131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Fullnusta refsinga.

336. mál
[10:40]

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um fullnustu refsinga og nefndarálit því tengdu. Það er nú komið úr hv. allsherjarnefnd og í gær mælti formaður nefndarinnar fyrir nefndaráliti sem allir nefndarmenn allsherjarnefndar standa að. Ég tel rétt að fara aðeins yfir málið sérstaklega vegna þess að umræðu var frestað í gær og málið ekki klárað fyrir klukkan sjö.

Margir þekkja þetta frumvarp. Það á sér örlitla hrakfallasögu. Það var flutt hér fyrir tveimur þingum og fór inn í nefnd. Það var mikil gagnrýni á það og það var dregið til baka og fór aftur í vinnslu og það er kannski mesta gæfa þessa máls. Það er búið að vinna gríðarlega vel í hv. allsherjarnefnd að þessu máli. Tekið hefur verið mikið tillit til umsagna og ekki hvað síst tekið tillit til sjónarmiða fangelsismálastjóra þannig að þarna hefur farið fram mikil og góð fagleg vinna sem er alltaf af hinu góða í svona stórum málaflokki. Það er líka erfitt oft með svona málaflokk sem fjallar um okkar smæstu bræður og afar mikilvægt er að vel sé á málum haldið.

Við getum líka sagt sem svo um þau mál sem voru áður í reglugerðum og ekki sýnileg öðrum en þeim sem voru að vinna með þau að nú er það allt komið upp á borðið og málið afar gegnsætt og ætti að vera auðvelt að vinna eftir þeim lögum sem hér er verið að samþykkja.

Það er líka mjög ánægjulegt að fram er komin afar skýr og ákveðin framtíðarsýn í fangelsismálum. Við getum sagt sem svo að lykilorðið sé betrun í stað refsingar og það er mikið fengið með því. Það verður líka að segjast eins og er að nýr fangelsismálastjóri hefur gríðarlegan metnað fyrir hönd þessa málaflokks.

Við erum með talsvert af breytingartillögum sem eru allar jákvæðar og í rauninni fyrst og fremst til þess að undirbyggja frumvarpið betur. Ég ætla að tæpa á nokkrum málum sem við erum með breytingartillögur við og ræddum sérstaklega í nefndinni, t.d. að vistun gæsluvarðhaldsfanga með afplánunarföngum sé afar óheppilegt fyrirkomulag. Þetta hefur líka með það að gera hvaða framtíðarsýn við sjáum í uppbyggingu fangelsanna. Mikið hefur verið talað um uppbyggingu fangelsis á Hólmsheiðinni. Það mál virðist núna vera komið í einhvern annan farveg, en samkvæmt Fangelsismálastofnun ríkisins hefur fangelsið á Hólmsheiðinni verið á óskalistanum og hvernig það síðan yrði byggt upp, með móttökudeildum, almennum deildum, afeitrunar- og meðferðardeild og sjúkradeild. Hins vegar heyrum við núna að ákveðnar umræður séu um það að kannski ætti að byggja meira upp á Litla-Hrauni og breyta þar innbyrðis. Við vitum að það á að loka fangelsinu í Kópavogi. Þá þarf að finna nýtt úrræði fyrir kvenfangana. Við vitum að það þarf að leggja Skólavörðustíginn niður. Það húsnæði er orðið gamalt og uppfyllir ekki nokkur skilyrði og líka samkvæmt nýjum hugmyndum um meðferðaráætlun og afeitrunar- og meðferðardeild þurfum við að sjá nýtt húsnæði varðandi það hvernig við tökum á því. Eins varðandi sjúkradeildina hafa verið hugmyndir uppi um að hafa sérstaka sjúkradeild fyrir sakhæfa geðsjúka fanga. Það er afar brýnt að við getum haft slík úrræði. En því miður tekur fullnusta refsinga auðvitað ekki á þessu máli en þetta er að sjálfsögðu inni í umræðunni. Ég vil taka undir eiginlega hvert orð hjá fangelsismálastjóra varðandi þessar hugmyndir. Við þekkjum það líka að fangelsið á Litla-Hrauni er fyrst og fremst öryggisfangelsi en þar á að gera núna ráð fyrir afeitrun og meðferð líka, sem er afar brýnt.

Það er margt praktískt sem þarf að skoða varðandi þá uppbyggingu. Ég og við öll í nefndinni teljum að taka þurfi á því máli og koma með heildartillögur. Kannski sjáum við það í komandi fjárlögum. Við ræddum einnig menntunarkröfur forstöðumanna fangelsanna. Við lögðum mikið upp úr því og nefnum það í nefndaráliti að séð verði til þess að þeir hafi sem besta menntun en jafnframt verði reynsla ekki hunsuð heldur komi hún líka sterklega inn.

Varðandi valdbeitingar, sem áður voru í reglugerð en eru núna komnar inn í lögin, þá eru þær núna taldar tæmandi. Það er afar mikilvægt að það sé algjörlega skýrt hvað má gera og hvað má ekki gera við fanga.

Við fögnum því nýmæli sem er í 7. gr. frumvarpsins, að við upphaf afplánunar skuli Fangelsismálastofnun í samvinnu við fangann gera meðferðar- og vistunaráætlun. Þetta er afar brýnt og verður endurskoðað eftir þörfum á meðan á afplánun stendur. Þetta er stórt framfaraskref. Þarna sjáum við í raun strax hugmyndafræðina um að betrun er lykilhugtakið, að við reynum að fá menn — þetta eru í 95% tilfella karlar — a.m.k. ekki verr stadda út úr fangelsinu en þegar þeir fóru inn.

Það var auðvitað talsvert rætt um heilbrigðisþjónustuna í fangelsunum en lög um heilbrigðisþjónustu þurfa í raun að taka sérstaklega á þessu. Við fullnustu refsingu er veitt almenn heilbrigðisþjónusta. En það er t.d. afar brýnt með alla sértæka þjónustu að hún sé mjög skýr og góð samvinna sé milli fangelsanna við þau sjúkrahús sem eru í grennd við þau. Við vitum vel að það er gott samkomulag við sjúkrahúsið á Suðurlandi og eins varðandi Sogn. Þetta þyrfti að vera skýrara en kannski er erfitt að kveða á um það í þessum lögum. Það þyrfti að kveða á um það í lögum um heilbrigðisþjónustu.

Tannlæknamál voru mikið rædd og hnykkt er á þeim málum í álitinu, varðandi tannlæknaþjónustu við fanga. Þeir fá í hæsta lagi greiddar 30 þús. kr. á ári, sem er afar lítið. Tannheilsa þessa hóps er mjög slæm þegar í fangelsið er komið og mjög brýnt að taka á því. Því er einnig beint til heilbrigðisráðherra, að tryggja þurfi eftir föngum nauðsynlega tannlæknaþjónustu á meðan á vistunartímanum stendur. Á árum áður gengu oft sveitarfélög og félagsþjónusta sveitarfélaga í einstaka mál, þ.e. ef fólk var illa statt í þessum málum. En nú er því ekki að fagna. Það er búið að loka fyrir allt slíkt í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Það þarf að taka sérstaklega á því í lögum um almannatryggingar. Mér datt í hug að í tengslum við mál sem nú er til umræðu í heilbrigðisnefnd, um tannlæknaþjónustu fyrir 67 ára og eldri, hefðum við í raun átt að skjóta stoðum undir tannlæknaþjónustu við fanga. Heilbrigðisnefnd mundi síðan kannski hafa frumkvæðið að því þar sem talsvert er af sama fólki í heilbrigðisnefnd og í allsherjarnefnd. Það er afleitt að þetta skuli vera svona. Við þurfum að gera eitthvað í þessu. Þetta eru kannski ekki lögin til þess að taka á því en við vildum hnykkja á þessu.

Í 39. gr. laganna er fjallað um útiveru og tómstundir. Við erum með breytingartillögu um að hækka útivistartímann í eina og hálfa klukkustund úr einni. Þetta er að vísu bara lágmarkið sem talað er um. Það er mikill vilji fyrir því að sá tími verði aukinn í eins ríkum mæli og hægt er að koma við á hverjum stað. Að sjálfsögðu er útivistartími meiri á Kvíabryggju enda aðstaðan önnur. Aðstaðan á Litla-Hrauni er ekki jafngóð hvað varðar eftirlit en þetta hefur fyrst og fremst með það að gera að vera með eftirlit á útivistarsvæðum. Með ákveðnum vilja á að vera hægt að breyta ýmsu þarna og það er mikill vilji fyrir því í Fangelsismálastofnun. Þarna er einungis kveðið á um lágmarkið.

Í breytingartillögunum áréttum við rétt fangavarða til bóta og jöfnum stöðu þeirra við stöðu lögreglumanna sem skaðast við störf.

Við leggjum einnig til breytingu á 12. gr., sem er afar mikilvæg. Þegar fangar hafa lagst inn á sjúkrahús þá hefur það í raun lengt fangavistina, þ.e. sá tími sem viðkomandi fangi var á sjúkrahúsi bættist alltaf aftan við. Með breytingunni mun svo ekki verða og er það mjög til bóta fyrir viðkomandi einstakling.

Við leggjum til að í upphafi afplánunar skuli læknir skoða fanga, sem er í takt við þær nýju evrópsku fangelsisreglur sem við eigum von á núna í lok ársins. Það má segja að þetta frumvarp taki örlítið mið af því þannig að ekki þurfi að koma með breytingar á því eftir að það frumvarp kemur fram, frumvarp um evrópskar fangelsisreglur. Við höfum því líka reynt að vera dugleg að sjá fram í tímann.

Í nefndinni var mikið rætt um samfélagsþjónustuna. Þeir þingmenn sem hér eru í salnum þekkja umræðuna um að samfélagsþjónustan eigi að vera hluti af refsivörslukerfinu þannig að það sé dómstólanna að velja hvort menn séu dæmdir í fangelsi eða í samfélagsþjónustu. Við höfum hins vegar haft þennan hátt á og í raun má sjá að samfélagsþjónustan er liður í úrræðum fangelsanna. Það var ákveðið að snúa ekki til baka með það heldur hafa samfélagsþjónustuna áfram á könnu Fangelsismálastofnunar, þannig að unnið sé innan fangelsanna með það hverjir fari í samfélagsþjónustuna. Þetta fer líka eftir því hversu miklir dómar hvíla á hverjum einstaklingi en nefndin beinir þeim eindregnu tilmælum til dómsmálaráðuneytisins að gerð verði úttekt á þessum málum sem allra fyrst, að á meðan úttektin er gerð á samfélagsþjónustukerfinu verði ekki um neina útvíkkun að ræða. En við ræddum um í nefndinni hvort samfélagsþjónusta gæti staðið í níu mánuði í stað sex. Við ákváðum að víkka það ekki frekar á meðan úttektin hefur ekki verið gerð.

Það er líka búið að setja inn að menn geti verið í viðtalsmeðferð í samfélagsþjónustunni. Það er mjög jákvætt nýmæli og er ætlað til þess auka möguleikana á að fólk komi sterkara út.

Einnig var mikið rætt um heimsóknir og heimsóknarbönn. Við höfum lagað þau mál talsvert og haft til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis. Það þarf að vera rökstuddur grunur sem gera þarf grein fyrir ef banna á einstaklingum að koma í heimsókn í fangelsi eða hafa heimsóknir þannig að ekki sé um snertingu að ræða.

Varðandi erlenda fanga og túlkaþjónustu þá er afar brýnt að setja slík ákvæði inn. Það fjölgar í þeim hóp fanga, bæði vegna burðardýra og annarra þátta. Nefndin hvetur til þess að þar verði kallaðir til túlkar eftir þörfum og ekki sparað í þeim efnum.

Það er líka rætt um það, varðandi leit í klefa, að fangi sé að jafnaði viðstaddur þegar leitin fer fram. Það er líka mjög mikilvægt og mun eflaust líka koma inn í evrópsku lögin um fangelsi og fangavist.

Við erum búin að stytta einangrunina. Hún var áður 30 daga en við höfum fært hana niður í 15 daga. 15 dagar eru mjög langur tími í einangrun.

Við erum líka búin að fella niður notkun á fót- og handjárnum í öryggisklefa. Það er ekki talin nauðsyn á því þannig að hér er um verulega rýmkun að ræða.

Nefndin fjallaði talsvert um reynslulausnina og gerði breytingu á því að í 4. mgr. 53. gr. kemur fram að synja megi fanga um reynslulausn á þeim forsendum að hann hafi ekki vísan samastað eða að vinna eða önnur kjör nægi honum ekki til framfærslu. Við teljum ekki rétt að synja fanga um reynslulausn á þessum grundvelli. Þar verður að koma til samstarf félagsmálayfirvalda og fangelsismálastofnana. Það er afar brýnt. Við getum ekki haldið fólki lengur í fangelsi en þurfa þykir vegna erfiðra félagslegra aðstæðna. Þannig er mjög brýnt að þetta sé áréttað og við áréttum það í nefndarálitinu.

Ég hef nú gert grein fyrir því helsta í breytingartillögum okkar. Þær eru margar og ég ráðlegg þingmönnum að fara vel yfir greinargerðina. Nefndin lagði mikla og góða vinnu í málið. Við höfum, eins og fram kemur í nefndarálitinu, fengið marga gesti og farið á fundi. Þessi nefnd hefur farið á Litla-Hraun þannig að í raun var auðvelt að ræða málin í samhengi í því umhverfi sem málið snýst um. Þar þarf að taka til hendinni og þótt þetta mál taki ekki til þess þá er afar brýnt, eins og ég nefndi hér í upphafi máls míns sem tengist fjárlögunum, að skoða vandlega uppbyggingu fangelsanna og hvað við sjáum fram á í þeim efnum. Það er afar brýnt þegar um er að ræða löggjöf sem tekur mjög heildstætt og mjög málefnalega á stöðu þessa viðkvæma hóps.

Ég árétta það og vil hvetja fjárlaganefndarmenn sem hér sitja og eins hæstv. dómsmálaráðherra til að sjá til að fram verði sett áætlun varðandi heildaruppbyggingu í fangelsismálum. Ég fyrir mína parta vil sjá fleiri úrræði eins og Kvíabryggju eða þannig umhverfi. Ég tel að það væri hollara öllum að vera í slíku umhverfi en í öryggisfangelsi ef því verður við komið. Ég er þeirrar skoðunar að of margir séu í öryggisfangelsi sem gætu verið í opnara fangelsi.

Eins þarf að tryggja betri aðgang að námi og vinnu í meðferðaráætlunum. Þar með ættum við möguleika á að móta heildstæða stefnu um að fá einstaklingana betri út en þegar þeir fóru inn. Þetta á auðvitað ekki við um alla einstaklinga, þetta er þannig hópur, en margir ættu að eiga þá möguleika og ég vil meina að það geti gert gæfumuninn í samfélagi okkar. Það er afar ánægjulegt að til starfa sé kominn fangelsismálastjóri með sterka sýn á málaflokknum og mikla réttlætiskennd gagnvart þeim viðkvæma hópi sem hér er um fjallað. Því ber að fagna.

En hvað varðar fullnustuna þá er ekki ágreiningur um þetta með uppbygginguna, það er eitthvað sem við verðum að taka á í fjárlögum og fá frá dómsmálaráðuneytinu. Síðan þarf að breyta heilbrigðislögum varðandi þjónustu við fanga, bæði hvað varðar sérþjónustuna og tannlæknaþjónustu. Það á ekki við í þessu máli en við áréttum samt í nefndaráliti okkar hve brýnt það er.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara nánar út í þetta. Eins og fram hefur komið undirrituðum við öll, allir nefndarmenn, nefndarálitið út frá framtíðarsýn okkar með betrun í stað refsinga að leiðarljósi.