telur að hægt sé að veita nokkrar mínútur ef það dugar hv. þingmanni.)

Frú forseti. Ég held að við tökum bara matarhlé. Ég á eftir um korter af ræðu minni.