131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[12:44]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er hjartanlega sammála þeirri grundvallarafstöðu að það sé aldrei of mikið gert af því að hjálpa fólki til sjálfsbjargar. Bæði er mikilvægt að aðstoða fólk sem er atvinnulaust við að fá starf og einnig er mikilvægt að leggja áherslu á endurhæfingu, að fólk sem fer á örorku verði ekki afskrifað þar til eilífðarnóns. Í sumum tilvikum kunna aðstæður, heilsufar að breytast eða að hægt er að finna lækningu o.s.frv.

Það er líka alveg rétt sem hv. þingmaður benti á, að afstaða fólks til margvíslegra bóta hefur breyst að því leyti að fólk lítur á þær sem sjálfsögð og eðlileg réttindi. Það á eflaust einnig við um atvinnuleysisbæturnar. En ég held, varðandi örorkuna og atvinnuleysisbætur, að það sem fyrst og fremst vakir fyrir því fólki sem er á mörkum þess að geta unnið og þess að heilsan bresti, sé hið almenna viðhorf á Íslandi, að vilja helst halda sér sem lengst inni á vinnumarkaði. Þegar vinnumarkaðurinn gerist grimmari og óbilgjarnari er fólki hins vegar þröngvað til þess að gefast hreinlega upp og lýsa sig sjúkt og óvinnufært.