131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Fullnusta refsinga.

336. mál
[11:00]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Þetta frumvarp fékk mjög góða umfjöllun í allsherjarnefnd. Vil ég þakka formanni nefndarinnar fyrir ágæta fundarstjórn í þessu máli. Ég hef áður minnst á það að hún hefur ekki alltaf verið til fyrirmyndar og finnst mér þá rétt að taka fram þegar menn standa sig vel og þegar vinna þeirra er til eftirbreytni.

Þetta frumvarp sem hér er að verða að lögum að öllum líkindum er framhald af máli sem var flutt á síðasta þingi og var dregið til baka sem ég tel hafa verið gott mál. Það frumvarp var mjög slæmt og mér finnst einmitt til eftirbreytni þegar slæm mál eru dregin til baka. Mér finnst að það ætti að vera svo í fleiri málum.

Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða. Þó að það snerti eingöngu, að því er virðist fyrst, fanga, eitthvað á annað hundrað manns, snertir það miklum mun fleiri, aðstandendur fanga og börn. Það skiptir mjög miklu máli að hér sé vandað til verks. Einnig skiptir máli að menn gæti að fórnarlömbum afbrota.

Segja má að þetta frumvarp snerti allt þjóðfélagið. Fangar fara aftur út í samfélagið og því skiptir mjög miklu máli að ákveðin betrun eigi sér stað, að menn snúi a.m.k. ekki verri til baka út í þjóðfélagið en þeir voru þegar þeir fóru inn í fangelsið. Mér finnst leiðarljósið í þessu frumvarpi vera að huga að betrunarþættinum.

Frumvarpið er vissulega því marki brennt að það tekur mið af núverandi aðstæðum í fangelsunum. Þessi knappi lágmarksútivistartími, einn og hálfur tími, tekur t.d. mið af þeirri aðstöðu sem er á Litla-Hrauni. Því miður býður hún ekki upp á, eftir því sem við vitum best, rýmri útivistartíma þó svo að allir sem koma að málum vilji rýmka hann.

Einnig má segja að vistun gæsluvarðhaldsfanga á Litla-Hrauni sé vegna aðstöðuleysis. Samkvæmt almennum viðmiðunum, mannréttindaviðmiðunum, er ekki tilhlýðilegt að vista gæsluvarðhaldsfanga með afplánunarföngum. Þetta frumvarp gerir þó ráð fyrir því og er það vegna þessa aðstöðuleysis. Ákvörðun um samfélagsþjónustu er hjá fangelsisyfirvöldum og segja má að það sé að einhverju leyti vegna þeirrar aðstöðu sem fyrir er. Ég tel að mörgu leyti mjög vafasamt að samfélagsþjónustan sé einhvers konar ventill á fangelsiskerfið, ef fangelsin eru að yfirfyllast sé kannski mögulega hægt að stýra flæðinu inni í fangelsin með því að ákvarða um samfélagsþjónustu. Ástæðan fyrir því að þessu var ekki breytt nú er að það þarf að fara í frekari vinnu að mínu mati til að koma ákvörðun um samfélagsþjónustu til dómstólanna þar sem ég tel hana eiga heima.

Það sem skiptir öllu máli í fangelsismálum er að menn hafi það í huga að fangar fara aftur út í þjóðfélagið. Það ber að líta til þess að þeir snúi ekki til baka í fangelsin. Því miður sýna nýlegar rannsóknir að nokkuð stór hluti fanga, þ.e. 35% þeirra sem luku afplánun, hlaut dóm innan fimm ára á ný. Ég tel til mikils vinnandi að reyna að lækka þetta hlutfall.

Annað áhyggjuefni er að svo virðist sem yngri afbrotamenn séu líklegri til að vera dæmdir á ný en þeir sem eldri eru. Þess vegna ber að efla rannsóknir á því hvernig við getum dregið úr því að fólk fari í fangelsi. Ég ítreka að það er ekki mín skoðun að við tryggjum framfarir og lögum öll mein þjóðfélagsins með því að fylla fangelsin, heldur að unnið verði að því, bæði með forvarnastarfi og öðru, að komast hjá því að fólk lendi á þessari braut. Það er og á að vera neyðarúrræði að fólk fari í fangelsi.

Þetta frumvarp er til bóta og við í Frjálslynda flokknum styðjum það.