131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Ferðamál.

678. mál
[17:05]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um ferðamál. Hún hefur verið hér rædd í dag, en eins og fram hefur komið er þetta í fyrsta sinn sem sá háttur er hafður á að leggja fram samræmd markmið í ferðamálum og á áætlunin að ná frá árinu 2006–2015 og verið er að vinna í anda þess sem hefur verið unnið í samgönguráðuneytinu. Þar er lögð fram samræmd samgönguáætlun þar sem allir þræðir samgöngunetsins koma saman í einni heildaráætlun og er það gott. Því er mjög ánægjulegt að þessi þingsályktunartillaga skuli vera komin fram. Ég vil þakka fyrir alla þá vinnu sem liggur að baki því hún er mikil og nær til margra ára og hafa mjög margir komið að málum. Þingsályktunartillagan byggir á rannsóknum, skýrslum og úttektum þannig að í þessu liggur mikil vinna og í raun liggur mikill metnaður hér að baki.

Ég tel að til þess að uppfylla þau markmið sem hér eru lögð fram og standa undir þeim metnaði sem birtist í þessari þingsályktunartillögu hefði verið heppilegt að tengja saman samgönguáætlun og þessa áætlun í ferðamálum með einhverjum hætti þannig að það væri sýnilegra í ferðaáætluninni hvernig uppbygging ferðaþjónustunnar um hinar dreifðu byggðir megi ganga eftir með tilliti til framkvæmdar vegáætlunarinnar. Eins og við höfum margrætt í þessum sal þá erum við núna að vinna að samgönguáætlun og þar með vegáætlun. Það er verið að draga úr framkvæmdafé vegáætlunar og sá niðurskurður næstu tvö árin kemur ekki síst niður á þeim stöðum sem við teljum að þurfi aukið fjármagn til vegaframkvæmda til að geta svo byggt upp ferðaþjónustu.

Það er líka mjög ámælisvert að með þessari markmiðsáætlun skuli ekki vera settar skýrari tímasetningar heldur opnar eins og hér til 2015. Áætlunin er ekki sett niður í þrengri tímaramma og það heldur ekki getið um þá sem eiga að fylgja eftir ákveðnum þáttum eða vera ábyrgir fyrir því að ákveðin markmið gangi upp sem hér eru nefnd. Ég lít því svo á að þetta sé í raun frumraun, þ.e. að samþætta marga þætti ferðaþjónustunnar sem samgönguráðuneytið og samgönguráðherra bera ábyrgð á og það hljóti því að vera síðari tíma mál að vinna þetta frekar, þ.e. ef við ætlum að taka mark á þingsályktunartillögu sem þessari. Í mínum huga er alveg ljóst að ef þingsályktunartillaga er samþykkt á hinu háa Alþingi þá er það ríkisstjórnarinnar að framfylgja henni og hún stendur þar til annað verður ákveðið á Alþingi, annaðhvort með nýrri þingsályktunartillögu eða breytingum á viðkomandi áætlun. Því stenst ekki að segja að þingsályktunartillögur séu ómarktækar, að ef kosningar verði á milli sé ekki mark takandi á samþykktum fyrri þinga. Samkvæmt því eru þingsályktunartillögur marklausar. En það er ekki svo, herra forseti, því sem Alþingi samþykkir á ekki að breyta nema ástæða þyki til og þá með breytingum m.a. með þingsályktunartillögum sem afgreiddar eru á hinu háa Alþingi. Það er mikilvægt þegar lagt er í jafnmikla vinnu og þessa að hugur fylgi máli og að tillagan sé þá þannig úr garði gerð að virkilega sé hægt að vinna eftir henni. Það er ekki nóg að vinna að markmiðssetningum. Þær verða líka að geta staðist og mega ekki stangast á við önnur markmið.

Nú hefur núverandi ríkisstjórn haft mjög ákveðin markmið hvað varðar stóriðju og uppbyggingu stóriðju í landinu og markmiðssetning þessarar þingsályktunartillögu stangast í mörgum atriðum á við markmið hæstv. ríkisstjórnar. Það fer ekki saman að byggja upp ferðaþjónustu til að varðveita einstaka og fjölbreytta náttúru og stuðla að umhverfisvernd sem byggir á vitund um menningu og þjóðina o.s.frv. ef stóriðjustefnunni linnir ekki og það hið allra fyrsta.

Stóriðjustefnan hefur þegar haft hamlandi áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustunnar á ákveðnum svæðum á landinu og það eru þau svæði sem tekist er á um í dag varðandi nýtingu vatnasvæða. Má nefna þar Skagafjörð og eins uppsveitir Suðurlands þar sem menn horfa til þess að beina ferðamönnum inn að Langasjó og á miðhálendið. En þeir geta ekki framkvæmt slík markmið eða markaðssett slíkar ferðir vegna þess að uppi eru áform um að nota Langasjó, svo ég nefni dæmi, sem miðlunarlón. Frekari áhersla á stóriðju og uppbygging ferðaþjónustu fer því ekki saman á mörgum sviðum. En þetta varðar ekki bara ákveðin svæði heldur gengur stóriðjustefnan þvert á uppbyggingu sjálfbærrar ferðaþjónustu og sjálfbærrar atvinnustefnu. Ég nefni Miðausturland þar sem miklar framkvæmdir eru í gangi núna bæði vegna Kárahnjúkavirkjunar og eins vegna byggingu álvers á Reyðarfirði. Þessi umsvif hafa nú þegar haft neikvæð áhrif á jaðarsvæðin fyrir austan. Þar hefur fólki fækkað. Því er mjög mikilvægt að styrkja jaðarsvæði stórframkvæmdanna á Austurlandi nú þegar með tilliti til ferðaþjónustu inn á þau svæði. Heimamenn hafa þar margt í huga en hafa ekki bolmagn til að hrinda í framkvæmd. Því er mjög mikilvægt að horfa til þessara svæða að þessari þingsályktunartillögu samþykktri. Ég geri fastlega ráð fyrir að við samþykkjum hana á þessu þingi og þá er mikilvægt að horfa til þessara svæða sem standa svo veik í dag.

Ferðaþjónustan er orðin ein mikilvægasta atvinnugreinin í landinu. Þetta er mikil vaxtargrein og kemur inn á mjög mörg svið atvinnulífsins. Ef við horfum á spá um fjölgun ferðamanna er því spáð að innan fárra ára megum við búast við einni milljón ferðamanna á ári. En þetta er ung atvinnugrein á mörgum sviðum og hún hefur ekki að fullu komið undir sig fótunum. Ef við horfum til hinna dreifðu byggða þar sem ferðaþjónustan er að ná fótfestu er bændagisting að byggjast upp og ýmis þjónusta sem ekki hefur verið þar til staðar sem er sérstaklega ætluð og höfðar til ferðamanna. Við verðum að gefa þessari atvinnugrein lengri tíma til að sanna sig áður en við beitum úrtöluröddum og látum það heyrast eins og í dag að það sé ekkert á ferðaþjónustunni að byggja, hún standi völtum fótum, lág laun og láglaunastörf séu í slíkri þjónustu og þess vegna verðum við að horfa frekar til annarra þátta en til ferðaþjónustunnar. Ég tel það vissulega eðlilegt að til að byrja með meðan menn eru að fjárfesta og koma sér af stað megi ekki allir búast við háum launum en ferðaþjónusta gefi vonandi góðar og eðlilegar tekjur þegar frá líður og sérstaklega þegar vel er staðið að atvinnugreininni af hinu opinbera.

Þessi þjónusta er einna styrkust á höfuðborgarsvæðinu og á nokkrum þéttbýliskjörnum úti um land þar sem ferðamenn hafa verið hvað fjölmennastir og kemur það til af staðsetningu millilandaflugs á flugvellinum í Keflavík og hóteluppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu og síðan þeirri þjónustu sem veitt er héðan af höfuðborgarsvæðinu. Eins nefni ég Akureyri, að þeir aðilar sem hafa stundað þessa þjónustu hvað helst hafa eðlilega haldið sig innan svæðisins. En nú er komið að þeim tímapunkti að samþjöppunin er orðin of mikil í dag, of mikið álag er á ákveðna ferðamannastaði eða vinsæla staði, náttúruperlur eins og Gullfoss og Geysi, og eins er orðin mikil örtröð á fáa staði sem veita þjónustu fyrir ferðamenn. Það er því mikilvægt að dreifa enn frekar leiðum ferðamanna um landið. Það styrkir byggðina og stuðlar að sjálfbærri þróun bæði atvinnugreinarinnar og byggðanna. Því er mikilvægt að hið opinbera, og þá vísa ég til hæstv. samgönguráðherra, styrki vel og styðji við þá tilraun sem er að fara í gang með beint millilandaflug milli Kaupmannahafnar og Egilsstaða sem verður vikulega nú í sumar og er áætlað á hálfs mánaðar fresti næsta vetur, því það skiptir máli fyrir landið allt að ferðamenn dreifist um það og möguleiki sé til að byggja upp frekari þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Eins og ég sagði áðan hefði verið æskilegt að innan samgönguráðuneytisins hefði verið tekið tillit til samgönguáætlunar og þetta tengt saman því að þegar við erum að tala um uppbyggingu á ferðaþjónustu, eins og verið er að gera á Norðausturlandi, hefur ferðaleiðin austan og vestan Jökulsár á Fjöllum og leiðin að Dettifossi verið vinsæll áningarstaður ferðamanna. Reynt hefur verið að byggja upp ferðaþjónustu á þessu svæði en þar hefði þurft að koma til verulegt fjármagn til að byggja upp vegina bæði austan og vestan megin Jökulsár þannig að hægt sé að fara með rútur upp að Dettifossi og svokallaðan demantshring því það þýðir lítið að tala um uppbyggingu ferðaþjónustunnar ef ekki er hægt að komast með ferðamennina um.

Þegar við tölum um dreifingu hafa flestir ferðamenn komið yfir sumartímann. Áhersla hefur verið lögð á að lengja ferðamannatímann og ég tel að við eigum mikla möguleika á að markaðssetja vetrarferðir hingað til lands og þá ekki síst til að skoða norðurljósin. Þau er helst hægt að skoða utan raflýsinga þannig að þar koma margir staðir til greina fyrir utan suðvesturhornið. Eins er eftirsóknarvert fyrir marga að kynnast íslenskri vetrarveðráttu og er spennandi valkostur miðað við t.d. sólarlandaferðir okkar Íslendinga. Það sem við sækjumst eftir er hugsanlega eitthvað sem þarlendir eru orðnir þreyttir á svona til langframa og finna tilbreytingu í því að leita í íslenska veðurfarið og veðráttuna.

Ekki má heldur gleyma fleiri samgöngutækjum sem koma til landsins því Norræna gengur hingað allt árið um kring. Það væri mjög æskilegt ef hægt væri að stuðla að frekari komu ferðamanna með Norrænu og uppbyggingu ferðaþjónustu í kringum hana.

Hæstv. forseti. Hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa farið vítt og breitt yfir þingsályktunartillöguna og komið með nokkrar ábendingar sem ég vona að verði teknar til greina þegar til nánustu framtíðar er litið því að þingsályktunartillagan er góð svo langt sem hún nær en til þess að hún verði markviss þarf að bæta um betur, þ.e. setja tímaáætlanir og fjármagn til greinarinnar. Ef við lítum á kannanir sem hafa verið gerðar vegna komu ferðamanna til landsins og þeir spurðir hvers vegna þeir hafi valið Ísland nefna flestir náttúruna og einstakt land og eins að Ísland er nýr valkostur hvað varðar aðgengi almennings því að fargjöld hafa lækkað og Ísland hefur verið markaðssett betur en áður þannig að áhugi erlendra ferðamanna hefur aukist á landinu. Ég tel að það sem flestir eru að sækjast eftir þessum þáttum, sem sé náttúru landsins, þá verðum við að varast að spilla þeirri ímynd sem við höfum í markaðssetningunni því að það yrði mjög fljótt holt undir markaðssetningunni ef upplifun ferðamannanna er önnur en lýst er og það mun þá koma fljótlega í bakseglin á ferðaþjónustunni.

En það er eitt sem við þurfum að hafa í huga varðandi framtíðarskipulagningu ferðaþjónustunnar og ferðamála hér á landi að það er mjög líklegt að við séum búin að ná hámarksolíuvinnslu í dag. Það er erfitt að finna fleiri stórar olíulindir. Því er spáð að olíuframleiðslan muni úr þessu fara minnkandi og því sé nauðsynlegt að leita að öðrum orkugjöfum. Við höfum treyst á komur erlendra ferðamanna með flugi og skipum og það munum við gera áfram. En það er mjög líklegt að ef og þegar kemur að því að bensín og olía hækka í verði muni það hafa áhrif á fjölda ferðamanna sem hingað koma, og hverjir það verða sem koma þegar ekki verður lengur um lággjaldafargjöld að ræða eins og er í dag og því muni markaðssetningin vera til annarra hópa en er í dag og vistvæn þjónusta, sjálfbær þróun og náttúruvernd verði því enn ofar á blaði hjá okkur í framtíðarskipulagningu ferðamála en við höfum áður sett fram. Ég vil benda hæstv. forseta á sem mér finnst vera mjög ámælisvert miðað við markaðssetninguna og áherslu á náttúruvernd í þessum meginmarkmiðum í ferðamálum næstu tíu árin, að hugtakið sjálfbær þróun kemur ekki fyrir í markmiðssetningunni en kemur fram í einum liðnum í greinargerð í fylgiskjali. Ég tel að til að standa undir væntingum og til að vera sjálfum okkur trú og mæta breyttri heimsmynd í raun þegar kemur að því að olíulindir heimsins minnki og ekki verði sama aðgengi að hráefninu eins og er í dag þá muni það alveg óhjákvæmilega hafa áhrif á ferðaþjónustuna hér á landi sem og annars staðar í heiminum. Þetta er spá sem er ekki það langt fram í tímann að mikilvægt er að taka tillit til þess þegar gerð er svona langtímaáætlun með þessari þingsályktunartillögu.