131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Fullnusta refsinga.

336. mál
[11:20]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að setja á langa ræðu um frumvarp til laga um fullnustu refsinga og það nefndarálit sem mælt hefur verið fyrir. Ég vil þó segja að ég tel, og hef haldið þeirri skoðun á lofti í allsherjarnefnd, að frumvarpið feli í sér verulega mikla réttarbót eða í rauninni byltingu á þessu sviði sem er náttúrlega, eins og hér hefur komið fram, mjög viðkvæmt og margir aðilar í þjóðfélaginu hafa skoðun á. En engin spurning er um það að með lögfestingu þessa frumvarps erum við komin í þá stöðu sem ekki hefur verið uppi áður að þær réttarheimildir og réttarreglur sem gilt hafa í þessum málaflokki eru orðnar miklu skýrari en áður var. Það mun liggja miklu nánar fyrir með afdráttarlausari hætti hver réttindi fanga eru og hverjar skyldur þeirra eru, það sama má segja um refsivörslukerfið, þ.e. starfsmenn Fangelsismálastofnunar og fangelsanna og valdmörk þeirra gagnvart föngunum.

Ég ætla ekki að fara neitt nánar út í það. Ég tel að hér séum við komin með heildstæðan lagabálk sem tekur á öllum þeim meginatriðum sem máli skipta í þessum málaflokki. Ég hygg að í meðferð þeirra sem að málinu hafa komið, bæði innan hv. allsherjarnefndar og öðrum þeim sem um málið hafa fjallað, sé ljóst að hér vegast á varðandi þessar reglur hagsmunir ýmissa hópa, í fyrsta lagi fanga, í öðru lagi refsivörslukerfisins og í þriðja lagi almennra borgara. Þá á ég við kannski tjónþola eða fórnarlömb þeirra sem hafa lent í að á þeim hefur verið brotið eða aðstandendunum. Þessir þrír hópar hafa mjög sterkar skoðanir á þessum málaflokki. Ég held að segja megi að við meðferð málsins hafi af sanngirni verið tekið tillit til sjónarmiða allra þessara hópa þrátt fyrir að auðvitað átti maður sig á því að einstakir hópar hefðu viljað hafa viss atriði öðruvísi en fram kemur í frumvarpinu og þeim breytingum sem allsherjarnefnd leggur til að á því verði gerðar milli 1. og 2. umr.

Ég held að það sé rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir að auðvitað þurfum við að huga að framtíðinni í þessum málum og ég held að allir sé sammála um að huga þurfi að bættum húsakosti í þessu kerfi og huga að byggingu nýs fangelsis. Ég held að þetta sé málaflokkur sem alltaf hlýtur að vera til endurskoðunar, m.a. með hliðsjón af breyttum aðstæðum í fangelsunum, breyttum húsakosti o.s.frv. Það sama má segja um aðra mikilvæga þætti í refsivörslukerfinu eins og stöðu fíkniefnamála innan fangelsanna. Það þarf að hafa vökult auga með öllum þeim þáttum sem koma hér til skoðunar og skipta máli varðandi fangelsin í landinu.

Ég vildi koma hingað upp, frú forseti, vegna þess að ég á sæti í hv. allsherjarnefnd en var erlendis á fundi Norðurlandaráðs í Eistlandi þegar málið var tekið úr nefndinni og gat því ekki verið við afgreiðslu nefndarálitsins eins og þar kemur fram, en ég vildi lýsa því yfir að ég hef farið yfir nefndarálitið og tekið þátt í meðferð þessa máls í nefndinni nánast að öllu leyti og vildi að það kæmi fram að ég er samþykkur nefndarálitinu eins og það hefur verið lagt fram.

Ég taldi rétt, frú forseti, að taka það sérstaklega fram við umræðu um málið.