131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Fullnusta refsinga.

336. mál
[11:07]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég tel það sérstakt fagnaðarefni að svo góð samstaða hafi tekist um afgreiðslu þessa mikilvæga máls og ég vil lýsa ánægju minni með þróunina í meðförum þess frá því að frumvarp kom fram á síðasta þingi sem sætti allmikilli gagnrýni og augljóslega var ekki til þess fallið að skapa þá samstöðu sem nú hefur tekist. Ég held að þau vinnubrögð sem hér hafa verið ástunduð ættu að vera mönnum hvatning til að gera slíkt hið sama í fleiri tilvikum, leyfa málum að hafa eðlilega meðgöngu, taka á móti athugasemdum og sjónarmiðum sem fram koma og vinna þau í rólegheitum og af yfirvegun. Það veitir að mínu mati ekkert af að vönduð lagasmíð af þessu tagi, heildarlöggjöf um málaflokk eins og hér á við um fangelsismál, hafi meðgöngu upp á 2–3 ár, jafnvel frá því að fyrstu frumvarpsdrög eru kynnt eða sýnd á Alþingi. Þetta má hæstv. ríkisstjórn og einstakir hæstv. ráðherrar alveg sérstaklega hafa í huga þessa dagana því að enn eru uppi áform um að keyra í gegnum þingið nokkur umdeild frumvörp sem sáust jafnvel fyrst á borðum þingmanna eftir að frestur rann út í aprílbyrjun til að flytja hér mál.

Er ekki nokkuð á sig leggjandi til að ná árangri í málum af því tagi sem bersýnilega er að nást hér? Um þann vandasama og viðkvæma málaflokk sem fangelsismálin eru er sem sagt orðin góð þverpólitísk samstaða og það ég best veit allgott andrúmsloft í kringum málið úti í þjóðfélaginu þó að auðvitað séu athugasemdir gerðar af ýmsum við einstaka þætti. Það kann að vera að dómstólaráð, svo að dæmi sé tekið, sé ekki alveg sátt við að viðhafa það fyrirkomulag um ákvarðanir um samfélagsþjónustu sem hér á að hafa, þ.e. að þær séu í höndum Fangelsismálastofnunar. Það er þá einhver málefnalegur áherslumunur sem menn eru búnir að fara rækilega yfir og hafa komist að rökstuddri niðurstöðu um. Það er ólíku saman að jafna þegar svoleiðis háttar til eða þegar keyra á mál í gegn í krafti meiri hluta og gefa sér ekki tíma til að vinna þau fram til samkomulags og bæta þau.

Það eru nokkur atriði sem ég sé ástæðu til að nefna hér og varða framþróun á þessu sviði. Ég tek undir að tilfinning mín er að nýr forstjóri Fangelsismálastofnunar sé að vinna mjög gott starf. Sú framtíðarstefnumótun sem þar hefur verið unnin og er áfram unnið að er brýn og löngu tímabær. Viðhorf hafa sem betur fer breyst mikið í þessum efnum og menn nálgast nú þessi mál frá báðum áttum jöfnum höndum eins og rétt og skylt er, þ.e. annars vegar eru þær ákvarðanir samfélagsins að hneppa menn í fangelsi og láta þá sæta refsingu en hins vegar er auðvitað staða fangans, réttindi hans og mannréttindi sem líka verður að hafa í huga. Auðvitað er ekki síst von manna að hægt sé að aðstoða hann við að bæta ráð sitt þannig að vistunin geti orðið raunveruleg betrunarvist en ekki bara hörð refsing í anda hugsunarinnar um auga fyrir auga og tönn fyrir tönn sem endar með ósköpum eins og kunnugt er. Ef menn endurtaka slíkt verða fáir líkamspartar eftir hjá þeim sem í hlut eiga og í lenda.

Ég tel að samfélagsþjónustan sé geysilega mikilvægur þáttur þegar í hlut eiga vægari afbrot og menn eru að afplána vægari refsingar eins og á við í þeim tilvikum. Það ræðir auðvitað ekki um það að menn afpláni refsingu sína fyrir stórfellda glæpi og langa fangelsisdóma með samfélagsþjónustu en þetta á einmitt oft við um kannski fyrstu afbrot af vægari sortinni. Þá held ég að sú hugsun sem að baki liggur og sá þroski sem menn vonandi geta tekið út í gegnum það að horfast í augu við sjálfa sig og leggja sitt af mörkum í formi samfélagsþjónustu geti verið mjög gagnleg. Þetta hefur víða verið þróað og reynt mikið í sambandi við afbrot ungmenna. Aðrar þjóðir hafa viðhaft þetta um langt árabil og víða, að talið er, með verulegum árangri.

Það er auðvitað eitt vandamál í þessum efnum sem þýðir ekki annað en að horfast í augu við. Það tengist m.a. samfélagsþjónustunni, aðstöðu fanga til náms, útivistar og vinnu, og það eru húsnæðismálin, aðbúnaður fanga og sú umgjörð sem þessum málaflokki er búin af hálfu stjórnvalda og sérstaklega auðvitað fjárveitingavaldsins. Það er ósköp einfalt mál og blasir við hverjum manni sem reynir að kynna sér þetta eitthvað að það stendur framþróun á þessu sviði fyrir þrifum að ekki skuli hafa verið bætt betur úr aðstöðu hvað þetta snertir. Það þarf auðvitað einfaldlega að afleggja elstu fangelsin sem á engan hátt svara kröfum tímans eins og fangelsið við Skólavörðustíg og væntanlega einnig kvennafangelsið í Kópavogi. Önnur hafa verið endurnýjuð eða er verið að endurnýja þau, eins og fangelsið á Akureyri. Síðan hafa lengi verið uppi kröfur um að byggt yrði nýtt fangelsi og það þarf að vera praktískt mögulegt að aðskilja betur vistun gæsluvarðhaldsfanga frá afplánunarföngum. Þetta allt saman rekur sig á að úrbætur sárvantar í aðstöðunni. Ég held að til að botna þetta viðfangsefni sem að hluta til er undir í þessari lagasmíð verði menn að fara að reka af sér slyðruorðið og láta eitthvað róttækt gerast í þeim efnum á allra næstu árum.

Ég vil nefna einn þátt enn sem ekki varðar kannski þetta beint en er því þó náskyldur og tengdur og það er aðbúnaður hvað varðar vistun ósakhæfra afbrotamanna eða þeirra sem vista þarf í öryggisvistun. Þar er sömuleiðis um algerlega ófullnægjandi aðstöðu að ræða. Ég er sérstaklega að tala um réttargeðdeildina á Sogni. Það leiðir til þess að vistmenn þar eru á köflum fluttir yfir í almenn fangelsi og vistaðir þar ef þeir þurfa að vera í öryggisgæslu. Það er auðvitað ákaflega óheppileg samblöndun, ekki síður slæm og jafnvel enn verri en sú sem ég nefndi áður um að gæsluvarðhaldsföngum og afplánunarföngum sé blandað saman.

Það eru brotalamir í þessu hjá okkur sem nú snúa meira að praktískum hlutum og þeirri umgjörð sem þessari starfsemi er búin heldur en að það sé sú stefna sem framfylgt er eða að viljinn sé ekki til staðar til að gera vel. Ég held að þar hafi orðið mikil og ánægjuleg framför eins og það slær mig við að kynna mér þær hugmyndir sem hér eru fram settar og komið er ágætlega inn á, bæði í greinargerð með frumvarpinu og einnig í nefndaráliti allsherjarnefndar þar sem vísað er til þess sem nefndin hefur verið að kynna sér.

Ég vil nefna líka þá breytingu að þegar menn koma til vistunar sé gerð meðferðar- og vistunaráætlun sem geti til að mynda falið í sér að hluti af afplánuninni felist í meðferð til að ná tökum á áfengis- og vímuefnaneyslu. Þarna eru menn að reyna að takast á við þessa hluti samhliða með þeim hætti sem ég held að sé til fyrirmyndar og mikil framför fólgin í.

Þeir þættir, eins og samfélagsþjónustan, meðferðar- og vistunaráætlunin, möguleikar fanga til að stunda vinnu og aðra viðurkennda starfsemi og síðan að stunda nám og starfsþjálfun meðan á vistun stendur eru allt saman hlutir sem horfa í rétta átt og þarf að styrkja.

Ég held að líka sé búið að taka hér betur á ýmsum þáttum sem snúa að mannúðarsjónarmiðunum og mannréttindasjónarmiðunum, enda munu þeir aðilar sem sérstaklega hafa skoðað málið og höfðu gagnrýni fram að færa á hið fyrra frumvarp, á 130. þingi, vera mun sáttari við þá útgáfu sem hér er á ferðum og þær breytingar, kannski ekki síst eftir þær breytingar sem allsherjarnefnd leggur til að gerðar verði í fjölmörgum töluliðum.

Allt er þetta nú harla gott, frú forseti, og horfir til réttrar áttar þannig að ég held að ekki sé ástæða til að hafa um það öllu fleiri orð.

Ég endurtek og lýsi eftir því að það sem stendur upp á stjórnvöld, upp á Alþingi og fjárveitingavaldið, er að botna þetta mál með myndarlegu átaki á næstu árum í að stórbæta aðstöðuna þannig að hún torveldi ekki þróun á þessu sviði í rétta átt, í þá átt sem við viljum stefna með þessi mál, sem sagt að aðstaðan bjóði upp á þróun málaflokksins frá innilokunarhugmyndafræðinni. Það getur ekki verið markmið að menn séu geymdir einhvers staðar í dimmum kjöllurum, helst í hálfgerðum kulda og sagga. Stefnan hlýtur að vera hið gagnstæða, að reyna með örvandi aðstæðum og með því að styðja við bakið á mönnum að hvetja þá til að nota tíma sinn vel til að ná tökum á málunum, tökum á lífi sínu, og þá þarf til þess aðstöðu sem býður upp á slíkt.