131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

667. mál
[17:44]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

Nefndin hefur fengið á sinn fund fulltrúa dómsmálaráðuneytisins ásamt Hallgrími Ásgeirssyni lögfræðingi sem tók þátt í að semja frumvarpið. Jafnframt komu á fund nefndarinnar fulltrúar Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja og Fjármálaeftirlitsins. Umsagnir bárust frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Fjármálaeftirlitinu.

Þessu frumvarpi er ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir í íslenskan rétt, en ákvörðun um að fella tilskipunina inn í XII. viðauka við EES-samninginn var tekin í sameiginlegu EES-nefndinni 9. júlí 2004.

Eins og getið er um í nefndarálitinu er markmið tilskipunarinnar að stuðla að opnari og hagkvæmari fjármagnsmörkuðum og stöðugleika fjármálakerfisins og efla þannig frelsi í þjónustu og fjármagnsflutningum á sameiginlega markaðnum fyrir fjármálaþjónustu.

Ég tel ekki ástæðu til að fara ítarlega yfir það nefndarálit sem hér liggur fyrir. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt og gerir einungis eina minni háttar orðalagsbreytingu sem finna má á þskj. 1224 þar sem lögð er til breyting við 2. gr. 9. tölul. frumvarpsins eins og þar segir. Með þeirri breytingu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt.